Álitsgjafinn
...
É...
Ég...
Ég er...
Er...
Ég er...
..kolgeit..
..kolgeit-kona
Ég er kolgeit-kona
Já
Ég er semsé kolgeit-kona
þegar öllu er á botninn hvolft
Þó ég sé í eðli mínu nýjungagjörn
þá hef ég aldrei komist yfir fyrstu upplifunina af kolgeiti
sem eru auðvitað eðlileg áhrif velheppnaðrar vöru
hæfilega bragðmikið
viðurkennt af bandaríska tannlæknafélaginu
og í fararbroddi í hönnun notendavænna umbúða
já
mér fyndist það jaðra við svik ef ég...
já
maður á að vera hæfilega nýjungagjarn...
en ekki gleypa allt hrátt
Ég segi það bara eins og það er
og skammast mín ekkert fyrir það:
Ég
er kolgeit-kona
Til að fyrirbyggja allan misskiling
vil ég taka fram að staða mín leyfir ekki fordóma
Þegar ég tekst á við hlutverk mitt
gleymi ég öllum fyrirframgefnum forsendum
ég stíg út úr líkamanum
og verð holdtekinn draumur hvers framleiðanda:
Hinn galopni neytandi
Vissi aldrei hvað ég átti að verða
var aldrei með neina drauma
þanniglagað
langaði aldrei að verða neitt
druslaðist í gegnum skóla
svona
hinn dæmigerði meðalnemandi
aldrei beint í fallhættu
né hætti á að skara framúr
fann mig eiginlega aldrei í neinu
ekki svo að skilja að það væri nein þörf
á því
að ég yrði eitthvað
við eigum skítnóga peninga
En ég hef alltaf haft gaman að því að versla
...
nei það er ekki rétt
ég hef alltaf verslað af ástríðu
Ef mig vantar eitthvað
þá má bóka það
að áður en langt um líður
á ég allt sem er á markaðinum
sko ef eitthvað sniðugt kemur
þá eignast ég allar gerðir
alla liti
og svo alla fylgihlutina
ég elska fylgihluti
ég meina
rís mannsandinn nokkursstaðar hærra
en í hönnun fylgihluta?
þessi tæra snilld
að gera eitthvað ómissandi
sem maður hafði ekki grun um
að mann vanhagaði um
Maður verður að fylgjast með
skilurðu
það er forsendan
fyrir tilvist nútímakonunnar
Mörgum finnst það kannski undarlegt
að einhver kaupi tuttugu ermastrauborð
svo ég taki dæmi
ég er ekki að segja að ég eigi tuttugu ermastrauborð
þetta er bara svona dæmi
byggt á ímyndaðri forsendu
og algjörlega án stoðar í raunveruleikanum
en ég er bara svona
ég þarf að geta borið saman
ég meina
það er ekki auðvelt
að vera neytandi í nútíma markaðskerfi
í alfrjálsu upplýsingasamfélagi
og hafa það stöðugt á tilfinningunni
að maður sé að missa af einhverju
Ég hef alltaf haft næma tilfinningu fyrir þessu
ég meina
löngu áður en ég varð álitsgjafi
þá var ég farin að pæla í þessu
til dæmis:
Hvernig er vel samansett innkaupakarfa?
Ég meina auðvitað innihaldið
ekki körfuna sjálfa
Ég var farin að skoða í körfurnar hjá fólki
tegundirnar
litasamsetninguna
merkjaúrvalið
og ég var bara orðin nokkuð nösk
á að reikna út persónuleika fólks
stétt þess og stöðu
menntun og efnahag
ég þurfti bara að líta einusinni á innihaldið
í körfunni
og þá vissi ég allt um viðkomandi
bókstaflega allt
Þessi hæfileiki minn..
Ég sannreyndi hann í mörgum tilfellum
leit fyrst á körfuna og las hana
leit síðan á eigandann
og sannreyndi niðurstöðuna
Þessi hæfileiki minn gerði mér ljóst
að í körfunni er manneskjan nakin
persónuleikinn á úthverfunni..
í níutíu og níu prósent tilfella hafði
ég rétt fyrir mér
Ég var eiginlega fullnuma álitsgjafi
og enginn vissi það
allrasíst ég
og það var fyrir algjöra tilviljun að það uppgötvaðist
Sko
þetta fór eiginlega úr böndum hjá mér
fór útí hálfgerða vitleysu
ég fór nefnilega..
ef ég sá körfu sem var flottari en mín þá..
ég gat bara ekki að þessu gert
áður en ég vissi af þá var ég búin
að taka hana og keyra í burtu
skildi mína bara eftir
og yfirleitt þá bara keyrði ég þær aðeins
þú veist..
fá að taka aðeins í
skildi þær svo eftir einhversstaðar
og fór svo og náði í mína svo lítið
bar á
En svo var það einusinni
ég meina það var svo æðisleg karfa
hún var..
nei það er ekki hægt að lýsa henni
hún var bara fullkomin
öll réttu merkin
tískulitirnir í ár
allt alveg æðislega smekklegt
en samt ekki nauðsynlega það dýrasta
og ég bara stóðst hana ekki og fór með hana að
kassanum
og þar sem ég er að borga stendur ekki maðurinn þar
og krefst þess að fá skýringu
og ég verð bara eins og padda
og brotna alveg saman
og verslunarstjórinn kemur
og þeir leiða mig inná skrifstofu
þeir héldu auðvitað að ég væri brjáluð
en strangt tiltekið þá var ég ekki að gera neitt
ólöglegt
ég borgaði jú fyrir vöruna
en ég var alveg í mínus
og bara segi þeim upp alla söguna
og verslunarstjórinn varð alveg brjálaður
enda ekkert skrítið
ég meina svona gerir maður ekki
ég meina ef allir gerðu svona
þá myndi það rústa hagkerfinu
en hinn
þessi sem átti körfuna
hann varð áhugasamur
og fór að spyrja mig eftir hverju ég færi þegar
ég veldi körfurnar og svoleiðis
og ég útskýrði það fyrir honum
og þetta hafði þau áhrif á hann að hann bauð
mér vinnu
hann átti semsé svona almannatengslafyrirtæki
svona ráðgjöf og markaðsrannsóknir
og hann sagði að ég væri einmitt manneskjan
sem sig vantaði til að vera álitsgjafi hjá sér
Það er nú einu sinni starf mitt:
Ég er álitsgjafi
og í því hlutverki er ég ísköld
hlutlaus
hinn galopni neytandi
og gleymi því
að ég
er kolgeit-kona
© Benóný Ægisson
|