![]() |
Hverra manna ert þú góði?
|
HundadagadrottninginVeturinn 1809, rétt eftir áramótinn standa tveir menn í Aðalstræti sem hét líklega Hovedgaden í þá tíð ef hún hét þá nokkuð. Annar mannanna er fyrirmannlegur eins og rómantískt skáld í bláum ullarfrakka, rauðgulu vesti með hvítt um hálsinn en hinn er svartklæddur. Báðir eru mennirnir í leðurstígvélum og gyrtir sverðum, sá í bláa frakkanum er sléttrakaður en sá svartklæddi er með yfirskegg og hefur pístólu í beltinu. Þeir líta í kringum sig í þessari einu götu þessa norðlæga krummaskuðs með sín lágreistu timnburhús og torfkofa, opið ræsi, skít, drullu og fnyk af úldnum fiski og hugsa sjálfsagt báðir það sama: Hvern andskotann eigum við að gera af okkur hérna? Þetta eru vinir okkar Jørgen Jørgensen og James Savignac, Jørgensen sjóliðsforinginn, landkönnuðurinn og rithöfundurinn og Savignac dökkur og hættulegur með sína skotkláru skammbyssu. Þessir tveir eðaltöffarar hafa án efa vakið eftirtekt í smáþorpinu Reykjavík og fengið margt meyjarhjartað til að slá hraðara. En hvað hafði Reykjavík að bjóða þessum ævintýramönnum? Það er fátt um fína drætti og þrautalendingin fyrir þá að fara að kíkja á hana Gunnu í Götuhúsum sem vinnur í Klúbbnum og skrafa við hana, drekka eða taka í spil meðan þeir bíða þess að eitthvað gerist. ![]() Endurgerð mynd eftir Jørgen Jørgensen af atviki á dansleik í Klúbbnum í Reykjavík 6. ágúst 1809 þegar kona festi hárkollu sína í ljósakrónu. Líklega er þetta sama hljómsveitin og lék á dansleik árið eftir en þá lýsti dr. Henry Holland tónlist hennar á eftirfarandi hátt: „Hljóðfærin voru: fiðla, bumba lögreglunnar og tveir þríhyrningar (triangles) - músíkin var ömurleg, bæði lögin og meðferð þeirra.“ Þetta er líklega fyrsta gagnrýni um tónlist á ÍslandiEkki eru tengsl Malmqvist-fólksins þau einu sem ætt mín hafði við Jörund en þau eru í gegnum karllegg föður míns. Ég hef líka fundið skyldleika í gegnum kvenlegg hans við sjálfa Hundadagadrottninguna en hún hét Guðrún Einarsdóttir og var ættuð frá Dúki í Sæmundarhlíð en þar fæddist Helga Þorbergsdóttir (1884-1970) langamma mín en þær voru skyldar að 3. og 5. lið. Guðrún fæddist 1791 og bjó í Götuhúsum sem voru þar sem nú er Landakotshæðin en það var utan bæjarins í þá daga. Þegar þeir kumpánar Jörundur og Savignac koma til Reykjavíkur var hún innan við tvítugt og vann í Scheelshúsi eða Klúbbnum sem var veitinga og samkomuhús sem stóð við suðurenda Aðalstrætis, steinsnar frá Brúnsbæ þar sem þeir bjuggu. Öllum heimildum ber saman um að stúlkan Guðrún hafi verið fögur og töfrandi persónuleiki og hana virðist aldrei hafa skort vonbiðla. Henni er lýst sem hugrakkri, úrræðagóðri og tápmikilli en einnig segir að eftir aðskilnaðinn við Jörund hafi hún orðið um sinn femme fatale Reykjavíkur. Almannarómur segir að til hafi staðið að Guðrún yrði drottning Jörundar en um það eru þó fáar heimildir sem hönd er á festandi og Jörundur minnist ekki einu sinni á hana í sjálfsævisögu sinni sem er skrítið ef einhvern tíma stóð til að hún yrði drottning hans eða landstjórafrú eftir því hvaða hlutverk Jörundur ætlaði sér í framtíðar stjórnskipun landsins. En Jörundur er reyndar frekar fáorður um valdatíð sína á Íslandi í ævisögunni og þar sem er reykur þar er eldur undir. Henry Holland sem var á Íslandi árið eftir valdarán Jörundar hefur þetta um Guðrúnu að segja: Ein af fegurstu stúlkum Reykjavíkur er ungfrú Jónsen sem var heitmey Jørgensens og hefði gifst honum ef hann hefði haldið völdum sem landstjóri á Íslandi. ![]() Helga Þorbergsdóttir langamma mín var frænka Guðrúnar Einarsdóttur en þær voru báðar frá Dúki í Sæmundarhlíð. Guðrún þótti afar fríð sýnum en skyldu þær frænkur hafa borið líkt svipmót?Jón Þorkelsson minnist á Guðrúnu í neðanmálsgrein í Sögu Jörundar hundadagakóngs: Þegar Jörundur var á Íslandi fylgdi honum Guðrún dóttir Dúks-Einars (Jónssonar) og var síðan kölluð hundadagadrottning.. Dúks-Guðrún var síðar í tygjum við Savignac. Í enskum félagsskap tók Guðrún upp nafn föður síns og kallaði sig Johnson. Kvennamál Jörundar voru alla tíð undarleg og hann dagaði uppi með kolvitlausri írskri kerlingu í Tasmaníu og var víst mesta mildi að þau gengju ekki frá hvort öðru í skapofsa og drykkjuæði. Í kvennamálum eins og öðru börðust í honum púrítaninn og fíkillinn eins og sést á teikningum hans þar sem hann upphefur kvenímyndina sem göfgandi og frelsandi afl en lifnaður hans gefur tilefni til allt annara hugrenninga. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að fjárhættuspilum, annaðhvort harmar hann að hann hafi ekki stjórn á fíkn sinni og iðrast einlæglega eða hann spilar rassinn úr buxunum í bókstaflegri merkingu því oft gekk hann hálfnakinn frá spilaborðinu eftir að hafa lagt allt undir. Og tapað eins og einhver Don Kíkóti sem leggur af stað með einlægan ásetning en allt verður honum mótdrægt þrátt fyrir ótvíræða hæfileika. Hann var afbrags sjómaður, skipstjórnandi og landkönnuður, starfaði sem fræðimaður og leikritaskáld, var ágætur myndlistarmaður og störf hans sem stjórnmálamaður, njósnari og mannaveiðari sýna að hann hafði góða þekkingu á mannlegu eðli. En allt kom fyrir ekki, á honum sannaðist hið fornkveðna að sitt er hvort gæfa eða gjörvileikur. Í sögunni hefur James Savignac ætíð staðið í skugga Jörundar en hann lék þó stórt hlutverk í valdaráninu á Íslandi. Hann er í raun fulltrúi Phelps í fyrri ferð þeirra til Íslands og mun atkvæðameiri en Jörundur í samskiptum við íslensk yfirvöld. Í seinni ferðinni snýst dæmið við, Jörundur tekur við stjórninni en Savignac verður einhverskonar liðsforingi eða handrukkari Jörundar og nýtur þá oft liðsinnis Peters Malmqvist enda var oft kvartað yfir aðgangshörku þeirra félaga. Savignac virðist hafa verið gæi sem ekki hlustaði á neitt kjaftæði og vílaði ekkert fyrir sér. Honum er lýst sem hreinræktuðum drullusokki og sumar konur eiga erfitt með að standast svoleiðis menn. ![]() Teikning af Reykjavík eftir Aage Nielsen-Edwin gerð eftir dönskum kortum frá 1801 og fleiri gögnum. Brúnsbær þar sem Peter og Martha María Malmquist bjuggu og Jörundur og Savignac gistu er við norðvesturenda tjarnarinnar nr. 30 en norðan við hann er Klúbburinn (nr. 31) þar sem Guðrún Einarsdóttir vann. Götuhús þar sem Guðrún bjó eru nr. 59 vinstra megin fyrir miðju á hæðinni sem nú er kölluð Landakotshæð. Austurstrætið er göngustígur og þar eru fyrstu húsin að rísa við lækinn, stiftamtmannshúsið þar sem Jörundur bjó eftir að hafa handtekið Trampe greifa og landfógetahúsið (Hressó) þar sem Savignac bjó. Aðkomumenn hafa slegið upp tjöldum á Austurvelli norðan við dómkirkjuna. Ef smellt er á myndina birtist stærri útgáfaAtvinnulíf á Íslandi var afar fábreytt í byrjun 19. aldar en mikill meirihluti landsmanna bjó í sveitum og vann þar landbúnaðarstörf. Útræði var stundað á opnum bátum og því ekki hægt að stunda sjó nema þegar veður voru sæmilega skapleg. Landið var þá eins og nú háð innflutningi á ýmsri nauðsynjavöru eins og korni og annari matvöru, járni, fataefnum ofl en það sem landsmenn höfðu helst til að selja voru prjónavörur og fiskur og þó fiskurinn væri snöggtum verðmætari þá var þéttbýlismyndun við ströndina varla hafin og réði þar miklu að bændur börðust hatramlega gegn henni því þeir sáu fram á að annars misstu þeir vinnufólk sitt í sollinn í bæjunum. Reykjavík og önnur sjávarþorp höfðu vont orð á sér í sveitunum, þá eins og nú: „Reykjavík varð fljótt fjölbyggð og apaði eftir útlendra kaupstöðum eftir því sem færi gafst til í munaðarlífi, metnaði, prakt, svallsemi, lystugheitum og ýmsu er reiknast til ens fína móðs” sagði Magnús Stephensen sem varð eftirmaður Jörundar um skamma hríð. „Var þar engin fyrirhyggja höfð um annað en fédrátt og skart; voru allir bæjarmenn kramarar og þernur þeirra og þjónar hugsuðu ei um annað en skart og móða; konur höfðu gullhringa marga hver og keypt var um hvaðeina er til yfirlætis horfði, samkvæmi jafnan og dansar og drykkjur og eftir þessu vandist alþýðan er þar var um kring og óx þar mikið iðnaðarleysi en allt það er horfði til harðgjörfi eða réttrar karlmennsku og hugrekki var þar sem fjarlægast”sagði Jón Espólín sýslumaður og annálaritari árið 1808. Vaxandi þéttbýlismyndurn við sjávarsíðuna á 19. öld losaði smámsaman um það vistarband sem bændur höfðu á alþýðu manna. Í Reykjavík var möguleiki á því að stunda útræði og vinna við fiskverkun, vinna daglaunavinnu fyrir kaupmennina eða við ullariðnað Inréttinganna. Því varð til ný stétt fólks sem stundaði ekki hefðbundinn búskap heldur vann daglaunavinnu þegar og þar sem hún gafst. Þurrabúðarmenn eða tómthúsmenn var þessi nýja verkalýðsstétt kölluð og þetta fólk bjó í torfbæjum allt í kringum timburhúsbyggðina í kvosinni, fyrst í Grjótaþorpi, á Landakotshæð og vestur með ströndinni en síðan teygði byggðin sig austur fyrir læk, í Þingholtin, Skuggahverfið og Skólavörðuholtið. ![]() Málverk eftir Agust Mayer af þurrabúð í Reykjavík 1836. Tveir karlar bera flattan fisk á handbörum til kvenna sem breiða hann til þerrisKonur á Íslandi hafa alltaf unnið mikið þó framlag þeirra hafi sjaldan verið metið til jafns við vinnu karlanna. Þó var ekki óalgengt að vinnudagur kvennanna væri mun lengri en karlanna því þegar þær voru búnar með skyldustörf sín tók við þjónusta við karlana því þá var það ekki til siðs að karlmenn þvæðu föt eða gerðu við þau. Það var fátt um fína drætti fyrir alþýðustúlkur í Reykjavík í kringum aldamótin 1800. Þær gátu fengið vinnu í fiski, við að salta og breiða fisk eða unnið við uppskipun. Þá var aðeins ein bryggja í Reykjavík, í Grófinni undan Aðalstrætinu. Öll stærri skip lögðust við akkeri úti á víkinni og síðan þurfti að flytja alla vöru úr skipunum og í þau á árabátum að bryggjunni eða upp í fjöruna fyrir neðan Hafnarstræti sem var ekki enn orðin gata heldur bara röð af pakkhúsum og sölubúðum. Karlmenn sáu um flutninga á sjó en í landi voru það oft konur sem sáu um að koma vörunum á sinn stað. Hjólið var enn ekki komið til sögunnar á Íslandi enda engir vegir til að aka um og mest voru notaðar handbörur sem tveir eða tvær báru á milli sín. Fiskvinnan og uppskipunin voru hvorugtveggja erfiðisvinna og því var það mikið happ fyrir stúlkurnar ef þær komust í vist hjá betri borgurum bæjarins og fengu vinnu við að sauma, elda, þrífa, þjóna eða gæta barna. Guðrún frá Dúki var svo heppin að fá vinnu í Klúbbnum. Eða óheppin, eftir því hvernig á það er litið en það er ótvírætt að kynni hennar við útlendingana sem stunduðu Klúbbinn, þá einkum Englendingana gerðu lífshlaup hennar ólíkt því sem tíðkaðist hjá öðrum íslenskum stúlkum. Eftir að sambandi Guðrúnar og Jörundar lauk og Jörundur fór úr landi varð Guðrún þerna James Savignac, sem varð eftir í Reykjavík sem verzlunarstjóri Samuel Phelps og átti líklega í ástarsambandi við hann því þegar Gísli Símonarson faktor fór að gera hosur sínar grænar fyrir Guðrúnu brást Savignac ókvæða við og skoraði Gísla á hólm. Hann mætti með tvær skammbyssur heim til Geirs Vídalín biskups þar sem Gísli var staddur en biskupi tókst að afstýra einvíginu. Sagt var að Savignac hefði „gleymt” að hlaða þá byssu sem Gísla var ætluð og talið lýsandi fyrir það hverskonar þokkapiltur téður Savignac var. ![]() Götumynd frá Reykjavík 1836 eftir Agust Mayer. Líklega AðalstrætiSumarið 1810 kynntist Guðrún læknanemanum Henry Holland sem fyrr er getið en hann kom í enskum vísindaleiðangri til Íslands. Eitthvað virðist hafa verið kært á milli þeirra því þau skrifuðust á og Holland sendi henni gjafir eftir að hann sneri aftur til Englands. Eftir hundadagaævintýri Jörundar og félaga komst breska stjórnin að þeirri niðurstöðu að hún yrði að hafa fulltrúa á Íslandi og sendi hingað kosúl sem hét John Parke 1811 og í fylgd með honum og títtnefdum Savignac siglir Guðrún til Englands 1812 og segir í annálum að það þótti landhreinsun að brotthvarfi Savignac. Eitthvað fer milli mála um hvernig málum var háttað í þessum þríhyrningi, sumar heimildir telja hana þernu Parke en Jörundur heldur því fram í bréfi að hún hafi verið fylgikona Savignac. En þegar til Englands er komið kemst Guðrún að því að Savignac er giftur maður sem á tvær dætur og þar með sé það útilokað að hún verði eiginkona hans. Jörundur telur að Savignac hafi tælt Guðrúnu til að koma með sér. John Parke reynir þá að notfæra sér ástandið og gerir henni ósiðlegt tilboð að sögn Jörundar. Guðrún hafnar því að verða ástmey hans og eftir þetta talar hún mjög illa um hann í bréfum sem hún sendi til Íslands. ![]() Pístólur af þeirri gerð sem sjóliðar breska flotans notuðu í upphafi 19. aldar. Líklegt er að byssur Savignac hafi verið svipaðarEkki er vitað hvar Guðrún bjó sinn fyrsta vetur í Englandi en næst fréttist að henni í heimsóknum hjá Savignac sem hafði verið handtekinn og hnepptur í Fleet skuldafangelsið. Skuldafangelsi þessi voru með þeim hætti að menn gátu haft fjölskyldu sína hjá sér eða haft þjóna eða þernur sem elduðu fyrir þá og því hlutverki gegndi Guðrún fyrir Savignac. En til að kóróna þetta undarlega ástand og endurvekja gamla þríhyrninginn þá lendir Jörundur í sama skuldafangelsi og verður herbergisfélagi Savignac. Hvort eitthvað lifði enn í gömlum glæðum, afbrýðisemi eða væntumþykkja, þá ákveður Jörundur að hjálpa Guðrúnu og losa hana undan þessum ljóta manni eins og hann kallar Savignac í bréfi til Íslandsvinarins sir Joseph Banks sem alltaf var til í að hjálpa bágstöddum Íslendingum. Jörundur biður hann um aðstoð við að koma Guðrúnu aftur heim til Íslands og Banks tekur þessu erindi vel og greiðir skuldir Guðrúnar og aðstoðar hana á alla lund. ![]() Í bresku skuldafangelsiGuðrún hafði í hyggju að fá far með Orion, skipi Trampes sem nú var komið í eigu Bjarna Sívertsen kaupmanns í Hafnarfirði en skipið lenti í hafvillum við Noreg og svo fór að Guðrún fékk ekki far með haustskipi til Íslands. Jörundur vildi allt til vinna að koma henni burt frá Savignac og skrifaði Banks annað bréf og fyrir tilstilli hans var Guðrún um veturinn hjá sir John Thomas Stanley og gætti barna þeirra Stanley-hjóna á óðalssetri þeirra í Cheshire. Guðrún hélt sambandi við fjölskylduna og skrifaðist á við lafði Maríu Stanley eftir að hún fór til Íslands en þangað komst hún með aðstoð Samuel Whitbread þingmanns árið 1814 en Jörundur var einnig skjólstæðingur hans. Brottför Guðrúnar frá London var all söguleg því báðir vonbiðlar hennar, þeir Savignac og Parke birtust og fóru að reyna að ráðskast með hana. Einkum var Parke aðgangsharður, hafði meira að segja í hótunum við hana og á endanum komu velgjörðamenn hennar henni í hestvagn og það var ekið í loftköstum með hana til Liverpool en þaðan átti skip hennar að sigla. Það getur varla leikið vafi á því Guðrún var góðum gáfum gædd og afar töfrandi kona því hún virðist fyrirvaralítið heilla fólk úr bresku yfirstéttinni og allir eru boðnir og búnir til að hjálpa henni. Hún hefur líka verið dálítið glæfrakvendi því hún leggur líka lag sitt við lukkuriddara eins og Jörund og Savignac og hún hefur verið óhrædd við að ganga í mót óvissri framtíð. Englandsför hennar er til marks um það því á þessum tíma var fátítt að ungar ógiftar konur væru einar á rápi á milli landa. Án efa hefur æfintýragirni átt þátt í ferðalagi Guðrúnar til Englands en einnig er líklegt að hún hafi ætlað að læra betur enskuna og læra einhverja iðn því hún var fróðleiksfús og þegar hún var komin heim eftir tveggja ára dvöl í Englandi dundaði hún sér við að læra hollensku og að læra að spila á langspil. En eftir dvöl sína í stórborginni London og í glæstum sölum ensku yfirstéttarinnar er komin óeirð í hana og Reykjavík orðin minni, ómerkilegri og leiðinlegri en nokkrusinni fyrr. „Ó, á það að verða hlutskipti mitt að lifa hér alla mína daga? Hugsunin er hræðileg, allt hér kemur mér ömurlega fyrir sjónir” skrifar hún til Maríu Stanley. ![]() Alderly Park í Cheshire þar sem Guðrún Einarsdóttir gætti barna Stanley hjónannaGuðrún leggur því aftur land undir fót og flytur til Kaupmannahafnar. Lítið er vitað um dvöl hennar þar en árið 1845 skrifar hún Finni Magnússyni leyndarskjalaverði í Kaupmannahöfn, og biður hann um aðstoð fyrir sig og dóttur sína Málfríði því þær áttu ekki fyrir mat. Finnur var bóngóður maður og hefur eflaust gaukað einhverju að Guðrúnu en síðan er hljótt um þessa stúlku frá Dúki í Sæmundarhlíð sem árið 1809 stóð til boða að verða fyrsta innlenda drottningin á Íslandi. Meira um tengsl ættar minnar við Jörund í þættinum Innflytjandinn en hann fjallar Peter Malmquist beyki og virkisstjóra. Heimildir: |