Forsíða

EGGJUN JÓFRÍÐAR SIGNÝJAR

Rokkópera - 45 mín
Amk. 4 leikarar, hljómsveit og kór
Sögusviðið er Reykjavík og alheimurinn









Um verkið

Sesar Jón Arason er dæmigerður skoðanalaus hálfviti sem vinnur í álveri á daginn en er klósettvörður í klúbbnum á kvöldin. Hann er semsé fyrirmyndarborgari í þjóðfélagi þar sem Dómsogkirkjumálakötturinn ræður lögum og lofum og er sáttur við að kötturinn ákveði það fyrir sig hvaða öfl eru óæskileg.

Marsbúar gera innrás og handbendi Dómsogkirkjumálakattarins, Friðjón fógeti og lögreglukórinn, banka uppá hjá Sesari Jóni og krefjast þess að hann taki þátt í baráttunni gegn þeim. Sesar Jón neitar að bera vopn. Kona hans Jófríður Signý eggjar hann lögeggjan en allt kemur fyrir ekki. Sesar Jón neitar. Allt virðist komið í óefni og fát kemur á Sesar Jón. En í fátinu dettur hann niðrá einu lausnina sem öll þjóðin getur sætt sig við. Hann finnur upp hinn þjóðlega diskó-takt og Neinei-diskóið breiðist út eins og eldur í sinu

Dómsogkirkjumálakötturinn reynir að grafa undan vinsældum Sesars Jóns en engum tekst að fá hann til að hætta að dansa. Að lokum stígur Sesar Jón upp til himna ásamt Marsbúunum.

Orghestarnir frumfluttu rokkóperuna Eggjun Jófríðar Signýjar á Hótel Borg árið 1981. Tónlist og texti verksins er eftir Benóný Ægisson.

Eftirtaldir tóku þátt í uppfærslunum:

Benóný Ægisson
Brynjólfr Stefánsson
Gestur Guðnason
Guðjón Rúdolf Guðmundsson
Guðjón Ragnarsson
Íris Sigurjónsdóttir
Jóhanna Þórhallsdóttir
Karl Sighvatsson
Margrét Rún Guðmundsdóttir
Matthildur Sigurjónsdóttir
Sigurður Hannesson
Stefanía Gísladóttir
Örn Karlsson

Handrit verksins er því miður ekki til á tölvutæku formi en hér eru söngtextar úr því:

Dómsogkirkjumálakötturinn:
Ég er hér og ég er þar
ég heyri og ég hlusta
ég á bindi ég á bar
ég var fermdur með bursta
ég er til til að tæla og taka
lífið er hnífur lífið er kaka
flokkast í okkur sem taka í
og ykkur sem tekið er í

Lögreglukórinn:
Bimm bamm bibbidí bó
krækjum í þá kló
eltumðá útum borg og bí
kýlum þá kollinn í
hæ hó hopp og hí
stingumðeim steininn í

Dómsogkirkjumálakötturinn:
Þar sitjið þið og þrasið
um það sem ég matykkur á
masið er lamað og lasið
og lífið og tilveran grá
brautin stráð bankabasli
busl í susl og hnasl í drasli
draumar um að taka í
og draumar sem við tökum í

Lögreglukórinn:
Bimm bamm bibbidí bó
krækjum í þá kló
eltumðá útum borg og bí
kýlum þá kollinn í
hæ hó hopp og hí
stingumðeim steininn í

Dómsogkirkjumálakötturinn:
Við erum hér og við erum þar
níðhöggar á öllum nárum
við höfum hunda við höfum her
að haldykkur meðan við klárum
við ölum ykkur á ótta
þið bjargist ekki undan á flótta
við erum þeir sem taka í
og þið þau sem tekið er í

Lögreglukórinn:
Bimm bamm bibbidí bó
krækjum í þá kló
eltumðá útum borg og bí
kýlum þá kollinn í
hæ hó hopp og hí
stingumðeim steininn í

-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-

Maðurinn hennar er maur
mölétinn leiðindagaur
hann ekur í bæinn
eldsnemmá daginn
maðurinn hennar er maur

hún er drottning í hólfi í höll
drepleiðist ósköpin öll
dreymir um villu
og droppar svo pillu
drottning í hólfi í höll

þau mauruðu maurildin smá
sem maurétin maurildast hjá
þau þurfa þau til
að skrifuppá víxil
mauruðu maurildin smá

maðurinn hennar er maur
margfaldar glaður sinn aur
hann átti hana
og hún átti hann
en þau átti það eða hitt

-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-

Sesar Jón Arason:
Ég vaknaði í morgun og glenntupp mína skjá
við að fógetinn af fítonskrafti messaði skjáinn á

Friðjón fógeti:
Það eru komnir menn frá Mars mættu niðrá stöð
ég skikka þig í varalið það er borgaraleg kvöð

Lögreglukórinn:
að hjálpa löggunni - að styðja sjórnina

Friðjón fógeti:
að halda uppi lögum og reglum og færa fórnina
Að landinu sækir nú óvinafjöld
algjörlega passalausir greiðekki flugvallargjöld
þetta finnst okkur á stöðinni óforsvaranlegt
aldrei upplifað annaðeins - finnst þér þettekki frekt?

Sesar Jón Arason:
Hvað er að hvað er að - maður hvað er að?

Friðjón fógeti:
Hvað er að hvað er að? - hvað heldurðu að sé að?

Friðjón fógeti og Lögreglukórinn:
Það eru komnir menn frá mars
rauðir menn og ruglaðir
menn sem reykja hass
reykja hass
liggirðu þarna öllu lengur
og lúinn hvílir rass
hvílir rass rass rass rass
verður lýðræðið að loka búð
og löggan að melda pass
melda pass pass pass pass

Dómsogkirkjumálakötturinn:
Sesar Jón Arason sagðist ekki skilja
Sesar Jón Arason sagðist ekki vilja
mælir Sesars Jóns fullur var og skekinn
hann fór að rífa kjaft og tafarlaust var rekinn

Lögreglukórinn:
Sesar Jón Arason seldi smurða smokka
Sesar Jón Arason bauð af sér lítinn þokka

Dómsogkirkjumálakötturinn:
Jófríður Signý kona Jóns ákveður nú að taka málin í sínar hendur. Eggjar hún mann sinn til að standa í stykkinu fara í fjarlæg lönd og vega mann og annan.

Jófríður Signý:
Frelsið æpir á þig er eitthvað að þér Jón?
ertað verða aumingi eða ertu sljór?
þú heldur kannskjað þú fáir að fara uppá mig
ofurselda hommum hassog helvítis rússunum?

Dómsogkirkjumálakötturinn:
Sesar Jón Arason lyfti undir punginn
af alefli lagðist á hann lífsalvöruþunginn
hann vissi ekki lengur hvað til bragðs hann ættað taka
hann var kominn alltof langt til að snúið yrði til baka

Lögreglukórinn:
Sesar Jón Arason seldi smurða smokka
Sesar Jón Arason bauð af sér lítinn þokka

© Benóný Ægisson - Textana má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar


Orgvél ehf - Skólavörðustíg 4C - 101 Reykjavík - gsm 897 8694- netfang: orgvel@orgvel.is