GLÆSIBÆJAREINTÖLIN

ÁLITSGJAFI

SÖNGVARI

VENJULEG STELPA

NEFNDARFORMAÐUR

SYSTIRIN

STÓRKARL

DANSMÆR

KNATTSPYRNUÁHUGAMAÐUR

FYRIRSÆTA

SJÓMAÐUR

DJÓKARI

HÚSVÖRÐUR

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Ógeðslega venjuleg stelpa

Það er ekkert merkilegt við mig
ég er bara venjuleg stelpa
bara ógeðslega eitthvað svona
venjuleg
ég vinn hérna í sjoppunni
og svo skúra ég part hérna á kvöldin
ég vil svona frekar gera það á kvöldin
þá er betra að fá pössun
og ég þoli ekki að vakna snemma á morgnana
eiginlega um miðja nótt
sérstaklega ekki á veturna
þegar það er kalt
og dimmt
og ógeðslegt
og allt frosið
eða í brimsöltu slabbi
og maður með hor

Það byrjaði að koma til mín
svona..
fyrst lágt og ógreinilega
svona eins og svona..
muldur inní mér
ógeðslega lágt eitthvað og óskýrt
en smám saman svona..
greindi ég orðaskil
sem voru þó engin orðaskil
því þetta var svona..
alltaf sama orðið

alltaf sama orðið
fyrst lágt
og svo
svona..
svona hærra
og hærra
svona með
vaxandi
styrkleika:
bjúsi
bjúsi
bjúsi
bjúsi
bjúsi!
bjúsi!
bjúsi!
bjúsi!
BJÚSI
BJÚSI
BJÚSI
BJÚSI
BJÚSI!
BJÚSI!
BJÚSI!
BJÚSI!
þangað til það vall fram eins og fljóðbylgja
með ærandi hávaða
sem ætlaði að gera mig geðveika:
BJÚSI! BJÚSI! BJÚSI! BJÚSI!
og ég skildi ekkert í því
hvert þessi rödd innan í mér var að fara
eða hvað hún var að reyna að segja mér

Því Bjúsi er ekkert orð
allavega ekki á íslensku
eða ég hafði aldrei heyrt það fyrr

En svo rann það upp fyrir mér
og ég get svarið það
að mér rann kalt vatn
milli skinns og hörunds

Þetta var svona..
svona látinn maður að vitja nafns

Það er eina skýringin á þessu

Ég veit vel að Bjúsi er ekkert nafn
en það getur vel verið gælunafn
og ég þekki strák sem heitir Gummi
hann heitir ekki Guðmundur og er kallaður Gummi
hann var skírður Gummi eftir frænda sínum
sem öllum þótti svo vænt um
og fór í sjóinn

En hvað er hann að vitja nafns hjá mér?
hugsaði ég
manneskju sem er ekki einusinni ólétt?
hélt ég þá
Hversvegna fer hann ekki eitthvað annað?


Mér fannst þetta líka soldið..
eitthvað svona..
ég meina..
svona strangt til tekið var hann draugur
steindauður og allt það

En auðvitað vandist þetta
eins og allt annað

Þetta er búið að vera ógeðslega erfittt fyrir mig
ég verð að segja það
sérstaklega núna
ég hef aldrei staðið upp áður
og talað við svona margt fólk í einu
einusinni talaði ég reyndar á AA-fundi
en það var allt öðruvísi og ekki svona margir
....
hei!
ég er ekkert svona..
alki eða fíkill eða neitt
ef það er það sem þið haldið
neeei
ég fór bara í meðferð af því allir aðrir voru að fara
ég er ekkert með ofskynjanir eða svoleiðis

Mér langaði bara til að segja frá þessu
ef þetta gæti verið svona..
einhverjum til gagns
ég meina..
kannski eru einhverjar aðrar stelpur
svona venjulegar eins og ég
að heyra eitthvað muldur
eða svona..
háværar raddir innan í sér
sem tönnlast á einhverri merkingarleysu
og stelpurnar halda að þær séu að verða geðveikar
og gera sér ekki grein fyrir því
að einhver er að vitja nafns

Og svo eru það auðvitað þeir
sem láta sér ekki nægja að vitja nafns
heldur vitja líka barns

En maður er svosem í sömu stöðu
og svo margar einstæðar mæður

Við Bjúsi litli höfum það bara fínt

 

© Benóný Ægisson


Efst á síðu