GLÆSIBÆJAREINTÖLIN

ÁLITSGJAFI

SÖNGVARI

VENJULEG STELPA

NEFNDARFORMAÐUR

SYSTIRIN

STÓRKARL

DANSMÆR

KNATTSPYRNUÁHUGAMAÐUR

FYRIRSÆTA

SJÓMAÐUR

DJÓKARI

HÚSVÖRÐUR

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Dansmærin

Þegar ég stend fyrir framan þá..
þegar ég er að dansa skilurðu..
þá er ég þar.
Ég meina.. ég er ekkert að þykjast vera eitthvað annað
Ég er bara ég
Ég er ekki eitthvað sem er ekki til skilurðu.. ég meina.. í alvörunni.. ég er hérna og ég er að gera eitthvað og veistu hvað.. fólk.. auðvitað aðallega karlar.. vill horfa á mig

En er einhvern tímann allt sem sýnist?
Hei.. náðirðu þessum?: Er einhvern tímann allt sem sýnist!
Skilurðu.. svona eins og upp úr bók, maður, og..
Æ það skiptir ekki máli..

Ég meina.. sjáðu til dæmis Hollywood, það er bara skilti uppi í fjallshlíð skilurðu og það er gjörsamlega vonlaust að finna hana því hún er ekki til í alvörunni.. ég meina hún er ekki einusinni leikmynd skilurðu. Samt býr þarna fullt af fólki og það lifir bara þarna í einhverjum sýndarveruleika og gerir sér ekki grein fyrir því að bærinn er ekki til. Ég meina fólk les líka bækur og fer í bíó eða leikhús til að láta ljúga sig fullt. Ég meina sækir í það.. ég geri það sjálf. Ha?!

Þér finnst það ótrúlegt að ég hafi farið í leikhús ha?
Ekki týpan í það nei?
Nei nei. En ég hef sko farið
Tvisvar meira að segja
Fannst það hundleiðinlegt

Fyrst sá ég leikrit þegar ég var krakki
Einhverjir bangsar að tala saman og svoleiðis skilurðu. Ógeðslega heimskir. Hundleiðinlegt.
Og hitt leikritið. Ömurlegt
Ég fór með Frikka

Nei. Þú veist auðvitað ekkert um Frikka
Það var kall sem ætlaði að frelsa mig þú veist
Láta mig fá íbúð og bíl og allt
Ég veit ekki í hvaða sýndarveruleika hann lifði

Allavega. Hann fór með mig á svona leikrit, sem átti að gerast í Englandi einhverstaðar þar sem allir voru ekkert smámikið atvinnulausir skilurðu verksmiðjan í bænum búin að loka skilurðu og allir eitthvað á ógeðslegum bömmer með heróinsprautuna hangandi í handleggnum á sér og langar helst að drepa mömmu sína eða eitthvað skilurðu og sá sem var aðal sem var með heróínsprautur hangandi úr báðum handleggjum skilurðu það var einhver leikarasonur úr Þingholtunum skilurðu.. Ég meina er einhver sem tekur mark á svona? Ekki ég. Ég bara fór og.. engin íbúð - enginn bíll

Ég meina.. hver hefur áhuga á svona?

Ókei. Ef þeir vilja búa til leikrit um eitthvað svona ömurlegt af hverju er þá ekki hægt að gera það þannig að maður trúi því skilurðu? Ég meina við þurfum ekkert að fara til Englands til að finna eitthvað ömurlegt skilurðu er ekki nóg af því hérna ha til dæmis gæti það verið um einhvern strák sem er að selja krökkum landa og kannski eitthvað fleira skilurðu og hann er kominn í svona heví neyslu og hittir stelpu sem er í heví neyslu líka skilurðu og svo gerist eitthvað rosalegt þau drepa einhvern ömmu hennar eða hvað veit ég eða eitthvað. Hann gæti skrifað þetta hann hérna hérna skáldið með skeggið og gleraugun skilurðu hann er héðan og veit hvernig þetta er og svo væri hægt að láta eitthvað brjálað lið leika þetta skilurðu ég meina þau þyrftu ekki einusinni að leika skilurðu. Myndi maður ekki frekar trúa þessu heldur en einhverju rugli úr hálfvita úr hundraðogeinum sem ratar betur um París en Fellahverfið skilurðu?

Æ ég veit það ekki
Er þetta ekki alltsaman feik hvort sem er?
Ég meina..hvað erum við að gera hérna?
Núna.. meina ég
Ha?
Hvað erum við að gera?
Hver erum við?

 

© Benóný Ægisson


Efst á síðu