Gugga systir
Sigga systir..
Sigga systir var..
var..
Sigga systir var pottþétt
Nei
Hún var ekki pottþétt
það nær henni ekki nærri því alveg
Sigga systir var til fyrirmyndar
Hún leit alltaf út
eins og hún færi fjórum tímum fyrr á fætur
en allir aðrir
í morgunsárið var hún alltaf
eins og hún hefði verið lengi á fótum
og nýtt tímann vel
svona vel til höfð
og vel vakandi
og vel snyrt
og vel..
Hún var alltaf á réttum stöðum
alltaf á réttum stöðum
altaf nema..
nema..
nema þegar hún var á leiðinni þangað
Hún átti æðislegan mann
og unaðsleg börn
alveg ógeðslegar dúllur
og hund með merkilegri ættartölu en hún sjálf
þótt ótrúlegt megi virðast
Sigga systir gerði allt rétt
og það þoldi hana enginn
Leyfðu mér að segja þér frá Siggu systur:
Sigga systir var fyrsta konan á Íslandi til að ganga í
fótlaga skóm
Sigga systir hafði lífrænt ræktaðar paprikur í
blómapottunum
löngu áður en fólk fór almennt að borða
papriku
Sigga systir varð íslandsmeistari í þrístökki
meyja
söng millirödd sem var fræg um allt miðhálendið
og hafði alltaf pönnukökudeig í frystinum
til að bregða í örbylgjuna
ef einhver kynni að reka inn nefið
Sigga systir reykti aldrei og drakk bara þetta eina sinn
kampavínsglasið í brúðkaupinu sínu
sem hún kláraði ekki einusinni
(Fannst það vont sagði hún
skildi ekkert í því
hvernig fólk gat látið þetta ofan í sig
fannst það minna sig mest á mysu
nema hvað
mysu gat maður þó notað
til að sjóða fisk
þetta glundur var varla brúklegt til þess)
Og Sigga systir átti
ásakandi augnaráð
við öll tækifæri
Mikið andskoti var hún alltaf nösk
á að spotta það hvað maður var ósiðaður
ósamkvæmur sjálfum sér
og mikill aumingi yfirhöfuð
En hún hafði auðvitað efni á því
eins fullkomin og hún var
Hún Sigga systir
Og heyrðu
þegar hún var búin að lifa svona kórrétt
í áratugi
heldurðu að hún fái ekki bara krabba
og drepist
Það bjóst enginn við því
ekki nokkur maður
nei
alls enginn
og eiginlega finnst mér stundum
að hún hafi svindlað á mér bölvuð
Ég er eiginlega alveg viss um
að hún drapst úr krabba
bara til að skaprauna mér
ég þori að hengja mig uppá það
Hvað hún gat verið helvíti þjáð
og látið mig fá ógeðslegt samviskubit
yfir því að ætla að lifa dauða hennar af
(Viltu líta eftir englunum mínum Gugga mín?
og vertu góð við hann Valda
hann veit öruggleg ekkert
hvernig hann á að vera
þegar ég er farin)
Það var einmitt það
hvað hann vissi ekki
hvernig hann ætti að vera
Hún var varla orðin köld í gröfinni
þegar hann var búinn að negla mig
eða ég hann
eða hvernig sem það nú var
það er ekkert sem gerir menn eins graða og dauðinn
Þannig er nú það
og ég reyni að hugsa sem minnst um hana
En einhversstaðar
einhversstaðar er hún bölvuð
einhversstaðar á hárréttum stað
með áminnandi vísifingur á lofti
En þangað kemst ég sem betur fer aldrei
því ég er svo mikill bölvaður aumingi
og læt alla ósiði eftir mér
Já er ekki sagt
að eins dauði sé annars brauð?
En ég verð nú að viðurkenna
að ég veit ekki hver á hvað
eða hvað er hvurs
eða hvað yfirhöfuð á við núna
Nú jæja
ég er eiginlega að hugsa um
að skola þessu feita kjöti niður
með brennivíni og kenna svo englunum
hennar Siggu systur óbeinar reykingar
áður en ég fer upp að ríða manninum hennar
© Benóný Ægisson
|