Nefndarformaðurinn
Þegar kemur að nefndarstörfum
kalla ég ekki allt ömmu mína
Ég hef meðal annars verið í búfjárveikivarnarnefnd
og margur kjúklingurinn hefur fallið
í valinn að fyrirmælum mínum
því þegar almannahagsmunir eru í húfi
er ég algjörlega miskunnarlaus
algjörlega miskunnarlaus
Ég get sagt þér það að það er ekkert
auðvelt
að vera hataðasti maðurinn í norðurausturkjördæminu
en ég er eins og klettur - mér verður ekki haggað
mér verður ekki haggað
En ég verð að viðurkenna
að ekkert hefur reynst mér erfiðara
en seta mín í mannanafnanefnd
Ég var meðvitaður um
að við búum í fjölmenningarlegu samfélagi
að það er tilgangslaust að berja höfðinu við
steininn
að við getum ekki haldið fram sömu hreintungustefnu og á
síðustu öld
Já ég veit að þeir dýrðardagar þegar
við höfðum algjört vald eru liðnir
og nú getum við í besta falli haldið í hemilinn
Það er nú það
og þannig var nú það
ég gerði mér engar grillur
en var samt tekinn í bólinu
þegar Herdís Hörn
varð á vegi mínum
með sitt einstæða erindi
Já sitt einstæða erindi
Dæett Kók
Dæett Kók!
Já ég sagði dæett kók
og það er von að þú hváir
og viljir frekari skýringar
Það vildum við líka
í mannanafnanefndinni
Hún hélt því semsé fram blessunin
að það - það er að segja "diet" kókið
hefði grundvallað hamingju hennar
og vegna þessa iðnvarnings
sem ég er ekki að kasta neinni rýrð á
hefði hún lést um átján kíló
og því vildi hún að barnið...
Já..
Dæet er ekki ósvipað hinu ágæta kvenmannsnafni
Bríet
og Kók mætti beygja eins og Rós og þá félli
nafnið
ágætlega að íslensku beygingakerfi:
Hér er Dæet Kók
um Dæet Kók
frá Dæeti Kók
til Dæetar Kókar
Semsé ásættanlegt
í það minnsta
hefði nefndin
ekki gert athugasemdir
því hún var til alls vís
meira að segja fara með málið
í fjölmiðla til að sýna einusinni enn
frammá afkáralega nesjamennsku nefndarinnar
Það var bara verkurinn
að Dæett Kók var ekki stúlka
sem gæti beygst eins og Bríet Rós
heldur drengur og aukinheldur
Dæett með tveimur téum
hér er Dæett Kók
um Dæet Kók
frá Dæeti Kóki
til Dæets Kóks
og henni varð ekki haggað
ekki einusinni þegar við tengdum nafnið
Til dæmis:
Viltu snýta Dæeti Kóki?
Henni fannst það bara flott
en sagðist sjálf geta snýtt sínum börnum
og myndi ekki biðja vandalausa um það
Margri svefnlausri nótt eyddi ég
í leit að lausn á þessu máli
og auðvitað datt ég niður á hana
óforvarindis og af algjörri tilviljun
en ég þakka það þekkingu minni á hliðrænni
hugsun
sem ég lærði á námskeiði í Kuala Lumpur
árið þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir
En það var langur vegur frá því að finna
lausnina
og þess að sannfæra Herdísi Hörn um ágæti
hennar
Ég reyndi að leiða henni fyrir sjónir
að það kæmi í sama stað niður
að heiðra framleiðandann
og iðnvarninginn
og að við í nefndinni
gætum fallist á slíkt nafn
eða afleiddar myndir þess
og á endanum náðum við lendingu
sem allir gátu sætt sig við
en það verð ég að segja
að ná samningum við bónda um slátrun
á þúsund kamfílóbakterskjúklingum
hefði verið barnaleikur miðað við
þessar samningaviðræður
og ég var nánast fluttur inn
hjá henni Herdísi Hörn undir lokin
og hún tók allan minn tíma
En semsé
drengurinn heitir Vífill Heiðar
og við erum ósköp hamingjusöm
Hún kallar mig nefndarformanninn sinn
og við erum að hugsa um að bæta við börnum
við fyrsta tækifæri
En ekki strax
fyrst verð ég að safna kröftum
© Benóný Ægisson
|