Um verkið
Uppfræðsla Litla trés er afskaplega hjartnæm bók um skynjun ungs indjánadrengs sem er að uppgötva heiminn. Bókin gerist í kreppunni og á mörkum nútíma og fortíðar í Norður-Ameríku. Hún fjallar um ást, vináttu og væntumþykkju en er líka harmsaga indjána í Bandaríkjunum.
Indjánadrengurinn Litla tré er fimm ára þegar hann verður munaðarlaus og fer að búa hjá afa sínum og ömmu í fjöllunum. Þá hefst uppfræðsla hans og hann lærir ýmislegt gagnlegt hjá gömlu hjónunum, allt frá lögmáli Leiðarinnar, sem er aðferð Sérókanna til að lifa í sátt við náttúruna, til viskíbruggunar.
Leikgerðin er framhaldsleikrit fyrir útvarp, fjórir þættir alls og eftirfarandi eru kynningar á þeim.
1. þáttur
Litla tré kynnist leikritum herra Shakespeares, fer á refaveiðar og kemst að því hvernig ferð til Chattanooga getur læknað menn af drykkjuskap. Honum er sagt frá því þegar Sérókarnir voru hraktir burt úr heimkynnum sínum og kennt að þykja vænt um fólk.
2. þáttur
Litla tré er sagt frá Leið táranna og öðrum raunum forfeðra sinna, því afi hans segir að það sé nauðsynlegt að þekkja fortíðina; án hennar eigi maður enga framtíð. Hann lærir líka að brugga viskí og þekkja stórborgarbófa frá öðru fólki.
3. þáttur
Litla tré kemst að því af biturri reynslu að kristnum mönnum er ekki treystandi í viðskiptum og afi hans bendir honum á að þó maður renndi hníf í gegnum belginn á stjórnmálamanni í hálfan dag væri ólíklegt að maður rækist á sannleikskorn.
4. þáttur
Litla tré lærir að banka í vatnsmelónu og að góð biblíusaga kenni manni að gæta sín á kvenfólki sem reynir að hella mann fullan. Hann lærir líka að reikna og ydda blýant, fær nýjan frakka og er sendur á munaðarleysingjahæli.
Uppfræðsla Litla trés var frumflutt í Útvarpsleikhúsi RÚV árið 2007.
Leikendur
Anna Kristín Arngrímsdóttir
Atli Rafn Sigurðarson
Árni Tryggvason
Baldur Trausti Hreinsson
Edda Lárusdóttir
Erlingur Gíslason
Gunnar Eyjólfsson
Jóhann Sigurðarson
Jón Hjartarson
Kolbrún Anna Björnsdóttir
Kristján Franklín Magnús
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
Sóley Anna Benónýsdóttir
Sólveig Arnarsdóttir
Steinn Ármann Magnússon
Tumi Steinsson
Tónlist: Pétur Grétarsson
Hljóðvinnsla: Einar Sigurðsson
Leikstjóri: Lárus Ýmir Óskarsson
|