Forsíða

REYKJAVÍKURBLÚS

Kabarett - 115 mín.
6 leikarar og hljómsveit eða undirleikari
Sögusviðið er Reykjavík



Um verkið

Reykjavíkurblús varð til í samvinnu tveggja höfunda, leikstjóra, tónskálds og leikhóps. Þema verksins er Reykjavík frá morgni til kvölds og útgangspunktur hópvinnunnar var borgin og mannlíf og tíðarandi í henni í upphafi níunda áratugarins.

Verkið var byggt upp á spuna í kringum söngtexta höfundanna og ljóð eftir ýmsa höfunda. Höfundar ljóða voru: Einar Ólafsson, Norma E. Samúelsdóttir, Birgir Svan Símonarson, Ólafur Sveinsson og Sigurður Pálsson.

Reykjavíkurblús var frumsýndur í Stúdentaleikhúsinu árið 1983.

Flytjendur
Ari Matthíasson
Edda Arnljótsdóttir
Guðríður Ragnarsdóttir
Magnús Ragnarsson
Soffía Karlsdóttir
Stefán Jónsson
Þorvaldur Þorsteinsson leysti Magnús af á síðustu sýningunum

Textagerð og samantekt: Benóný Ægisson og Magnea Matthíasdóttir
Leikstjóri: Pétur Einarsson
Tónlist: Benóný Ægisson
Tónlist og undirleikur: Kjartan Ólafsson
Leikmynd: Guðný Björk Richardsdóttir
Lýsing: Ágúst Pétursson
Leikhljóð: Einar Bergmundur

Handrit verksins er því miður ekki til á tölvutæku formi en hér eru tveir söngtextar úr því:

Bónuskvæði
útpældur uppmældur metinn og talinn
stend ég í stressi og kútta eins og galinn
bandið það gengur æ nú gengur það ekki lengur
ég ýti á takka og áfram með þig drengur
pungsveittur streða því ég er í bónus
ekki slaka á því þá fer allt í mínus
andvarp frá brjóstinu berst upp til himna:
guð blessaðu þá sem leyfa mér að vinna

að skipa og skamma það kunna þeir
að reikna og rövla í símann
og látokkur vinna helmingi meir
fyrir helmingi minna á tímann
en bónusinn hann er samt blessun á jörð
og síst mun ég lasta þá kalla
sem gefokkur 5 aura meira í arð
síst þegar víxlarnir falla

-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-

Kjötmarkaðurinn
ef þú situr aleinn heima
ekkert gott í sjónvarpinu
ef makinn er að gera þig galinn
geristu leiður á karpinu
eðef þú ert leiður og lúinn
langar samt ekki í hátt
komdu þá við á kjötmarkaðnum
og kræktu þér í feitan drátt

sértu fráskilinn frábitinn kvöðum
sem fylgja hjónabandinu
en náttúran kallar þú neyðast að gera
nokkuð til bóta ástandinu
þig langar bara hvað sem það kostar
að kanna einhvern hátt og lágt
komdu þá við á kjötmarkaðnum
og kræktu þér í feitan drátt

ef þú átt engan elskhugí bænum
engin númer að hringja í
eða þá ef enginn svarar
afbrýðin kraumar hjartanu í
enginn ætlast til að þú komir
einlífið kvelur þig ansi grátt
komdu þá við á kjötmarkaðnum
og kræktu þér í feitan drátt

© Benóný Ægisson - Textana má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar


Orgvél ehf - Skólavörðustíg 4C - 101 Reykjavík - gsm 897 8694- netfang: orgvel@orgvel.is