Forsíða

SÓLARLITLIR DAGAR

Gleðileikur - 150 mín.
12 hlutverk - 6 karlar og 6 konur
Sögulegt verk sem gerist á 16. öld

Handrit

© Benóný Ægisson - Verkið má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar


Um verkið

Sólarlitlir dagar er leikrit með söngvum og gerist á Laugarbrekkuþingi á Snæfellsnesi á aftökudegi Bjarnar Péturssonar á Öxl. Hópur umreisandi leikara kemur á staðinn og hyggst notfæra sér þann mannsöfnuð sem búist er við til að slá dans og ganga til leika. Þar hitta þau fyrir leikarann Aðalgrím sem er nýkominn frá Englandi og hefur kynnst þeim nýju straumum í leikhúsi sem þar ráða ríkjum. Þau ákveða að sýna sögu Axlar-Bjarnar í leikbúningi og þannig blandast saman leikur og veruleiki, þjóðsagan og atburðir á aftökustaðnum og átök leikaranna við yfirvaldið, einkum kirkjuna sem um þessar mundir barðist hatrammlega gegn allri léttúð eins og leikjum og dansi.

Sólarlitlir daga hefur ekki verið sviðsett en það var leiklesið í Þjóðleikhúsinu 1998 og árið 2000 var það valið til þátttöku í leiklistarhátíð Sjálfstæðu leikhúsanna, Á mörkunum, en ekki tókst að fjármagna uppsetningu þess enda er það mannmargt og flókið. Hér á eftir fer greinargerð vegna umsóknar um þátttöku í leiklistarhátíðinni “Á mörkunum” en hún er á margan hátt lýsandi fyrir verkið sem er fyrst í þríleik um Axlar-Björn og niðja hans.


Sólarlitlir dagar

Saga Manndrápa-Bjarnar eins og leikarar sögðu
hana á Laugarbrekkuþingi 1596

Leikurinn gerist á Laugarbrekkuþingi á Snæfellsnesi á aftökudegi Bjarnar Péturssonar á Öxl. Hópur umreisandi leikara kemur á staðinn og hyggst notfæra sér þann mannsöfnuð sem búist er við til að slá dans og ganga til leika. Þar hitta þau fyrir leikarann Aðalgrím sem er nýkominn frá Englandi og hefur kynnst þeim nýju straumum í leikhúsi sem þar ráða ríkjum. Þau ákveða að sýna sögu Axlar-Bjarnar í leikbúningi og þannig blandast saman leikur og veruleiki, þjóðsagan og atburðir á aftökustaðnum og átök leikaranna við yfirvaldið, einkum kirkjuna sem um þessar mundir barðist hatrammlega gegn allri léttúð eins og leikjum og dansi.

Sextánda öldin var mikið umbrotatímabil á Íslandi. Siðaskiptin setja mark sitt á öldina og sú tilfærsla valds sem fylgdi þeim; frá kirkju til konungs, frá innlendum valdsmönnum til erlendra. Samtímis því sem þær leifar af heiðni sem kaþólska kirkjan hafði horft framhjá eða aðlagað eru upprættar af siðbótarmönnum leika alþjóðlegir straumar um landið og hér er fjöldi Englendinga og Þjóðverja. Á þessari öld uppbrota og rótleysis, um líkt leyti og yfirvöld búa sig undir það að taka þjóðina andlegu hreðjataki sem ná hápunkti í galdrabrennunum á 17. öld, eru skelfilegustu glæpir Íslandssögunnar framdir: ránmorð Bjarnar Péturssonar á Öxl. Allar samtímaheimildir um þetta sakamál eru nú glataðar og er leikritið byggt á þjóðsögunni og öðrum heimildum.

Það tiltæki lítils leikflokks að troða upp á almannafæri í lok sextándu aldar hefði ekki verið áhættulaust því 1592 hafði Oddur Einarsson, biskup í Skálholti, fordæmt gleðisamkomur almennings svo sem hestaþing, vikivaka og smalabúsreiðar og allar samkomur þar sem fram fóru leikir, söngur og dans. Þessi gerningur Odds biskups var einungis upphafið á aldalöngu starfi yfirvalda til að gera Íslendinga að gleðivana þjóð. Allt sem var skapandi var smámsaman bannað, það bundið í viðjar eða því hreinlega útrýmt. Þegar Íslendingar máttu ekki lengur koma saman til að gleðjast týndu þeir niður bæði tónlist og dansi, ljóðið sem var einfalt og tært á 16. öld varð smámsaman að kenningasúpu og hálfgerðu dulmáli fyrir innvígða og allur leikur og gleði drepin niður í landanum þar til ekkert var eftir nema andlaust fylleríið.

En voru til einhverjir leikflokkar á sextándu öld? Þorgeirs leikara er getið í alþingisbókum frá 1590 vegna hórdómsbrots en hver var hann? Umfjöllun um leiklist á Íslandi sem er eldri en 200 ára gömul verður aldrei annað en ágiskun. Hafi einhverjir leikar verið iðkaðir fyrir skólaleikana, sem er hið viðurkennda upphaf leiklistar í landinu, þá er líklegast að siðbótin hafi gengið af þeim dauðum sem og öðru apaspili. Í verkinu Sólarlitlir dagar gefur höfundur sér að eitthvað eimi eftir af leiklist aftan úr heiðni, að vitneskjan um trúðleika hafi borist með sigldum Íslendingum, að kaþólska kirkjan hafi staðið fyrir helgileikum og út úr þeim hafi myndast einhverskonar karnivalhefð (Smalabúsreiðar og síðar Herranótt) og vitað er að ýmsir söng og dansleikir voru iðkaðir. Úr þessari flóru spretta Þorgeir leikari og fylgifiskar hans en Aðalgrímur þekkir enskt leikhús sem var að líta sinn blómatíma og hann þekkir einnig evrópsku hefðina.

Verkinu er ekki ætlað að vera sagnfræðileg heimild eða þjóðháttafræði heldur skáldskapur sem reynir að fanga andblæ þessa tíma. Þó hefur þess verið vandlega gætt að baklandið sé pottþétt með því að hafa persónur og atburði sagnfræðilega skothelda. Þannig að atburðir verksins hefðu getað gerst ef…

Form
Leikarar eru alls tólf og kynjaskipting er jöfn. Leikararnir fjórir bregða sér í margra kvikinda líki og leika hin ýmsu hlutverk þegar saga Axlar-Bjarnar er sögð. Raunverulegar persónur sögunnar, Björn, Þórdís kona hans, Ormur fóstri hans, sýslumaðurinn, presturinn og böðullinn eru tvöfaldar í roðinu; þær eru fulltrúar sjálfra sín á þingstaðnum en taka einnig þátt í “leiknum í leiknum”. Að auki koma þrjár dans og söngmeyjar (harlekínur) fram og er hlutverk þeirra að tengja atriði og vera fulltrúar almúgans og áhorfandans.

Hugmynd mín er sú að ekkert hlé sé á milli atriða og færu búninga- og senuskipti fram fyrir allra augum enda gerist leikurinn að mestu utanhúss við frumstæðar aðstæður.
Leikararnir yrðu alltaf sjáanlegir og ef þeir eru ekki að flytja texta gætu þeir verið að skemmta fólki með ýmsum trúðleikum, leika listir, juggla, ganga á stultum eða völtum o.s.frv.

Búningar
Búningar tækju að einhverju leiti mið af klæðnaði fólks á 16. öld en leikarar skæru sig úr með litríkari klæðnaði t.d. ásaumuðum bótum og slíku. Persónurnar eiga sér að vissu marki hliðstæður í karakterum Comedia dell´arte og hugsanleg væri að búningar vísuðu til þeirra t.d. í litavali.

Málfar
Ekki er reynt að endurskapa málfar 16. aldar enda ekki vitað með vissu hvernig talað mál var þá. Ritað mál frá þessum tíma er í þýsk-dönskum flækjustíl og afskaplega óaðlaðandi. Höfundur hefur þá einu reglu að vanda mál sitt og nota ekki orð sem eru augljóslega 20. aldar tilbúningur. Hluti textans, einkum í “leikritinu í leikritinu” er í einhvers konar ljóðformi þ.e.a.s. notaðir eru stuðlar, höfuðstafir, endarím og innrím en þó án nokkurrar samræmingar eða heildarreglu. Ekki er reynt að hafa ljóðlínur jafnlangar (nema á völdum stöðum þar sem enskt form (blank verse) er notað) heldur fremur hugað að hrynjandi setninganna enda er ekki verið að reyna að skrifa sextándualdar leikrit í stíl Shakespeares heldur nútímaverk og þá er ekki hægt að horfa framhjá þeirri þróun sem ljóðformið hefur tekið síðan á dögum Vilhjálms S. og Hallgríms Péturssonar

Tónlist
Í gerð söngtexta hefur verið farin sú leið að nota þau form sem tíðkuðust á 16. öld, einkum vikivaka- og þuluformið. Oft eru notuð gömul viðlög eða glefsur úr öðrum kvæðum eins og alsiða var við gerð danskvæða. Við samningu tónlistar er hugmyndin að leitað verði fanga í þjóðlegri íslenskri tónlist en vegna Aðalgríms sem er menntaður í Evrópu mætti einnig flétta inn í hljóðmynd verksins 16. aldar alþýðutónlist frá meginlandinu.

Best færi auðvitað á því að leikarar lékju sem mest af tónlistinni sjálfir en einnig mætti notast við falda hljóðfæraleikara eða tónlistarupptöku en leikarar létu sem þeir spiluðu. Þau hljóðfæri sem þeir lékju á væru flautur, trumba, lúta og harpa (fiðla, langspil). Þó er það ekkert skilyrði að tónlistin sé forn; það er hugsanlegt að nota nútímahljóðfæri.

Dans og leikir
Við notkun dansleikja og dans er líkast til best að túlka frjálslega. Það er ekki vitað hvernig dansað var á Íslandi á sextándu öld en horft hefur verið til hringdansa Færeyinga sem hliðstæðu. Þeir eru hinsvegar ekki sérlega sjónrænir né líklegir til að virka í leikhúsi.

Lokaorð
Verkið Sólarlitlir dagar hefur verið með í smíðum síðan 1996. Meðfylgjandi handrit er 3. útgáfa verksins og gæti það legið til grundvallar smiðjuvinnu með leikstjóra, leikurum, tónskáldi, danshöfundi og tæknifólki. Þar sem verkið er nokkuð flókið í formi og gerir ráð fyrir allnokkurri færni og kunnáttu af öllum þátttakendum er nauðsynlegt að allir komi að endanlegu sköpunarferli verksins. Þá er einnig nauðsynlegt að forðast vaðmálstilhneigingu þá sem er allt of algeng þegar verk sem eiga að gerast á Íslandi fyrr á öldum eru færð upp og er það stórundarlegt þegar það er haft í huga að flestum finnst sjálfsagt að gera tilraunir þegar gömul erlend verk eru sett upp, t.a.m. verk Shakespeare´s. Skuggasveinn er dauður og 21. öldin gengur brátt í garð.

Reykjavík 10. janúar 2000
Benóný Ægisson

Orgvél ehf - Skólavörðustíg 4C - 101 Reykjavík - gsm 897 8694- netfang: benaegis@simnet.is