GLÆSIBÆJAREINTÖLIN

ÁLITSGJAFI

SÖNGVARI

VENJULEG STELPA

NEFNDARFORMAÐUR

SYSTIRIN

STÓRKARL

DANSMÆR

KNATTSPYRNUÁHUGAMAÐUR

FYRIRSÆTA

SJÓMAÐUR

DJÓKARI

HÚSVÖRÐUR

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Djókarinn

Ég hef alltaf verið frekar létt á bárunni..
afhverju ætli maður segi bárunni?
allavega þá hef ég alltaf verið létt á bárunni
þó ég hafi verið á..
já þú veist það hefur ekki alltaf..
en það er ekkert að marka að..
ég meina
hver pælir í..

Auðvitað getur maður ekki alltaf verið sterkur
ég veit það en ég reyni að gera mitt besta
það er bara það að stundum finnst manni maður bara vera að bresta
og það er barasta alltaf kökkur í hálsinum á manni
og maður veit að allt er að fara til andskotans
eða eitthvert þaðan af verra
eins og það sé ekki nógu slæmt með skuldirnar
og ástandið svona yfirleitt
og mann langar mest til að gráta úr sér augun
og henda sér fram af einhverju nógu háu...
nei djók.. .

Auðvitað hefur maður það ekkert verra
en hver annar og ég veit að sumir hafa
það þannig að ég vildi ekki skipta við þá
fyrir nokkurn pening en ef til vill hafa þeir
það þrátt fyrir allt betra en ég því þeir
vita þó hvað þeir hafa og
geta þó allavega viðurkennt að þeir..
nei djók..

Auðvitað hefur maður það helvíti fínt
Siggi með góðar tekjur og ég skúra
hjá tannsmiðnum og það er allt svart
svo ég veit ekki hvað það gæti verið betra
en Siggi er nú eins og hann er
svona ógeðslega vinsæll og
alltaf hress og hvers manns hugljúfi
þó hann geti verið dálítið uppstökkur stundum
og laus höndin..
nei djók..

Auðvitað er það bara stundum sem hann getur ekki..
og ég bara einhvern veginn geri aldrei neitt rétt
allavega ekki eins og hann vill hafa það
og þá bara áður en hann veit af
hann ætlar sér það aldrei
hann er ekki vondur maður hann Siggi
hann bara einhvernveginn missir sig
og lætur mig hafa það
og þegar hann er orðinn þreytttur á því
þá getur hann og..
nei djók..

En allavega
auðvitað veistu að ég hef alltaf verið létt á því
þú veist
á bárunni
hehehe
og getað djókað með allt
ég meina ef maður getur ekki djókað
þá er nú illa komið fyrir manni
þá er eiginlega allt búið
og maður getur bara lagst á beit í lyfjaskápnum
og liðið út af eins og engill
ef maður getur ekki sagt eitthvað
án þess að allir taki mark á manni

Djók!

 

© Benóný Ægisson


Efst á síðu