![]() |
Hverra manna ert þú góði?
|
SakamaðurinnEinar sterki Jónsson bjó á Langanesi á 18. öld en hét reyndar alls ekki Einar heldur Árni Grímsson og var frá Mel í Staðarsveit á Snæfellsnesi fæddur 1722 og dáinn 1764 eða 1786. Lífshlaup Árna var ekki markað mikilli gæfu amk ekki framan af en rúmlega tvítugur að aldri var hann gripinn fyrir stuld og Guðmundur Sigurðsson sýslumaður, sem bjó á Ingjaldshóli, dæmdi hann til hýðingar og fangelsis í maí 1743. Árni strauk úr prísundinni hjá sýslumanni en náðist um haustið en strauk strax aftur. Það var eins og engin járn héldu Árna Grímssyni en auk þess að vera rammur að afli segir sagan að hann hafi verið mikill listamaður, hagmæltur, góður söngmaður og hagur bæði á járn og tré og ef til vill voru það smiðshendur hans sem komu honum í hans mestu vandræði. Á þessum tíma máttu danskir kaupmenn ekki hafa hér vetursetu og stóðu verslunarhús þeirra því læst en án nokkurrar gæslu veturlangt. Árni á að hafa smíðað lykla að húsum kaupmannsins Tidemann Lovmann í Grundarfirði og stolið þaðan mikið af vöru og jafnvel peningum og er hann nú gripinn í þriðja sinn í september 1743. Þó sönnunargögn séu ekki haldmikil og eitthvað á reiki hve miklu var stolið hefur Guðmundur sýslumaður engar vöflur á heldur setur rétt og dæmir Árna til hýðingar og brennimerkingar og til að strita ævilangt á Brimarhólmi, því jafnvel þó Brimarhólmur hefði verið lagður niður 1741 héldu íslenskir valdsmenn áfram að dæma fanga til Brimarhólmsvistar langt fram eftir átjándu öldinni. En þó Brimarhólmur hefði verið lagður niður þá hafði ekkert betra tekið við og frá 1741 unnu fangar nauðungarvinnu ævilangt í Stokkhúsinu eða á öðrum vinnuhælum eftir eðli brotanna og aldri brotafólksins. Að senda menn í danskar þrælakistur á þessum tíma jafngilti dauðadómi í raun því þeir sem voru sendir í slaveríið áttu þaðan sjaldan afturkvæmt. ![]() Stokkhúsið var fangelsið sem tók við af hinum alræmda Brimarhólmi. Það stóð á horninu á Øster Voldgade og Stokhusgade og er lága byggingin til hægri. Í ljósa húsinu vinstra megin bjuggu bókavörðurinn Jón Sigurðsson og kona hans Ingibjörg EinarsdóttirEkki hirðir Guðmundur um að skipa Árna verjanda eða fá dóminn yfir honum staðfestan á alþingi eins og honum var skylt heldur sendir hann umsvifalaust utan með Stykkishólmsskipi. Ef til vill vildi hann losna sem fyrst við þennan vandræðamann en almannarómurinn telur að tilgangur hans sé annar því það hafi í raun verið sýslumaðurinn sem hafði ginnt Árna til að smíða lykla að vöruhúsunum og sent hann inn til að stela en staðið sjálfur vaktina fyrir utan eða komist undan út um glugga. Þessi skýring virðist ekki ólíkleg í ljósi vísna sem Árni kastar fram eftir dóminn, þær lýsa undrun yfir sakfellingunni og gefa eitt og annað sterklega í skyn þó hann hafi ekki viljað bendla valdsmanninn beint við glæpinn enda ekki sá tíðarandi að almúgamenn stæðu uppi í hárinu á yfirvaldinu. Alltaf heyrist eitthvað nýtt, Að mér berast efni vönd, Þegar Jens Pedersen Juulbye kaupmaður í Stykkishólmi sem hafði tekið að sér að koma Árna á Brimarhólm ætlar að afhenda fanga sinn í Kastalanum í Kaupmannahöfn kemur babb í bátinn því Frederik Hans Walter virkisstjóri harðneitar að taka við honum því dómurinn yfir delinkventinum hefur ekki verið staðfestur af æðra dómi. Stykkiskólmskaupmaður situr því uppi með þennan stóra mann sem hefur örugglega ekki verið léttur á fóðrum og tekur því til þess bragðs að skrifa kóngi og biðja hann um að losa sig við þennan Audne Grimsen. Kóngur svarar seint og síðarmeir og gengst inn á það að vista fangann í Kastellet og skuli Guðmundur sýslumaður bera kostnaðinn af viðurværi hans um veturinn. ![]() Fangelsið í Kaupmannahafnarkastala var sambyggt kirkjunni og gátu fangarnir notið guðsorðs í gegnum rifur í veggjunum. Þar þurfti Árni Grímsson að dúsa heilan veturÁrni er síðan endursendur til Guðmundar sýslumanns á Ingjaldshóli 1744 en einhverra hluta vegna dröslar sýslumaður honum ekki til Þingvalla til að fá dóminn staðfestan fyrr en árið eftir. Varalögmaðurin Sveinn Sölvason dæmir í máli Árna en svaramaður hans er sýslumaðurinn Arnór Jónsson. Þegar Árni er kallaður fyrir réttinn slær hann úr og í, svarar fáu, dregur í efa og man lítið. Arnór veitist síðan að Guðmundi sýslumanni fyrir að hafa ekki skipað Árna talsmann, telur dóminn byggðan á of veikri meðkenningu og að hann hafi hvorki leitt fram vitni eða sannanir um upp á hvað mikið þjófnaðurinn hafi staðið. Guðmundur reiðist þessum málflutningi frá öðrum valdsmanni en á endanum verður yfirvaldið samstíga um að staðfesta dóminn í öllu. Árna á að strýkja, brennimerkja og senda á Brimarhólm til ævilangrar refsivistar, enda þótt Brimarhólmur hafi verið aflagður þremur árum fyrr. Öll þessi málsmeðferð sýnir hve réttlausir sakamenn voru á þessum tímum gagnvart afglöpum valdsmanna því hvergi er minnst á ólöglega utanferð Árna og að hann hefur þá setið tvö ár í varðhaldi. Guðmundur fer nú með fanga sinn vestur á Snæfellsnes og í september birtist hann með hann í Grundarfjarðarkaupstað og er tilgangur hans að losna við Árna í eitt skipti fyrir öll. Hann járnar Árna við hestasteininn og fer síðan inn í verslun Tidemann Lovmann til að ráða til um flutning Árna til Kaupmannahafnar. En kaupmaður er ekki samstarfsfús, honum finnst þýfið hafa skilað sér seint og illa og sýslumaður hafi staðið sig slælega í endurheimt þess. Endirinn verður sá að sýslumaður rýkur á dyr í fússi, alldrukkinn og skilur fanga sinn eftir járnaðan við hestasteininn. Þegar líður á kvöld fer Árna að leiðast biðin og er orðinn svangur því enginn færði honum mat. Hann brýtur því af sér járnin, gengur með þau inn í verslunina og leggur þau á búðarborðið. Hann biður kaupmann um að koma járnunum til sýslumanns því ekki vilji hann stela þeim af honum. Síðan hverfur Árni út í myrkrið og sést aldrei framar á Snæfellsnesi. Næstu árin er Árni á flakki og fréttist af honum víða um Vesturland, Vestfirði og Norðurland og kenning Steingríms J. Þorsteinssonar í ritinu Upphaf leikritunar á Íslandi er að hann sé fyrirmynd annars flakkarans í leikriti Snorra á Húsafelli, Sperðli, en sá hét Enra sem er auðvitað nafnið Árni stafað afturábak eftir algengum rithætti sinnar tíðar en hinn flakkarinn hét Rukere (Eiríkur). Árni er síðan gripinn fyrir sauðþjófnað í helli í Bárðardal 1747 ásamt tveimur öðrum útileguþjófum, þeim Ívari Gíslasyni og Jóni Erlendssyni en sauðaþjófnaður þótti höfuðglæpur á þessari tíð. Ívar var sendur út til Danmerkur, varð þræll í Stokkhúsinu í þrettán ár eða þar til konungur náðaði hann en óvíst er þó hvort hann kom nokkurn tíma aftur til Íslands. Jón sem var strokufangi eins og Árni var sendur til Bessastaða en strauk úr prísundinni og gekk um sveitir ruplandi og rænandi þar til hann var gripinn aftur og hengdur án dóms eða frekari formála. ![]() Klettur í Gálgahrauni. Yfirleitt var fólk kaghýtt og brennimerkt fyrir þjófnað fyrr á öldum en endurtekinn þjófnaður var hengingarsök Það gat verið dálítið snúið að hengja menn í skóglausu landi því erfitt var að fá nógu góðan við til að smíða gálga. Því gripu menn til þess ráðs að leggja rekatré á milli tveggja steina og festa menn upp í það og því eru örnefnin Gálgaklettur eða Gálgaklettar algeng um land allt. (Ljósmynd Jónatan Garðarsson)Árni Grímsson var fluttur að Ökrum í Blönduhlíð til sýslumanns Skagfirðinga sem þá var Skúli Magnússon síðar landfógeti. Þjóðsagan segir að þeim Skúla hafi orðið vel til vina og að Skúli hafi haft gaman að þessum hæfileikaríka manni. Kvöld eitt á Skúli að hafa komið upp að vegg þess húss sem Árni var geymdur í og sagt stundarhátt: „Hefði ég verið þriggja manna maki, þá skyldi ég hafa brotið af mér járnin í nótt, hlaupið svo á bjórþilið og hrundið því út, tekið svo nestið og þrenna leðurskó með fleiru, sem geymt er í tunnunni hérna, farið síðan upp á fjallið á bak við bæinn og falið mig þar í þrjá sólarhringa, meðan leitin er sem áköfust; að því búnu hefði ég farið norður í Þingeyjarsýslu og reynt þar til að skýla mér undir uppgerðu nafni." Daginn eftir var Árni á bak og burt og sagt er að Skúli hafi aðeins látið leita að honum til málamynda enda var það sögn alþýðu að Skúli léti sakamenn sleppa ef það væri mannsbragur á þeim. Enginn vissi hvað hafði orðið af honum en Espólín segir um hann í annálum sínum: „Komst í þjófnaðarmál vestra...komst austur í Vopnafjörð, nefndist Einar, bjó þar lengi og bar ei á honum“. Reyndar er það ónákvæmni hjá Espólín að Árni hafi farið austur í Vopnafjörð því hann endaði á Langanesi en varla er hægt að komast öllu lengra frá Snæfellsnesinu en það og litlar líkur á að Guðmundur sýslumaður nennti að eltast við þennan ólánsmann sinn yfir landið þvert og endilangt enda virðist Árni hafa verið látinn í friði. Hann eignaðist dóttur með Guðrúnu Magnúsdóttur frá Skinnalóni á Melrakkasléttu en ættingjar hennar vildu ekki leyfa þeim að eigast. Árni giftist svo konu sem hét Björg Illugadóttir en þau áttu tvo syni og þrjár dætur og bjuggu á Gunnarstöðum í Þistilfirði og í Skoruvík á Langanesi. ![]() Sólsetur í Skoruvík á LanganesiÝmsar þjóðsögur eru til af Einari sterka Jónssyni, afli hans og hagleik, og svona er honum lýst í einni þeirra: „Hann er bæði hár, gildur og herðabreiður, þriggja manna maki, syndur sem selur, þjóðhagi á allar smíðar, talaði fimm tungumál, en skildi sjö, gæti hlaupið hæð sína í loft upp og stokkið níu álnir á jafnsléttu, skrífað tíu handir og væri bezti söngmaður og að öllu væri hann hinn færasti og liðmannlegasti maður.” Fræg er td sagan af því er Einar sterki barðist við áhöfn á hollenskri skútu sem ætlaði að ræna konu, hans, barni og sauðum og hafði sigur og allmikið fé upp úr því. Síðustu ár ævi sinnar bjó Einar hjá Ólafi Jónssyni presti á Svalbarða í Þistilfirði og er hann jarðaður þar. Séra Ólafur orti þessi eftirmæli um Einar: Jónson dáinn Einar er Skurðmeistari og skáld var hann Siðprúður og syndur vel Hann var glíminn, hraustur, snar, Heimildir: |