Drekkum í nótt
Veiga á sextán sem seld´okkur sprútt
situr nú við hið gullna hlið
hún mun aldrei framar kall´okkur krútt
eða kalldjöfla eftir því hvað átti við
Í brjóstunum kraumar nú söknuður sár
syrgjum við hana sem er ekki meir
Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár
sem tilbiður guð sinn örsjaldan og deyr
Í kvöld við ætlum að kveðjetta fljóð
í kvöld verður engum varpað á dyr
Í kvöld er allt frítt og kreditin góð
kverkarnar vætum sem aldregi fyrr
Sigga – hún dansar um á dauðs manns skóm
dró þá af líki við Laugaveg
Segir: Lífið er eftirsókn í hismi og hjóm
en heilsan er þakka bara bærileg
Og Dóra er kominn í dansstuð að vonum
djöfulóð æðir um salinn og hlær
Alli að grufla í annarra konum
og Arngrímur einhenti trommuna slær
Nú látum við af öllum leiða og sorgum
í ljúfsárum tryllingi orgum á torgum
Í kvöld er allt ókeypis enginn vill borgun
Við drekkum í nótt og deyjum á morgun
© 2012 Benóný Ægisson
|