GLÆSIBÆJAREINTÖLIN

ÁLITSGJAFI

SÖNGVARI

VENJULEG STELPA

NEFNDARFORMAÐUR

SYSTIRIN

STÓRKARL

DANSMÆR

KNATTSPYRNUÁHUGAMAÐUR

FYRIRSÆTA

SJÓMAÐUR

DJÓKARI

HÚSVÖRÐUR

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Feitlagni dægurlagasöngvarinn

Siggga sparkaði mér út áðan
hah
bjóst svo sem við því
það var allt búið hvort sem er
var svo sem aldrei neitt neitt
ef út í það er farið
hah
en ég á eftir að sakna krakkanna hennar
...
ég meina það

Svo..
ég býst við að nú hafi ég góða ástæðu
til að drekkja sorgum mínum
hah
verst að ég má ekkert drekka lengur
lifrin skilurðu
hætti að ráða við þetta
hah
fór á Vog
Staðarfell
allan hringinn
ekki smakkað dropa síðan
sakna þess ekki
...
nei í alvörunni

Nei
ég lýg því
langar alltaf í glas
en læt það ekki eftir mér
þó ég þoli ekki að vera edrú innan um fullt fólk

Horaðist þegar ég hætti að drekka
lúmskur sykurinn í víninu
hleðst utan á mann
fór allt þegar ég hætti
og fólk fór að horfa á mig
eins og það kannaðist við mig
en kæmi mér ekki fyrir sig
í stað þess að horfa á mig og hugsa:
Þarna er þessi!
hroðalega er maðurinn orðinn feitur

Ókei
ég hef alltaf verið feitur
ég var akfeitt barn
sá sem foringjarnir kusu síðastan í liðið
alltaf síðastur
alltaf síðastur í öllu:
Þið fáið hann
haha
hlakkandi eins og þeir hefðu fengið mark í forgjöf
endaði með því að ég hætti að sækjast eftir því að vera með
og varð auðvitað ennþá feitari fyrir vikið

Það er merkilegt að þó maður verði mjór
þó maður minnki um fjölmörg númer
þá heldur maður áfram að hugsa feitt
ég meina:
skyldi ég komast þarna í gegn?
er þetta of þröngt fyrir mig?
vera alltaf að skáskjóta sér í aðvífandi þrengslum
þó maður viti að það hefur enga þýðingu
þegar maður er jafnbreiður á þykktina og þverveginn

Ég held meira að segja að ég haldi áfram að ganga í fötum
sem ég ímynda mér að klæði af mér spikið
þó ég sé ekkert feitur lengur

Þetta er bara ég
hah
bara ég
óvirki fituhlunkurinn!

Hitti Siggu í meðferðinni
og gerðist meðvirkur með henni
þoldi hana aldrei í raun og veru
því hún er ömurleg manneskja
þó hún eigi yndisleg börn
Hún er ein af þessum ölkum
sem ættu að drekka
því þá hefði hún
að minnsta kosti þá afsökun
að hún hefði verið full
Þegar hún er edrú hefur hún enga

Ég sakna barnanna hennar
það er einhvern veginn orðið of seint
að koma sér upp sínum eigin
hafði einhvern veginn aldrei tíma til þess
frægðin og allt það
frægðin já
helvítis frægðin
hah
það var nú meira helvítis helvítið


hvers virði er mér eiginlega frægðin?
hvers virði er hún?

Þegar glöggskyggnt fólk sér glitta í
feitlagna dægurlagasöngvarann
á bakvið gervi ófullu horgrindarinnar
man það nefnilega
að það ætlaði aldrei að fyrirgefa mér
að ég fékk ekkert stig í júróvisjón

Það eru bara börnin
sem vita ekki hver ég var

 

© Benóný Ægisson


Efst á síðu