Gamli sjómaðurinn
Ég var ekki fæddur þarna
vanur hafinu
víðáttunni
frelsinu
fannst alltaf eins og
þessi andskotans fjöll
væru að hrynja yfir mig
Ég var að koma að sunnan
á leiðinni norður
allar rútur stoppuðu þar
þá
það breyttist eftir að nýja brúin kom
Ég átti víst pláss á síldarbát
ákvað að gista nóttina
hitti unga stúlku og fór með henni út í móa
þegar rútan hélt áfram varð ég eftir
fór aldrei aftur á sjóinn
afgreiddi bensín og olíu
bætti dekk og sópaði
á meðan það entist
Hún var svo falleg að manni varð illt
menn sneru sig úr hálsliðunum
þegar hún gekk hjá
það var eitthvað tryllt og óhamið við hana
og menn fundu hjá sér knýjandi þörf
til að komast yfir hana
Ég stóð í stöðugum slagsmálum
Konur eru undarlegar skepnur
þær leiða þig burt um nótt
og eru svo fallegar að maður fær hnút í magann
En hvert eru þær að fara með þig?
Hvað eru þær að vilja?
Þær ætla að sýna þér
hverskonar andskotans aumingi þú ert
Íslenskar konur
ég þekki þær
Álfkonur
huldumeyjar
sem sofa hjá þér
giftast þér
eignast með þér börn
og botnlausar skuldir
jarða þig á endanum
(yfirleitt)
En hefurðu kynnst þeim?
Þekkirðu þær?
Andskotinn hafi það
þú ert sama fíflið og þú varst
þegar þær leiddu þig burt um nótt
Það er ekki hægt að rökræða við þær
um leið og þú opnar munninn
kemstu að því að þú ert hálfviti
þær tala við þig í sama tóni og börnin
og ef þú berð í borðið
fjarlægja þær allt brothætt
Þær ansa engri vitleysu
því þær eru álfkonur
Ég fyrirgef henni aldrei
að hún skyldi fara á undan mér
Því hvað er ég núna?
Hvað er ég eiginlega?
Forngripasafn - fullt af minningum
net sem hefur slitnað upp
en heldur áfram að veiða
í tilgangsleysi
drauganet
Drauganet
í elliblokk
fyrir sunnan
© Benóný Ægisson
|