Fjarðaralda
Þau stigu um borð í fagurt fley
sem flutti þau öll burt
Á ómældum himni óveðursský
ekki eitt auga þurrt
Þau frétt höfðu það að á fjarlægri strönd
fyndu þau loksins var
Þráðu svo heitt að líta þau lönd
og lifa til eilífðar þar
Skipsbjallan gall svo glumdi við fjall
gjallandi í hlustirnar skar
Ættgenga fátækt í farangrinum
faðir minn á skipið bar
Akkerum létt og við öldunnar sog
út lagt á djúpin breið
Seglin hurfu inn í sortann og
við siluðumst köld heim á leið
Örlög svo margra er að elta einhvern draum
út við kvöldroðans sjóndeildarhring
Hilling svo ágeng að öllu er hætt
uns allt er komið um kring
Í bæ einum lágum við brimsorfna strönd
bíður sá sem eftir var
og hvíslar svo hljótt út í eilífðina
en aldrei berst honum svar ©Benóný Ægisson
|