Valdsmenn
Sextánda öldin var róstusöm í Íslandi eins og sjá má á annál hennar sem er hér. Nýjum sið Lúters prests í Þýskalandi var þröngvað upp á landsmenn með vopnavaldi og fylgdi honum stóridómur 1564 þar sem refsingar voru lagðar við hórdómi, sifjaspellum og skírlífisbrotum m.a. dauðadómar, húðstrýkingar, útlegð og fésektir og 1590 bannaði biskup leiki, söng, dans og gleðskap annan enda sé slíkt heiðinglegt athæfi. Einnig logaði allt í skærum milli íslenskra höfðingja, danskra valdsmanna og Þjóðverja, Englendinga og annarra útlendinga sem vildu sitja einir að veiðum við Ísland eða stunda verslun við landsmenn. Þar fyrir utan komu hingað erlendir reyfarar, einkum Englendingar og rændu hér og rupluðu, drápu menn og nauðguðu konum. Einn forfeðra minna, Erlendur Bjarnason bóndi og sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum var eitt fórnarlambið en sagt er að Englendingar hafi sett hann í gaddatunnu og drepið hann þannig árið 1518.
Gaddatunnur voru aðferð til að taka fólk af lífi og er talið að aðferðin sé upprunnin hjá Rómverjum. Gaddar eða naglar voru slegnir í gegnum tunnustafina og sá sem drepa átti var settur í tunnuna og henni síðan velt niður brekkur
Eggert Hannesson (1516 – 1583) lenti líka í erlendum sjóræningjum en að því verður komið síðar. Eggert var forfaðir minn í 13. lið en fyrsta kona Eggerts sem ég er kominn af var Sesselja Jónsdóttir en síðar kvæntist hann Steinunni Jónsdóttur, sem verið hafði fylgikona séra Björns Jónssonar Arasonar á Melstað, sem höggvinn var með föður sínum og bróður í Skálholti 1550. Eggert átti við barnaólán að stríða en launsonur hans, Björn, fórst af voðaskoti, sonur þeirra Sesselju, Þorleifur, týndist í hafi og sá þriðji, Jón murti, drap mann og varð að flýja land. Dóttir Eggerts og Sesselju, Ragnheiður sem ég er kominn af, komst aftur á móti á tíræðisaldur (f. 1550, d. 1642). Hún giftist Magnúsi prúða Jónssyni (1525-1591), sýslumanni í Ögri og síðar í Saurbæ, og áttu þau fjölda barna þar á meðal Ara sýslumann í Ögri sem er frægastur fyrir Spánverjavígin svokölluðu. Sonarsonur þeirra var Páll Björnsson prófastur í Selárdal sem varð frægur af endemum vegna galdraofsókna á Vestfjörðum.
Eggert var sonur Hannesar Eggertssonar hirðstjóra á Núpi í Dýrafirði, sem var norskur að ætt, og konu hans Guðrúnar eldri, dóttur Björns Guðnasonar sýslumanns í Ögri sem var annálaður ofbeldismaður og hrotti en afi hans og amma í föðurætt voru Eggert Eggertsson, lögmaður í Víkinni í Noregi og Jóhanna Matthíasdóttir. Systir Eggerts var Katrín, kona Gissurar Einarssonar biskups svo Eggert var vel tengdur við helstu valdaættir landsins.
Hannes, faðir Eggerts var hirðstjóri 1521-1524 og vann sér það helst til frægðar að handtaka Týla Pétursson forvera sinn og láta hálshöggva hann. Týli þessi kom út til Íslands 1523 með flokk manna en hann taldi sig enn hafa umboð hirðstjóra á Íslandi, lét færa Hannes í bönd og hélt honum föngnum í Hólminum, gamla verslunarstaðnum í Reykjavík. Menn hans spenntu upp kistur á Bessastöðum og tóku brott gull, silfur og vaðmál sem innheimt hafði verið í skatt til konungs. Ögmundur biskup og Erlendur lögmaður fóru yfir hirðstjórabréf Hannesar og Týla og komust að þeirri niðurstöðu að bréf Hannesar væri fullgilt en Týla ekki og í framhaldinu dæmdi Erlendur að Týli væri óbótamaður og Hannes dreif sig í að höggva Týla.
Aftaka Týla hafði áhrif langt út fyrir landsteinanna því Týli hafði verið milligöngumaður Kristjáns 2. Danakonungs og Hinriks 8. Englandskonungs en Kristján var að reyna að selja eða veðsetja Ísland Hinriki en þegar Hinrik frétt um afdrif Týla var viðræðum hætt því hann kærði sig ekki um land þar sem konungsmenn voru leiknir svo grátt. Hlutverk Týla hafði því verið að greiða götu Englendinga á Íslandi en Hannes var hinsvegar hallur undir Þjóðverja en þessar þjóðir áttu í samkeppni um fiskveiðar og verslun á Íslandi á þessum tíma. Hannes Eggertsson hirðstjóri lést í náðhúsi á Bessastöðum 1534.
Eggert Hannesson var sveinn Ögmundar Pálssonar biskups þegar hann var ungur og mun hafa verið í Þýskalandi og Noregi í erindum hans á árunum 1538-1539 og ef til vil lengur. Síðar var hann í þjónustu Gissurar Einarssonar og fór með honum utan í vígsluferðina en þeir höfðu kynnst þegar Eggert bjó í Hamborg sem ungur maður en Gissur var þar við nám. Eggert varð sýslumaður á Vestfjörðum um 1544 og bjó fyrst á Núpi í Dýrafirði en ætt hans er oft kennd við Núp en fluttist seinna í Saurbæ, sem oftast er kallaður Bær á Rauðasandi. Eggert var auðugasti maður á Íslandi um sína daga og jafnframt sá voldugasti. Hann var talinn harðsnúinn og fylginn sér, enda stóð hann oft í miklu málavafstri, og hann var lögvitur og héraðsríkur.
Skjaldarmerki Eggerts Hannessonar riddara
Eggert varð hirðstjóri 1551 en árið áður hafði hann dvalist í Kaupmannahöfn við hirð Kristjáns 3. og sjálfsagt komið ár sinni vel fyrir borð því yfirleitt voru hirðstjórar danskir eða þýskir en Eggert var síðasti Íslendingurinn sem gegndi hirðstjóraembættinu. Sama ár fékk hann endurnýjað aðalsbréf afa síns, Eggerts Eggertssonar lögmanns í Víkinni í Noregi og þar með fékk hann riddaranafnbót en á skjaldarmerki ættarinnar er hvítur einhyrningur. Eggert varð hirðstjóri á miklum róstutímum en árið áður hafði Kristján skrifari umboðsmaður Danakonungs á Íslandi látið taka Jón Arason Hólabiskup og syni hans af lífi í Skálholti. Vegna ástandsins í landinu er óvíst að vald Eggerts hafi verið mikið því valdið var í raun í höndum herforingja konungs sem áttu að kveða niður alla uppreisnartilburði Íslendinga eftir siðaskiptin. Kristján skrifari fékk makleg málagjöld því norðlenskir vermenn drápu hann og menn hans á Kirkjubóli á Reykjanesi en böðul þann sem hálshjó feðgana drápu þeir með þvi að hella upp í hann bráðnu blýi. Ekki virðist Eggert hirðstjóri hafa lagt sig hart fram við að finna banamenn Kristjáns og refsa þeim.
Eggert var hirðstjóri til 1553 og síðan lögmaður sunnan og austan til 1556, norðan og vestan 1556-1568 og eftir það sýslumaður og umboðsmaður Helgafellsklaustursjarða. Eggert virðist hafa kunnað þá list að sigla milli skers og báru og þó oft gustaði um hann kom hann alltaf niður á lappirnar eins og kötturinn. Hann er í þjónustu síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi og þess fyrsta lúterska svo ekki hafa trúarbrögðin vafist fyrir honum og þegar hann missir hirðstjóraembættið verður hann lögmaður. Þegar honum er bolað úr lögmannsembættinu fær hann sýsluvöld á Vestfjörðum og umsjón gjöfulla kirkjujarða sem Kristján 3. konungur var í óða önn að sölsa undir sig en kirkjueignir voru ekki litlar. Á þessum tíma fór einnig fram markviss eyðilegging á list og helgum dómum kirkjunnar og rán á kirkjugripum samkvæmt boði konungs. Það var því réttur maður á réttum stað þegar Kristján 3. sá ástæðu til að fyrirskipa þrjá bænadaga 1551 vegna illsku Íslendinga, synda þeirra og vanrækslu á því að flytja rétt hið heilaga orð.
Kristján 3. gekk hart fram við að sölsa undir sig kirkjueignir og dýrgripi kaþólsku kirkjunnar og hann lét fyrirskipa þrjá bænadaga 1551 vegna illsku Íslending
Í fyrndinni bjó einu sinni ríkur bóndi í Síðumúla í Hvítársíðu. Hann átti dóttir eina væna. Til hennar biðluðu ýmsir og þar á meðal bóndinn á Sleggjulæk og bóndasonurinn á Fróðastöðum. Fór svo að bóndasonur varð hlutskarpari og fekk hann konunnar. Var þá ákveðinn brúðkaupsdagur og fjölmenni boðið til veislunnar.
Sleggjulækjarbóndanum sveið þetta mjög og fékk hann mann til að vega brúðgumann. Sá er nefndur Jón er til þess varð. Jón var maður hraustur og djarfur vel. Hann fór til boðsins og lét ekki á bera ætlan sinni. Leið svo að kvöldi og stóðu menn upp frá borðum. Skuggsýnt var við stofudyrnar og stóð Jón þar og beið þess að brúðguminn kæmi út. Leið það og ekki á löngu áður hann kæmi. Lagði þá Jón sveðju mikilli í gegnum hann og féll hann og flaut í blóði sínu.
Jón tók þegar á rás og var honum veitt eftirför. Hann hljóp niður völlinn og ofan að Hvítá. Kom hann þar að sem hún fellur milli hamra tveggja. Þar stökk hann yfir, en engi þorði að hlaupa á eftir.
Milli hamra þessara eru sextán álnir danskar og verður þar straumur mikill í þrengslinu og kalla menn það Kláffoss. Hamrar þessir ganga fram hver á móti öðrum eins og veggir og eru þeir svo sem rúmur faðmur á þykkt. Nyrðri hamarinn er töluvert hærri en hinn syðri og hefur það létt hlaupið. Nú er að segja frá boðsmönnum að þeir treystust ei til að leita Jóns því myrkt var orðið. Komst hann svo undan og segir sagan að hann hafi komist á skip og farið utan. Eftir víg þetta var hann Jón murti kallaður.
Það er af brúðgumanum að segja að hann dó og var grafinn að Síðumúlakirkju. Hafa menn enn til sýnis stein sem á að hafa verið lagður yfir leiði hans. Steinn þessi liggur fram undan kirkjudyrum í Síðumúla. Hann er rúm hálf þriðja alin dönsk á lengd, ávalur fyrir báða enda og íflatur að ofan. Einhver högg eru á þeirri hliðinni sem upp snýr og á það að vera mannsmynd ofan að brjóstum og sárið með blóðlækjunum. Ekkert letur er eða sýnist að hafa verið á steini þessum.
Það segja menn og að þá er þetta varð hafi verið hver vestur frá Síðumúla á mel þeim er nú heitir Stuttimelur. Þar eru nú hvítleitar hellur og ei ósvipað hveragrjóti sem hverinn átti að vera. Segja menn að klæði hins vegna manns hafi verið þvegin í hver þenna. En sú er trú alþýðu að hverir hverfi þá og flytji sig burt er saklauss manns blóð kemur í þá. Svo varð og í þetta sinn. Hverinn hvarf og kom snöggvast upp þar sem nú er laugin í Síðumúla. Þaðan hvarf hann aftur og kom upp fyrir sunnan Hvítá hjá Hurðarbaki og er það hinn meiri hverinn.
Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar
Þessi rómantíska þjóðsaga um bóndason sem er myrtur á brúðkaupsdaginn sinn, um legstein sem grætur blóði og hver sem er á stöðugu flakki er auðvitað bara þjóðsaga en sögur sem lifa í munnlegri geymd hafa tilhneigingu til að verða að einhverskonar dæmisögum sem henta þeim tíma þegar þær eru sagðar. En þó þjóðsögur lúti lögmálum skáldskaparins eru þær þó oft að einhverju leyti byggðar á sönnum atburðum sem svo afbakast í tímans rás og er svo í þessu tilfelli því kveikja sögunnar eru átök milli tveggja forfeðra minna þeirra Eggerts Hannessonar og Jóns Grímssonar. Einnig má geta þess að legsteinninn er til á Þjóðminjasafni og þegar Kristján Eldjárn rannsakaði hann komst hann að þeirri niðurstöðu að hann væri frá kaþólskri tíð og á honum væri Maríumynd og hann því líklega ekki legsteinn.
Saurbær á Rauðasandi eins og staðurinn lítur út í dag en um þetta höfuðból deildu þeir Eggert Hannesson og Jón Grímsson
Jón Grímsson sem var fæddur um 1500 var bóndi og lögréttumaður í Norðtungu og Kalmannstungu en þeir Jón og Eggert deildu vegna arfsmála því Jón gerði tilkall til Bæjar á Rauðasandi, höfuðbóls Eggerts sem Ögmundur biskup hafði náð af systur Ara Andréssonar eftir lát hans vegna synda þeirra og selt það sveini sínum en Eggert hafði keypt af erfingja hans. Árið 1570 reið Eggert til Alþingis ásamt syni sínum Jóni sem hafði viðurnefnið murti og er hermt að það hafi farið á milli þeirra að betra væri að snara út einum manngjöldum en að missa svo ágætt höfuðból. Þegar þeir feðgar riðu af Öxarárþingi settust þeir og föruneyti þeirra að drykkju í Síðumúla á Hvítársíðu. Þeir sendu mann í Norðtungu með boð um að Jón Grímsson kæmi til þeirra sem hann gerði og settust þeir saman að drykkju í skála í Síðumúla. Við drykkjuborðið sat Jón annar maður frá Jónu murta og þegar þeir höfðu drukkið nokkra stund seildist Murti yfir manninn á milli þeirra og stakk Jón Grímsson í brjóstið með daggarði. Jón brást hart við er hann fékk lagið og vildi hrinda fram borðinu en þeir sem sátu sitt hvoru megin við hann héldu honum og Jón murti stakk hann í annað sinn. Í Alþingisbókum segir að Jón Grímsson hafi þá sagt: „Sé svona, það dugir, það er nóg“, segir. Var þetta banasár og Jón murti lýsti víginu á hendur sér en forðaði sér síðan í skip og sigldi til Hamborgar.
Í alþingisdómi voru sonum Jóns Grímssonar dæmdar bætur eftir föður sinn sem Eggert Hannesson greiddi, fimmtíu hundruð í málnytukúgildum, nautum og sauðum, smjörvum, silfri, smíðuðu og ósmíðuðu og klæðum, skornum og óskornum.
Þessi saga er kveikjan að þjóðsögunni og hún er langt frá því að vera jafn rómantísk. Ólíklegt er að hver hafi flutt sig um set vegna Jóns Grímssonar sem var langt frá því að vera eitt af guðs bestu börnum eins og meðfylgjandi saga af honum ber með sér. Sagan er hinsvegar í takti við tíðaranda 16. aldar:
Jón Grímsson var eitt sinn á ferð ríðandi á Varmalækjarmelum og mætti þar séra Oddi Halldórssyni skáldi. Sló í brýnu með þeim og þar kom að Oddur þreif ístað sitt og var við öllu búinn. Jón brá þá sveðju sinni en Oddur varðist með ístaðinu svo að lagið kom á höndina og tók hana af. Mælti þá Oddur þeim orðum er upp eru höfð síðan við meðreiðarsvein sinn: „Það er sitthvað er hofmenn höggva og hundar naga og taktu upp höndina strákur”. Eftir þetta var Oddur kallaður handi.
En bæturnar sem Eggert þarf að greiða fyrir Jón sýna vel hve ríkur hann var, hann snarar þessu fyrirhafnarlaust út. Bæturnar eru þó smámunir miðað við það sem þurfti að greiða þegar honum sjálfum var rænt og greiða þurfti lausnargjald til að losa hann úr haldi hjá sævíkingum.
Hamborg 1588, koparstunga eftir Arnold Pitersen
Eftir víg Jóns Grímssonar 1570 virðist Eggert hafa frekar hægt um sig en situr á höfuðbóli sínu og sankar að sér eignum, oft með klókindum þar sem hann hafði betur í arfsmálum en aðrir höfðingjar sem gera kröfu til arfs enda sýnir sagan um Jón Grímsson að hann vílaði fátt fyrir sér til að verja hagsmuni sína og sinna nánustu. Eggert hefur meiri lén í konungsþjónustu en nokkur annar maður fyrr og síðar og má segja að hann hafi ríkt yfir Vestfjörðum eins og þeir lögðu sig um tíma. Líklega hefur Eggert notað áttunda áratuginn til að stunda arðbær viðskipti með skreið og notað sambönd sín í Hamborg þar sem Jón murti sonur hans var búsettur. Eggert flytur stóran hluta af fé sínu til Hamborgar og auðævi hans í Þýskalandi eru jafnvel meiri en hér á landi.
Hansakaupmenn sóttu í að stunda viðskipti á Íslandi því mikil eftirspurn var eftir íslenskri skreið og á sextándu öld var einhverskonar Íslendinganýlenda í Hamborg. Ekki er ólíklegt að fleiri en Jón murti úr fjölskyldu Eggerts hafi búið í Hamborg því þar býr fólk með nafninu Eggers og Eggerdes og í skjaldarmerkjaskrá Hamborgar finnast afbrigði af skjaldarmerki með einhyrningi sem tilheyrði sonarsyni Eggerts, Arendt (Árna) Eggers. Viðskipti við Hamborgara stóðu á gömlum merg því þegar Kristján 3. kemur á einokunarverslun 1602 og bannar Þjóðverjum að versla á Íslandi hafði samband Hamborgara við Ísland staðið í 300 ár. En þrátt fyrir að það sé á allra vitorði að Eggert er hliðhollur Þjóðverjum þá fær konungur hann til að koma til Danmerkur 1578 líklega til að fá ráð um verslun á Íslandi. Í framhaldi af því fær Eggert verslunarleyfi 1579 annar tveggja Íslendinga en það hefur nýst honum lítið því sama ár dró til tíðinda í lífi hans.
Hollenskt hafskip frá sextándu öld. Líklega komu William Smidt og félagar á slíku skipi
Fálkafangari einn sem kallaður var Jón fálki hafði vetursetu hjá Eggert á Bæ á Rauðasandi. Hann þótti latur og hyskinn og þegar Eggert neitaði honum um að fara á brott með fálka sem hann taldi sig eiga varð fullur fjandskapur með þeim. Jón þessi hefndi sín á Eggert með því að vísa hollenskum hvalveiðmönnum sem fóru með ránum um Vestfirði á þennan ríkasta mann landshlutans.
Ræningjarnir sigldu inn í Patreksfjörð og lögðust þar við akkeri en gengu síðan sextíu saman yfir fjöll til Rauðasands og komu að Bæ árla morguns. Þeir brutu upp allar dyr á bænum og í kirkjunni, hirtu allt fémætt, drápu og særðu menn og nauðguðu konum. Þeir settu Eggert nakinn upp á hest og fluttu til skips en þar mátti hann dúsa í tvær vikur meðan ættingjar og vinir skröpuðu saman í lausnargjald fyrir hann. Á Bæ komust þeir yfir fimm hundruð ríkisdali í gulli og silfri, lausafé og varning auk þess sem þeir rændu nautum, sauðum og fiski. Þá þurftu Ragnheiður dóttir hans og Magnús prúði tengdasonur hans í Ögri að reiða fram hálftunnu af silfri og slegnum peningum, uxa og sauði og jafngilti allt það sem ræningjarnir höfðu þá komist yfir átta þúsundum Lýbikumarka sem var ógrynni fjár. Einhverjir ræningjanna voru gripnir og hengdir í Hamborg en engum sögum fer um hvort Eggert endurheimti fé sitt.
Opinberar aftökur voru almenningi til viðvörunar en einnig tilefni til mannamóta. Hér er verið að hengja hóp manna í Englandi á 17. öld
Skömmu eftir þessa örlagaríku atburði, árið 1580 flyst Eggert til Hamborgar þar sem hann ber beinin. Hann ráðstafar nær öllum eigum sínum til Ragnheiðar dóttur sinnar en það voru geysilegar jarðeignir auk þess sem hún átti að krefja inn allar útistandandi skuldir Eggerts en ekki mátti hún ganga eftir því sem hann átti hjá öreigum. Birni Magnússyni í Ögri dóttursyni sínum gefur hann höfuðbólið Sæból á Ingjaldssandi og forna skinnbók, Skarðsbók Jónsbókar sem Árni Magnússon eignaðist síðar og var afhent Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 1975. Björn bjó vel um bókina, lét binda hana í „mesta viðhafnar band, og setja gyllta stafi utan á spjöldum framan og aptan“, segir Jón Sigurðsson í fornbréfasafninu. Skarðsbók Jónsbókar þykir ein af merkilegri bókum úr safni Árna. Sonur Björns var Páll Björnsson (1621-1706) prestur í Selárdal í Arnarfirði og prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi sem frægur varð af endemum fyrir galdraofsóknir en hann lét dæma sjö manns til að brenna á báli fyrir galdra. Það voru hæg heimatökin fyrir Pál því sýslumaðurinn Eggert ríki Björnsson á Skarði var hálfbróðir hans.
Blað úr Skarðsbók Jónsbókar sem er lögbók á skinni skrifuð um 1363. Bókin er vel varðveitt og eru í henni 157 blöð, letrið óvenjustórt og lýsing bókarinnar er ein hin fegursta sem þekkist í íslenskum handritum. Bókin var lengi í eigu Núpverja en endaði í Árnasafni
Eggert fluttist síðan alfarinn til Hamborgar 1580 á eftir Jóni murta syni sínum. Ekki eru til miklar heimildir um dvöl hans í Hamborg en hann gengur að eiga kaupmannsekkjuna Armgard Hesterberg en dóttir hennar var gift Jóni. Árið 1583 lést Eggert Hannesson riddari í Hamborg af ofdrykkju að því er talið en hann lá dauður fyrir framan rekkju sína þegar komið var að honum að morgni dags. Eggert hvílir í grafhvelfingu Hesterberg fjölskyldunnar í kirkju heilagrar Katrínar í Hamborg.
Eggert Hannesson er grafinn í grafhvelfingu Hesterberg fjölskyldunnar í kirkju heilagrar Katrínar í Hamborg
Ragnheiður Eggertsdóttir (1550-1642) og Magnús prúði Jónsson (1525-1591) eru formóðir og forfaðir minn í 12. lið en þau giftust 1565 þegar hún var fimmtán ára en hann fertugur. Eins og fyrr er sagt tóku þau við búi Eggerts Hannessonar og fluttu á Bæ á Rauðasandi þegar Eggert flutti til Hamborgar. Ég hef gert nokkra grein fyrir ætt Ragnheiðar og því ekki úr vegi að segja örlítið frá ætt Magnúsar.
Magnús prúði Jónsson var sonur Jóns ríka Magnússonar lögréttumanns á Svalbarði við Eyjafjörð, og konu hans Ragnheiðar Pétursdóttur, sem nefnd hefur verið „Ragnheiður á rauðum sokkum“. Faðir hans var talinn auðugasti maður norðan lands á sinni tíð og móðir hans var ættstór, m.a. sonardóttir Lofts Íslendings Ormssonar riddara. Jón og Ragnheiður eignuðust fjóra syni, sem allir urðu miklir lögspekingar og kunnir á sinni tíð en auk Magnúsar voru það Jón lögmaður á Þingeyrum; Sigurður sýslumaður á Reynistað og Staðarhóls-Páll, sem talinn var lögfróðastur allra á sinni tíð. Ragnheiður og Jón áttu einnig þrjár dætur en ein þeirra var Steinunni, sem varð þriðja kona Eggerts Hannessonar. Magnús varð því bæði mágur og tengdasonur Eggerts og er það lýsandi fyrir atferli höfðingja þessa tíma þar sem mægðir gengu út á að auka auð sinn og völd og þegar þau Magnús og Ragnheiður giftust mægðust valdamestu og auðugustu ættir landsins.
Magnús fór ungur til náms í Þýskalandi og þar hefur hann tileinkað sér háttu og lífstíl evrópskra fyrirmenna og líklega er viðurnefnið prúði tilkomið vegna lífstíls en ekki prúðmennsku því hann var harður í horn að taka og þegar hann reið til þings hafði hann stóran flokk vopnaðra manna með sér. Fyrir kom einnig að þessi prúði sýslumaður og vopnaðir kumpánar hans lentu í slagsmálum og vopnaviðskiptum þegar öl var nægt á könnunni. Árið 1581 kvað Magnús upp svokallaðan Vopnadóm í Örlygshöfn en hann gekk út á að skylda alla skattbændur til að vopnast svo þeir gætu varið heimili sín og fjölskyldur fyrir víkingum og hefur Magnúsi þótt þetta aðkallandi eftir árásina á tengdaföður sinn árið áður. Samkvæmt dómnum áttu skattbændur að eiga luntabyssu, púður og atgeir eða annað lagvopn en þeir efnaminni lagvopn eða stikkhníf. Menn skyldu vopnbúast eftir efnum sínum og í það minnsta eiga lagvopn en ef þeir voru efnaðir byssu, boga eða langspjót handa öllum vígfærum mönnum í þjónustu sinni. Þessi dómur Magnúsar gekk í raun gegn vilja konungs sem hafði leitast við að afvopna Íslendinga eftir rósturnar í kringum siðaskiptin.
Minningartafla um Magnús prúða og fjölskyldu hans. Myndin sýnir Magnús og Ragnheiði konu hans með 12 börnum þeirra þar sem þau krjúpa við kross Krists með Jerúsalem í baksýn. Yfir myndinni er latnesk áletrun: ECCE AGNVS DEI. QVI TOLLIT PECCATA MVNDI, eða Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins en undir málverkinu er einnig latnesk áletrun, lauslega þýdd: Hugsa skalt þú um dauða þinn og dauða Krists, blekkingu heimsins, dýrð himinsins og kvöl vítis. Taflan er líklega máluð í Danmörku eða Þýskalandi, og má vera að andlit Magnúsar sé málað eftir hans fyrirmynd en aðrir á myndinni eru flestir málaðir með sama móti og hafa auðsjáanlega ekki setið fyrir hjá málaranum. Synir Magnúsar og Ragnheiðar urðu flestir sýslumenn en dæturnar giftust fyrirmennum, Sesselja dóttir þeirra, formóðir mín giftist Ísleifi Eyjólfssyni stúdent og umboðsmanni í Saurbæ á Kjalarnesi
En 15. öldin er undarlega samsett öld, hún er róstusöm en hún er einnig öld upplýsingar, landafunda og vísinda, hún er öld Brunós, Galileos og Francis Bacon. Þó Magnús prúði skaki vopn og sé vondur með víni þá er hann ágætt skáld og áhugamaður um heimspeki, þýðir m.a. rit um heimspeki, rökfræði og mælskufræði. Hann semur sálma og lausavísur en frægastur er hann fyrir rímnakveðskap og einkum fyrir Pontusrímur en hér fylgja þrjár vísur úr annari rímu sem er samhenda:
Þann eg held nú mestan mann,
sem mótgang heimsins líða vann;
sárar girndir ei sigra þann
í sorg og gleði sér hegða kann.
Hann sem er glaður hvörninn snýst,
með hófi tekur allt, sem býðst,
lærir sig að sigra fyrst,
af sorgum heimsins aldri lýst.
Þar með fróður að forðast vél
og forsjá kunni hjartans þel,
alla smán að umber vel;
eg þann rétta styrkinn tel.
Minningartafla um Ara Magnússon í Ögri og konu hans Kristínu Guðbrandsdóttur, Þorlákssonar biskups
Úr Fitjaannáll anno 1615: „Þá brotnuðu 3 spönsk skip í Strandasýslu, hvaraf að kom það Spanskaslag, að Íslenskir slógu í hel af þeim Spönsku 31, af því þeir ræntu og stálu.“
Ekki verður skilið við þessa vestfirsku valdafjölskyldu án þess að geta Ara sýslumanns í Ögri, sonar Magnúsar prúða og Ragnheiðar. Ari gat sér helst frægð fyrir Spánverjavígin svokölluðu en hann felldi tvo dóma þar sem baskneskir hvalveiðimenn sem voru skipbrotsmenn á Vestfjörðum voru dæmdir réttdræpir. Þeir voru síðan eltir uppi og drepnir á hinn hroðalegasta hátt ef marka má rit Jóns lærða Guðmundssonar um þessa atburði.
Baskar voru miklir sæfarendur og góðir skipasmiðir á 16. og 17. öld. Þeir höfðu stundað hvalveiðar við Nýfundnaland en voru hraktir þaðan og byrjuðu þá að skutla hval við Svalbarða en árið 1613 hófust hvalveiðar þeirra á Vestfjörðum. Virðast samskipti Íslendinga og Baska hafa yfirleitt verið vinsamleg framan að og tvö basknesk orðasöfn sem varðveist hafa bera þess merki að fjörug verslun var milli þjóðanna. Árið 1614 fengu Baskarnir leyfi til hvaðveiða við Vestfirði hjá Ara Magnússyni sýslumanni í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu en 1615 voru hvalveiðar útlendinga bannaðar á Íslandsmiðum en þá stunduðu Baskar veiðar við Strandir á þremur skipum og bræddu hval í Reykjafirði. Um haustið skall á illviðri og brotnuðu þá öll skipin, 83 menn komust í land en þrír drukknuðu. Baskarnir voru því bjargarlausir strandaglópar og höfðu ekkert nema árabáta sína og í þeim lögðu þeir að stað fyrir Hornstrandir og inn í Ísafjarðardjúp í þeirri von að geta fundið þar haffært skip.
Baskar við hvalveiðar
Jón lærði og fleiri Íslendingar vildu skipta Böskunum niður á bæi yfir veturinn en það gekk ekki eftir og brátt fóru Baskarnir að ræna skepnum sér til viðurværis og einnig rændu þeir skútu og því kvað Ari sýslumaður upp þann dóm að Baskarnir væru réttdræpir hvar sem til þeirra næðist. Dómurinn skyldaði alla vopnfæra menn til að fylgja sýslumanni og hann safnaði saman her manns og fór að Böskunum í bækistöð þeirra á Sandeyri og í Æðey þar sem þeir drápu átján menn en þrettán að auki voru drepnir á Fjallaskaga í Dýrafirði eftir að þeir höfðu brotið upp dönsku verslunarhúsin á Þingeyri. Þeir 50 Baskar sem eftir lifðu komust til Patreksfjarðar og höfðust við í verslunarhúsum uns þeim tókst að ræna ensku fiskiskipi og flýja á því.
Spánverjavígin hafa oft verið kölluð eina fjöldamorðið í Íslandssögunni en margt er á huldu með tildrög þeirra og heimildir um þær fáar, bæði á Íslandi og í löndum Baska. Ástæðurnar fyrir þessum grimmdarverkum geta verið margvíslegar en þau geta varla kallast annað en grimmdarverk miðað við lýsingar á aðförum við drápin. Auðvitað hefur Ari verið minnugur þess að útlendingar höfðu rænt Eggert afa hans og viljað koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig og áferði 1615 var slæmt, það var harðindaár með miklum hafís og Vestfirðingar hafa lítið kært sig um að hafa 80 manns á höndum sér sem líklegir væru til að fara með ránum og gripdeildum um héruð.
Lýkur hér sögu minni af valdamiklum forfeðrum mínum á Vestfjörðum.
Hvalveiðar við Ísland. Hvalveiðiskip og hvalveiðimenn á árabátum að skutla hval en inni í landinu gýs Hekla af miklum móð
Heimildir:
Íslendingabók – Ættfræðivefur
Alþingisbækur 1500 - 1600
Hið íslenska bókmenntafélag - Annálar 1400 - 1800
Helgi Þorláksson - Saga Íslands VI og VII
Öldin sextánda
Öldin sautjánda
Páll Eggert Ólason - Saga Íslendinga IV og V
Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson - Íslandssaga til okkar daga
Björn Þorsteinsson - Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld
Björn Þorsteinsson - Enska öldin í sögu Íslendinga
Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar
Vilborg Auður Ísleifsdóttir - Íslendingar í Hamborg á fyrri tíð
Jón Guðmundsson - Spánverjavígin 1615
Vísindavefur Háskóla Íslands
Snjafjallasetur.is
Wikipedia (www.wikipedia.org) - frjálst alfræðirit
© Benóný Ægisson
|