Rósir og rakvélarblöð
Ég vil syngja um rósir og rakvélarblöð
rauðan loga og flöktandi skugga
æðar sem opnast og ískaldan dreyra
óspurð blóm sem visna í vasa
Hitler málaði myndir á veggi
úr myrru reykelsi og skíra gulli
en þegar hann skildi að þær skorti alla dýpt
skaut hann sig með silfurkúlu
Líkt og kristur þá lagðirðu á þig
að lífga dauða í óþökk þeirra
með lífið í nesti á líkklæðum ganga
lasarusar um vegleysur sínar ©Benóný Ægisson
|