Forsíða


Hverra manna ert þú góði?
Auðmenn
Valdsmenn
Sakamaðurinn
Innflytjandinn
Hundadagadrottningin
Forsíða

 

Ætt mín frá Þorvarði og
Margréti:

Þorvarður "ríki" Loftsson 1410 - 1446 og Margrét Vigfúsdóttir 1406 - 1486
Ragnhildur Þorvarðsdóttir 1440
Erlendur Bjarnason 1460 - 1518
Margrét Erlendsdóttir 1500
Ingibjörg Pálsdóttir 1545
Oddur "sterki" Bjarnason 1573 - 1645
Jón Oddsson 1610 - 1671
Jón "eldri" Jónsson 1645 - 1712
Pétur Jónsson 1687 - 1750
Jón "yngri" Pétursson 1736 - 1803
Sigríður Jónsdóttir 1788 - 1843
Jón "yngri" Jónsson 1821 - 1885
Anna Sigríður Jónsdóttir 1869 - 1926
Solveig Þorkelsdóttir 1892 - 1977
Anna Benónýsdóttir 1933
Benóný Ægisson 1952

 

Ætt mín frá Teiti Gunnlaugssyni:

Teitur "ríki" Gunnlaugsson 1390 - 1467
og óþekkt frú
Gunnlaugur Teitsson 1445 - 1512
Guðrún Gunnlaugsdóttir 1500
Margrét Eiríksdóttir 1520
Ólafur Jónsson 1552 - 1612
Sigfús Ólafsson 1585 - 1665
Jón Sigfússon 1635
Guðrún Jónsdóttir 1663
Jón "yngri" Rögnvaldsson 1699 - 1765
Þuríður Jónsdóttir 1732 - 1804
Helga Jónsdóttir 1763 - 1798
Jón Jónsson 1786 - 1857
Jón "yngri" Jónsson 1821 - 1885
Anna Sigríður Jónsdóttir 1869 - 1926
Solveig Þorkelsdóttir 1892 - 1977
Anna Benónýsdóttir 1933
Benóný Ægisson 1952

Ætt mín frá Árna dalskeggi Magnússyni:

Árni „dalskeggur“ Einarsson um 1385 - 1434
og óþekkt frú
Ónefnd Árnadóttir (1434)
Jón Þorláksson (1480) - fyrir 1573
Ívar Jónsson (1525)
Jón Ívarsson (1575) - eftir 1623
Einar „gamli“ Jónsson um 1615 - fyrir 1703
Jón Einarsson 1659 - eftir 1721
Guðrún Jónsdóttir 1696 - eftir 1757
Ingibjörg Jónsdóttir 1736 - 1794
Ingibjörg Halldórsdóttir 1764 - 1846
Jón Þorkelsson 1790 - 1859
Solveig Jónsdóttir 1832 - 1892
Þorkell Sigurðsson 1866 - 1943
Solveig Þorkelsdóttir 1892 - 1977
Anna Benónýsdóttir 1933
Benóný Ægisson 1952

Ætt mín frá Birni ríka Þorleifssyni:

Björn „ríki“ Þorleifsson 1408 - 1467
og óþekkt frú
Þuríður Björnsdóttir (1430)
Helga Narfadóttir (1465)
Páll Grímsson um 1500 - um 1571
Ingibjörg Pálsdóttir (1545)
Oddur „sterki“ Bjarnason 1573 - um 1645
Jón Oddsson um 1610 - eftir 1671
Jón „eldri“ Jónsson 1645 - eftir 1712
Pétur Jónsson 1687 - eftir 1750
Jón „yngri“ Pétursson 1736 - 1803
Sigríður Jónsdóttir 1788 - 1843
Jón „yngri“ Jónsson 1821 - 1885
Anna Sigríður Jónsdóttir 1869 - 1926
Solveig Þorkelsdóttir 1892 - 1977
Anna Benónýsdóttir 1933
Benóný Ægisson 1952



Auðmenn

Árið 2002 fékk ég það skemmtilega hlutverk að skrifa sögulegt leikrit fyrir sumarleikhús á eyjunni Biskops-Arnö í Svíþjóð. Sögusvið leiksins var í Svíþjóð, í Danmörku, á Englandi og á Íslandi á árunum 1425 - 1436 og hann fjallar um endalok hins danska aðalsmanns Jóhannesar Gerechini Lodehat sem varð erkibiskup í Uppsölum og biskup í Skálholti og er betur þekktur í Svíþjóð og á Íslandi sem Jöns eða Jón Gerreksson. Tengsl Jóns þessa við Biskops-Arnö eru þau að eyjan var sumardvalastaður Uppsalabiskupa og hafði Sumarleikhúsið þar þegar sett upp leikrit um Svíþjóðarár Jóns en hann hafði hrökklast úr embætti vegna yfirgangs, fjármálaóreiðu og vafasamra kvennamála. Nú hafði þetta ágæta leikhúsfólks frétt af endalokum Jóns Gerrekssonar uppi á Íslandi þar sem nokkrir höfðingjar tóku sig til og tróðu honum í poka og drekktu eins og kettlingi og vildi fá leikrit um það. Að skrifa þetta verk tók ég að mér með glöðu geði og var Skreiðarbiskupinn og sveinar hans frumsýnt í Sumarleikhúsinu á Biskops-Arnö 21. júní 2003 í þýðingu minni og leikstjórans Sture Ekholm undir nafninu Biskopens skugga.

Mynd úr uppfærslunni á Skreiðarbiskupnum á Biskops-Arnö. Staffan Svensson og Charlie Gejhammar í hlutverkum Jóns biskups og eins sveina hans

Skreiðarbiskupinn og sveinar hans – Handrit

Um það leyti þegar ég var að ljúka við að skrifa verkið opnaði Íslendingabók og til gamans ákvað ég að kanna hvort þeir höfðingjar sem stóðu fyrir aðförinni að Jóni og drekktu honum í Brúará væru eitthvað skyldir mér og viti menn, þeir Teitur ríki Magnússon, Þorvarður ríki Loftsson og Árni dalskeggur Einarsson voru allir forfeður mínir.

En aðalleikararnir í þessu mikla drama voru án efa þau Þorvarður Loftsson (1410-1446) og Margrét Vigfúsdóttir (1406-1486). Þorvarður var sonur Lofts ríka Guttormssonar (1375-1432) en hann var hirðstjóri, sýslumaður og riddari á Möðruvöllum í Eyjafirði og höfuðskáld sinnar tíðar. Í annálum segir að Loftur hafi veið mikið skáld sem átti 80 stórgarða, en dó í slæmu koti. Móðir Þorvarðar var Ingibjörg Pálsdóttir (1375-1432) sem líklega hefur ekki verið í sérlega skemmtilegu hjónabandi því Loftur átti ástkonu, Kristínu Oddsdóttur, og fór ekki leynt með að hann elskaði hana meira en eiginkonuna, „hélt við mjög freklega að sinni konu lifandi“ segir í Fitjaannál en að auki lét Loftur launsyni sín með Kristínu erfa miklar eignir. Margrét var dóttir Vigfúsar Ívarssonar (1350-1420) sem var hirðstjóri yfir landinu öllu 1389-1413 og bjó á Bessastöðum á Álftanesi en móðir hennar var Guðríður Ingimundardóttir (1374-1436) sem fædd var í Noregi og af norskum höfðingjaættum. Faðir Vigfúsar, Ívar Vigfússon hafði einnig verið hirðstjóri á íslandi og kom líklega frá Noregi.

Eiríkur frá Pommern og Margrét Valdemarsdóttir Atterdag. Eiríkur var konungur Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar fram eftir 15. öldinni. Noregur og Danmörk komust í ríkjasamband með giftingu Hákons 6. Noregskonungs og Margrétar Valdimarsdóttur Danaprinsessu og eftir lát Hákons 1380 stýrði Margrét ríkjunum en ætlaði Ólafi syni sínum ríkiserfðir í löndunum. Þegar Ólafur lést fyrir aldur fram valdi Margrét Eirík Bogislaw af Pommern, dótturson systur sinnar sem ríkiserfingja og tók hann í fóstur. 17. júní 1397 var Eiríkur krýndur konungur Norðurlandanna þriggja og þar með einnig Finnlands, Íslands, Grænlands og Hjaltlandseyja, í dómkirkjunni í Kalmar í Svíþjóð. Við sama tækifæri var gengið frá samningi um ríkjasamband sem síðan hefur verið nefnt Kalmarsambandið. En Eiríkur var bara fimmtán ára þegar hann var krýndur og í raun stýrði Margrét öllum ríkjunum til dauðadags 1412. Eiríkur og Jón Gerreksson voru æskuvinir

Fimmtánda öldin var á margan hátt sérstök í Íslandssögunni og mig langar til að vitna í sjálfan mig eða réttara sagt lýsingu mína á henni í formála í leikskrá uppfærslunnar á Skreiðarbiskupnum á Biskops-Arnö því þar er margt skratti gott hjá mér þó ég segi sjálfur frá:

Á fimmtándu öld höfðu Norðurlönd sama konung en á sama tíma voru löndin að missa þá yfirburðastöðu í siglingum sem þau höfðu á víkingatímanum. Aftur á móti voru það þjóðir eins og Þjóðverjar og Hollendingar og ekki síst Englendingar sem smíðuðu svo góð skip að hægt var að sigla á þeim norður til Íslands allt árið. Íslendingar höfðu haldið að þeir væru öruggir þarna norður á hjara því það höfðu bara verið norrænir menn sem gátu siglt yfir opið haf en á fimmtándu öld voru allir firðir allt í einu fullir af útlendingum sem voru gráðugir í fisk og margir þeirra voru ekki guðs bestu börn. Fisk átti maður að borða á föstunni og þessvegna var fiskur trúarbrögð en hann var líka stjórnmál því í þá daga var ekki stór munur á þessu tvennu. Reyndar var kirkjan helsta valdastofnunin á Íslandi því kóngurinn sat í fjarlægu landi og það gerði jafnvel landstjóri hans líka. Auðvitað urðu hagsmunaárekstrar við þessar kringumstæður og margir íslenskir höfðingjar urðu ríkir á því að versla við Englendinga eða Þjóðverja og inn í þetta fjandsamlega landslag gengur Jón Gerreksson sem fulltrúi konungs sem krefur landsmenn um skatt og reynir að framfylgja banni við verslun við Englendinga. Jón hafði lítinn herflokk með sér og það var reyndar í fyrsta sinn sem útlendur her var á Íslandi og það var ekki vænlegt til vinsælda. Frá Skálholtsstóli var rekin stórútgerð og Jón Gerreksson var einn af skreiðarbiskupunum en það voru þeir biskupar kallaðir sem gættu hagsmuna annara þjóða í fiskveiðum á Íslandsmiðum og hann varð líka fórnarlamb fyrsta þorskastríðs í heiminum.

Eftirlíking af hafskipi frá 15. öld. Þessi skip voru oft vopnum búin og í lýsingu af duggunni Mary Walsingham frá Ipswich sem sigldi á Íslandsmið segir að vopnabúnaður hennar hafi verið eitt stórt fallstykki og tvö lítil, 4 hakabyssur, 10 bogar, 2 knippi af örvum og kvartél af púðri. Helstu bækistöðvar Englenginga voru í Vestmannaeyjum, á Breiðafirði og á Snæfellsnesi og oft kom til bardaga milli þeirra og Þjóðverja, Dana og Íslendinga

Um aldamótin 1400 var fremur daufleg vist á Íslandi. Skipakomur frá Noregi höfðu lagst niður, þrátt fyrir loforð Noregskonungs í Gamla sáttmála um að senda hingað skip með nauðsynjar á hverju ári. Önnur ástæða fyrir þessari deyfð var sú að um miðbik 14. aldar hafði Vor herra sent Evrópubúum dýrlega kýlapest til að refsa þeim fyrir syndir þeirra og af henni varð mikið mannfall. Sem dæmi um kyrrstöðuna á landinu bláa er að pestin sem hér hlaut nafnið svartidauði barst ekki hingað fyrr en 1402, hálfri öld eftir að hún geysaði í Evrópu.

Það var frændi minn, Hval-Einar Herjólfsson sem bar hana hingað frá Bretlandi að því talið er en ég er kominn af Geirmundi bróður hans sem var bóndi á Hvoli í Saurbæ. Einar virðist þó hafa verið ónæmur fyrir pestinni eða hafa lifað hana af því hann var „stunginn í hel með hnífi upp á uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmsstöðum“, segir í Lögmannsannál 1412.

Talið er að þriðjungur eða jafnvel helmingur landsmanna hafi látist í svartadauða og við það losnaði landrými sem var orðið af skornum skammti en einnig safnaðist mikill auður á hendur fárra sem erfðu jarðir skyldmenna sinna. Það voru einnig landeigendur og höfðingjar sem högnuðust á góðærinu sem í hönd fór á öldinni vegna fisksölu og má segja að heilmikil líkindi séu með fimmtándu öldinni og þeirri tuttugustu og fyrstu, auðmagnið stjórnaði öllu.

Plágan mikla eða svartidauði var kýlapest sem gaus upp í Evrópu á 14. öld en barst til Íslands 1402. Í annálum segir að pestin hafi verið svo skæð að fólk dó innan þriggja nátta og talið er að allt að helmingur Íslendinga hafi látist í henni. Pestin átti svo eftir að gjósa upp aftur næstu aldirnar en þó ekki eins skæð og svartidauði og raunar er hún enn við lýði í þróunarlöndunum

Ferðir Englendinga til Íslands hófust í kringum aldamótin 1400 og í raun réðu Englendingar því sem þeir vildu á Íslandi langt fram eftir 15. öldinni og hún hefur verið kölluð Enska öldin. Á síðari hluta 14. aldar hófst gífurleg samkeppni milli Þjóðverja og Englendinga um kaup á sjávarafurðum og afleiðingin verður sú að hjá Íslendingum verður nánast ekki um annan kaupeyri en sjávarvöru að ræða, skreið og lýsi í stað vaðmáls áður. Jarðir leggjast í eyði en sjóþorp og verstöðvar eflast einkum sunnan og vestanlands. Þegar líða tekur á öldina er fjöldi enskra skipa við fiskveiðar hér við land og til marks um fjöldann þá fórust 25 ensk skip í óveðri við Ísland árið 1419 en þá er talið að á annað hundrað skip sigli til Íslands á hverju ári og árið 1436 er þetta kveðið:

Um Ísland er þarflaus orðagnótt
utan hvað skreið er þangað sótt
Til heilla á braut og heim um ál
er heitið á stein og segulnál
Frá Byrstofu´er skroppið á skammri stund
og Skarðaborg um hin fögru sund
og fleyi stýrt undan hrönnum hratt
og hafa skulu menn fyrir satt
að svo mörg skip hafa siglt í ár
að sumra var hluturinn minna en smár

Úr kvæðinu Libelle of Englyshe Plycye
Þorsteinn Valdimarsson þýddi

Englendingar voru nánast einráðir á höfunum umhverfis Ísland því Danakonungur hafði fá skip en skip Englendinga voru stór og voldug og gátu sigldt fram og aftur á öllum árstímum. Til Íslands sigldu bæði enskir kaupmenn sem vildu versla við Íslendinga en einnig fóru fiskimenn að hafa með sér vöru sem þeir gátu selt eða haft vöruskipti við landsmenn og oft var betra verð á þeirri vönu en landsmenn voru vanir og enskir greiddu betur fyrir fisk en Hansakaupmenn sem höfðu sína bækistöð í Björgvin undir handarjaðri konungs.

En lífið var ekki bara dans rósum því þó margir högnuðust vel á viðskiptunum þá kom einnig til átaka milli Íslendinga og Englendinga. Enskir fiskimenn rændu stundum búfénaði til að verða sér úti um nýmeti og kom til átaka út af því, jafnvel manndrápa. Einnig gerðu þeir strandhögg á nokkrum stöðum, svo sem á Bessastöðum og rændu kirkjur. Ártið 1425 tóku Englendingar landstjórnina, Hannes Pálsson og Baltasar hirðstjóra til fanga, fluttu þá til Englands og rændu Bessastaði. Hannes ritaði þá skýrslu þar sem hann ásakaði Englendinga fyrir drykkjuskap, svall, mútugjafir, sauða- og skreiðarþjófnað, kirkjurán, brennur og kaup og rán á börnum og unglingum til að halda sem þræla. Í kjölfarið bannaði Hinrik 5. konungur, sem reyndar var mágur Eiríks frá Pommern, Íslandssiglingar en ekki tóku allir mark á því banni. Eiríkur hafði líka það vopn að hann gat lokað Eyrarsundi og þar með aðgangi að Eystrasalti og urðu Englendingar að vega og meta hvort væri meira virði, fiskurinn við Ísland eða viðskiptin við lönd við þetta innhaf.

Krónborg kastali og Eyrarsund árið 1580. Í kringum 1400 var reist virki í Helsingör til að danska konungsríkið, sem náði þá yfir Danmörku, Svíþjóð og Noreg, gæti stjórnað skipaumferð um Eyrarsund en á milli Helsingör og Helsingborgar Svíþjóðarmegin er sundið bara fjórir kílómetrar á breidd. Árið 1420 lét Eiríkur frá Pommern bæta við byggingum en virkinu var rústað með stórskotaárás árið 1536 en Krónborg var byggð á sama stað.

Um hundrað ára skeið skipaði páfi biskupa á Íslandi eða fram til 1464 og voru þeir allir erlendir nema Árni Ólafsson hinn mildi sem líka var hirðstjóri Eiríks konungs. Árni var þó ekki hollari Eiríki en svo að hann krafðist þess þess að Íslendingar fengju að versla óátalið við Englendinga og hann var hin mesta eyðslukló sem skilaði illa sköttum og hvarf á endanum í útlöndum og sögusagnir gengu um að hann hefði verið ráðinn af dögum og þeir Eiríkur og Jón Gerreksson hefðu átt þar hlut að máli en það er önnur saga. Biskuparnir voru annars danskir, þýskir, hollenskir og enskir og líklega höfðu þjóðhöfðingjar þessa tíma sem vildu styrkja stöðu sína á Íslandi áhrif á valið. Áberandi er hve margir Hólabiskupar voru enskir enda virðast Englendingar hafa haft mikil áhrif á Norðurlandi og svo dæmi sé tekið þá voru þeir þrír sem leiddu aðförina að Jóni Gerrekssyni allir að norðan.

Fysti enski biskupinn á Hólum var Jón Craxton Vilhjálmsson en hann var sennilega norrænn maður en fæddur og alinn upp í Englandi en hann varð biskup 1425. Jón var ekki síður veraldlegur höfðingi, rak stórútgerð eins og margir skreiðarbiskupar og skipti sér að deilum Íslendinga og Englendinga.

Víkur þá sögunni til Jóns Gerrekssonar Loðhattar. Jón var sonur Gereke Jensen Lodehat en föðurbróðir Jóns, Peter Lodehat, var biskup í Hróarskeldu og kanslari Margrétar drottningar. Jón stundaði nám við háskólana í Köln og Prag og var síðan prestur í Árósum. Hann var vinur Eiríks af Pommern sem gerði hann að kanslara sínum og fékk árið 1408 Gregoríus XII páfa til að gera hann að erkibiskupi í Uppsölum í Svíþjóð þrátt fyrir mótmæli kórbræðra. Þar er Jón sagður hafa borist mikið á og haldið góðar veislur. Hann var lýstur margfaldlega brotlegur við skírlífisreglur kirkjunnar, enda hafði hann tekið unga konu frá Stokkhólmi sem frillu sína og átti með henni tvö börn, og árið 1421 dæmdi páfi hann óhæfan til æðri klerkþjónustu. Afsettur sem erkibiskup í Uppsölum þvældist Jón um á fylleríi, var við hirð konungs 1423 – 25 og gerði m.a. samninga fyrir Eirík við furstann í Litháen.

Árið 1926 hleypur þó á snærið hjá Jóni því þá kemst Martínus páfi V að því að Jón hafi stórlega bætt ráð sitt og því sé óhætt að gera hann að biskupi í því skelfilega landi Íslandi þar sem menn hafa fyrir satt að hlið helvítis sé í eldfjallinu Heklu rétt hjá biskupssetrinu Skálholti. Einnig fylgir sögunni að Jón þurfi að lifa á því sem vinir hans víkja að honum og Ísland sé byggt fátækum óþjóðalýð svo það skipti litlu hver sé hirðir hans.

Jóni liggur ekkert mjög á að fara að skoða biskupsdæmi sitt því fjögur ár líða þangað til hann kemur á eigin skipi til Íslands með fjölda sveina og tvo presta en þá hafði enginn biskup setið á Skálholtsstóli í 11 ár. Jón kemur við í Lynn á leið sinni til Íslands þar sem hann kærir Englendinga fyrir að flytja börn af Íslandi og selja þau á ómannúðlegan hátt sem þræla en 11 börn höfðu fundist í skipum í Lynn. Sú saga gekk reyndar um Íslendinga á þessum tíma að þeir seldu hunda sína dýru verði en gæfu börn sín svo þau fengju brauð í öðrum löndum. Líklega var þó aðalerindi Jóns að fá siglingar enskra á Íslandsmið bannaðar sem honum tókst þó neðri deild þingsins mótmælti því.

Elsti hluti King´s Lynn Guildhall er byggður 1421 svo líklegt er að Jón hafi setið þar fundi með kaupmönnum borgarinnar þegar hann hafði vetursetu þar 1429

Að erindi sínu loknu siglir Jón til Íslands og með í för er fylgdarlið hans, líklega málaliðar og allra þjóða kvikindi en foringi þeirra er sænskur og heitir Magnús sem ef til vill var launsonur Jóns frá Svíþjóðarárunum. Í Nýja annaál segir svo um árið 1430:

Kom herra Jón Gerreksson Skálholtsbiskup með sínu skipi í Hafnarfjörð næstan fyrir Jónsmessu baptiste. Kom herra biskup af Englandi því hann hafði setið þar áður um veturinn. Fylgdu honum margir sveinar þeir, er danskir létust vera; voru þeir flestir til lítilla nytsemda landinu; hirði ég því ekki þeirra nöfn að skrifa.

Jóni var þó vel tekið í fyrstu og líklega hafa skilin á þrælabörnunum aukið vinsældir hans. En fljótlega fer hann að krefja inn skatta með hörku, heimta að fá skreið á betra verði en Englendingar og gera skreið upptæka. Ekki er alveg ljóst hvort Jón hafði stjórn á mönnum sínum sem bökuðu sér óvild Íslendinga með ránum, misþyrmingum og nauðgunum enda eru samtímaheimildir fáar því annálaritun var hætt á þessum tíma og hófst ekki aftur fyrr en eftir heila öld. Það sem um þessa atburði var skrifað var gert löngu seinna og segja sumar heimildir að Jón hafi verið bölvaður fantur en aðrar að hann hafi verið góður maður en atkvæðalítill sem hafði ekki stjórn á ribböldum sínum.

Á alþingi árið 1431 semja Íslendingar hollustuyfirlýsingu til Eiríks konungs en mótmæla fjárkröfum biskupa, útgerðarumsvifum útlendinga og dvöl erlends herliðs í landinu í leiðinni og einnig eru sveinar Jóns dæmdir ófriðhelgir og útlægir. Í forustu fyrir þessum gerningi er Ívar hólmur Vigfússon sonur Vigfúsar hirðstjóra sem stakk af með landssjóðinn og gommu af skreið til Englands 1415 og þeir Þorvarður Loftsson á Möðruvöllum og Teitur Gunnlaugsson í Bjarnarnesi. Sveinar biskups gerðu þeim tveimur síðarnefndu fyrirsát þegar þeir komu af þinginu, fluttu þá til Skálholts, settu í járn og létu þá berja fisk og stunda aðra iðju sem ekki þótti höfðingjum sæmandi.

Ríkidæmi margra grundvallaðist á fiski á 15. öld eins og á þeirri 21.

Jón biskup vildi ekki sleppa þeim Þorvarði og Teiti nema þeir lofuðu því að þeir yrðu honum hlýðnir en það vildu þeir ekki fallast á. Þorvarð tókst fyrst að flýja en en Teitur mátti dúsa fram á vor. Þá var haldin mikil veisla í Skálholti þar sem varðmenn urðu svo drukknir að þeir týndu lyklunum að fjötrum Teits en ung fann þá og hjálpaði Teiti að komast undan. Teitur launaði hann henni með þvi að gifta hana góðum manni og gefa henni 20 hundraða jörð.

Árið 1432 gerist það helst að Englendingar ganga að nauðungarsamningum við dönsku stjórnina og Hinrik konungur bannar siglingar til Íslands. Þá er einnig farið fram á bætur fyrir Jón Gerreksson og að ofbeldisseggir þeir sem ráðist hafi gegn honum og sveinum hans fái refsingu. En árið eftir dregur til tíðinda.

Magnús kæmeistari Jóns og ef til vill launsonur hans biður Margrétar Vigfúsdóttur systur Ívars hólms en hún neitar honum. Magnús verður æfur af reiði og fer ásamt sveinunum að Kirkjubóli á Reykjanesi þar sem Ívar bjó til að neyða hana til hjónabands og endaði það með því að hann skaut Ívar og brenndi bæinn en Margrét komst undan við illan leik og flúði norður í land. Sagt er að hún hafi grafið sig út í gegnum vegg með skærunum sínum og heitið því að giftast þeim manni sem hefndi Ívars bróður hennar.

Rústir bæjarins á Kirkjubóli eru nú á golfvelli Sandgerðinga en þar var Ívar Vigfússon skotinn, bærinn brenndur en Margrét Vigfúsdóttir komst undan við illan leik. Árið 1551 var Kirkjuból aftur vettvangur dramatískra atburða þegar norðlenskir vermenn hefndu Jóns Arasonar biskups og drápu Kristján skrifara sem kvað upp dóminn yfir Jóni og sonum hans og alla hans menn. Árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og hálshjuggu hann

Þorvarður Loftsson og Teitur Gunnlaugsson bindast samtökum gegn Jóni ákváðu ásamt Árna dalskeggi Magnússyni að gera aðför að honum. Teitur og menn hans komu að Hvítá, sundriðu ána rétt neðan við þann stað þar sem brúin er í dag en lið Þorvarðar og Árna kom að norðan. Þetta var á Þorláksmessu að sumri og Jón Gerreksson var við háaltarið í Skálholtsdómkirkju þegar mennirnir komu og tóku hann höndum. Sagt er að árásarmennirnir hafi notað þá aðferð til að komast inn í kirkjuna sem var stór timburbygging á hlöðnum grunni að þeir tóku tré eitt mikið, stungu undir undirstokka kirkjunnar og vógu hana upp svo það myndaðist manngeng rifa. Tóku þeir biskup sem stóð skrýddur fyrir altari með oblátu í hönd sem hann hafði vígt sér til varnar og drógu hann út úr kirkjunni en prestar hengu í biskupi og reyndu að tefja förina eins og þeir gátu. Á leiðinni út missti biskup oblátuna og var hann seinna grafinn þar sem hún féll.

Sagan segir að þeir Árni, Teitur og Þorvarður ásamt liði sínu hafi farið með Jón og alla hans sveina út að Brúará. Jón Gerreksson var settur í poka og drekkt í ánni en allir hans sveinar voru aflífaðir á árbakkanum. Varðveist hefur vísa sem lýsir þessum gerningi:

Ólafur hinn illi
biskupaspillir
Þó gerði Jón enn verra
en hann sá ráð fyrir herra

Þessi vísa og aðferðin sem notuð var til að ganga frá Jóni sýnir að árásarmenn höfðu þaulhugsað það hvernig þeir myndu bera sig að enda var biskup staðgengill Krists á jörðu og ekki mátti úthella blóði hans. Biskupar voru æðstu fulltrúar hins krossfesta á jörðu og því fáir glæpir alvarlegri en að drepa þá og þessvegna var vænlegra að drekkja biskupum og fá til þess tvö gegnheil illmenni sem höfðu fyrirgert sálarheill sinni og myndu hvort sem er enda í helvíti. Svo er hugsanlegt að þeir hafi fengið ráðgjöf frá einhverjum geistlegum manni og kemur þá Jón Craxton Hólabiskup fljótlega upp í hugann.

Sagan segir að aðeins einn manna Jóns hafi komist undan, Magnús kæmeistari en hann varð að flýja land til að halda lífi. Þessi saga er í besta falli vafasöm og líkur eru á að sveinarnir hafi þegar verið farnir úr landi eða hafi flúið þegar njósn barst af innrásarliðinu, bæði vegna þess að litlar varnir voru í Skálholti þegar biskup var tekinn og síðan vegna þess að fundist hefur bréf frá sama tíma frá enska útgerðarmanninum Walther Salham þar sem hann kærir rán á skipi sínu og krefst þess að fá það aftur eða skaðabætur fyrir missinn.

Á miðöldum voru kirkjur í Skálholti stórar timburkirkjur

Árni Dalskeggur lést ári eftir Skálholtsförina en fátt er um hann vitað annað en að hann var bóndi norður í Eyjafirði. Örlítið meira er vitað um Teit ríka Gunnlaugsson en hann bjó í Bjarnanesi í Nesjum við Hornafjörð en var ættaður að norðan. Eftir aðförina að Jóni var Teitur kosinn lögmaður á Alþingi og kann það að hafa átt sinn þátt í því að engin eftirmál urðu vegna biskupsdrápsins. Teitur var tvívegis lögmaður norðan og vestan, 1433–1437 og 1444–1453 og lögmaður sunnan og austan 1441–1450 og um allt land 1444–1450. Teitur er einn þeirra sem nefndir eru í hyllingarbréfi Eiríks konungs af Pommern 1431 og taldi hann Eirík eina löglega konunginn þaðan í frá, því þótt Eiríkur væri settur af 1440 og orðinn sjóræningi á Gotlandi, vildi Teitur aldrei hylla annan konung að Eiríki lifandi, hvorki Kristófer af Bæjaralandi né Kristján 1., fyrr en 1459, þegar hann var leystur frá eið sínum með alþingisdómi, en þá var Eiríkur látinn. Teitur virðist hafa verið mjög valdamikill og í miklum metum, þar sem hann komst upp með að neita að hylla konungana þótt hirðstjórar reyndu ítrekað að fá hann til þess. Óskilgetinn sonur Teits Gunnlaugssonar var Gunnlaugur Teitsson lögréttumaður og er ég kominn af honum.

En hversvegna var ekki gert meira úr vígi Jóns Gerrekssonar? Til þess geta verið ýmsar ástæður eins og til dæmis þær að Eiríkur frá Pommern sem hafði átt þátt í því að Jón var skipaður biskup hrökklaðist frá völdum skömmu eftir vígið. Þá var páfastóll í uppnámi og fluttur frá Róm og grimm valdabarátta um hann og því ólíklegt að prelátar færu að skipta sér að málum í fjarlægu ólandi þar sem hlið helvítis voru. Þá hafði Jón ekki sem best orð á ser í páfagarði og þeir sem vógu hann helstu höfðingjar Íslands. Einhver smá rekistefna var þó gerð en 1448 veitir Nikulás páfi V Marcellusi Skálholtsbiskup leyfi til að gefa banamönnum Jóns syndaaflausn og setja þeim hæfilega refsingu en þá er Þorvarður látinn (1446). Er mögulegt að hann hafi látist í Svartadauða sem gekk þá um Evrópu því hann er á fertugsaldri.

Brúará við Spóastaði. Þarna er talið að Jóni Gerrekssyni hafi verið drekkt

Þorvarður Loftsson giftist Margréti Vigfúsdóttir en varð ekki langlífur, dó aðeins 36 ára gamall en Margrét hinsvegar dó í hárri elli, 80 ára að aldri. Þau bjuggu á Möðruvöllum en eftir lát Þorvarðar flutti Margrét að Hólum sem eru fornt höfuðból og kirkjustaður innst í Eyjafirði. Þau voru ríkasta fólk landsins því hjá þeim safnaðist saman auður tveggja voldugustu ætta landsins og þau áttu jarðir um allt land og Margrét átti einnig jarðir í Noregi.

Ég er kominn af Ragnhildi, yngstu dóttur Margrétar og Þorvarðar, en þau áttu þrjár dætur og gifti Margrét þær samtímis og hélt brúðkaupsveislu þeirra á Möðruvöllum. Ragnhildur giftist Hákarla-Bjarna Marteinssyni bónda á Eiðum en Þorvarður hafði átt Eiða og eignir sem þeirri jörð fylgdu og fékk Bjarni þær með konu sinni. Sonur Ragnhildar og Bjarna var Erlendur bóndi og sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum sem Englendingar settu í gaddatunnu og drápu þannig 1518.

Þorvarður talar mjög blítt til Margrétar í erfðaskrá sinni og felur henni að ganga frá öllum sínum málum. En elskaði Margrét Þorvarð eða giftist hún honum bara til að efna heit sitt eða vegna þess að ríkar konur giftust ríkum mönnum svo saman safnist enn meiri auður? Allt bendir til þess að Margrét hafi verið sterk og sjálfstæð kona og eftir lát manns síns giftist hún ekki aftur þótt hún hafi án efa verið eftirsóknarvert kvonfang. Hún gaf forláta altarisbrík í kirkjuna á Möðruvöllum í Eyjafirði til minningar um mann sinn og þau voru grafin þar saman í kór kirkjunnar. Bríkin er enn varðveitt í núverandi kirkju þar.

Möðruvallabríkin er Maríubrík. Sjö lágmyndir eru í alabastursbríkinni í Möðruvallakirkju. Þær sýna (frá vinstri) Jóhannes skírara, boðun Maríu, fæðingu Krists, upprisu Krists (í miðið), uppnumningu Maríu, krýningu Maríu og Jóhannes guðspjallamann. Bríkin er tveir metrar á breidd, þegar hún er opin

En Margrét var ekki eina konan til að gefa altarisbrík til minningar um mann sinn. Það gerði einnig Ólöf ríka Loftsdóttir, systir Þorvarðar, jafnvel tvíburasystir því þau fæðast bæði á sama ári. Ólöf giftist Birni ríka Þorleifssyni á Skarði, hirðstjóra og forföður mínum í 15. lið. Englendingar, líklega frá Lynn eða Bristol drápu Björn á Rifi, hjuggu hann í stykki og fleygðu í sjóinn. Að auki rændu þeir fiski og skattfé konungs, brenndu bæi og létu Ólöfu ríku greiða hátt lausnargjald fyrir Þorleif son þeirra. Fræg eru orð Ólafar þegar hún frétti af vígi Björns: „Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði“. Og það gerði hún svikalaust, lét elta uppi Englendinga og drepa þá hvar sem til þeirra náðist eða fór með þá heim til sín að Skarði og hélt þá sem þræla. Þess ber að geta að ég er ekki kominn af þessari blóðþyrstu kerlingu heldur í gegnum laundóttur Björns, Þuríði sem giftist Narfa Þorvaldssyni lögréttumanni á Narfeyri í Álftafirði.

Bríkin sem Ólöf Loftsdóttir gaf til minningar um mann sinn Björn ríka Þorleifsson. Á miðjuspjaldinu er mynd af fæðingu Krists með Jósep og Maríu, vitringum og fjárhirðum en hægra megin er einhver kvenpersóna og er hún talin vera eftirmynd Ólafar ríku en ekki var óalgengt að gefendur létu bæta sér inn á slíkar myndir. Mynd: RAX

Heimildir:
Íslendingabók – Ættfræðivefur
Hið íslenska bókmenntafélag - Annálar 1400 - 1800
Saga Íslands V - Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir
Öldin fimmánda
Björn Þorsteinsson - Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld
Björn Þorsteinsson - Enska öldin í sögu Íslendinga
Björn Þorsteinsson - Tíu þorskastríð 1415-1976
Vísindavefur Háskóla Íslands
Grein í tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga eftir Sigurð Skúlason
Wikipedia (www.wikipedia.org) - frjálst alfræðirit

© Benóný Ægisson


Efst á síðu




Orgvél ehf - Skólavörðustíg 4C - 101 Reykjavík - gsm 897 8694- netfang: orgvel@orgvel.is