![]() |
Hverra manna ert þú góði?
|
Innflytjendurnir![]() Reykjavík 1810Sunnudaginn 25. júní árið 1809 var skipsbáti róið í land frá vopnaða kaupskipinu Margaret and Anne sem lá við akkeri á legunni fyrir utan Reykjavík. Um borð í bátnum voru tólf matrósar og fjórir yfirmenn sem stukku í land þegar báturinn rann upp í sandfjöruna undan Hafnarstrætinu sem var reyndar ekki enn orðin gata á þessum tíma og skálmuðu sem leið lá upp í Austurstræti sem var ekki heldur orðin gata og einungis tvö hús risin, Landfógetahúsið sem nú er númer 20 og hýsir kaffihúsið Hressó en hitt húsið sem nú er númer 22 var ákvörðunarstaður hópsins. Í húsinu sem var nýlega endurbyggt eftir bruna bjó á því herrans ári 1809 Frederik Christopher Trampe greifi sem þá var hæstráðandi á Íslandi. Þetta var rétt eftir messu og margir á ferli í bænum og bæjarbúar sem voru rúmlega 300 á þessum tíma horfðu á þennan liðssafnað í forundran enda óvanir vopnuðum herflokkum á ferli í bænum. Sex matrósar stilltu sér upp við fordyr og sex við bakdyr en foringjarnir fjórir gengu óboðnir í bæinn, handtóku Trampe greifa og tóku völdin í þessum syfjulega útnára hins danska heimsveldis. Þrír þessara manna voru breskir borgarar, þeir John Liston skipherra á Margaret and Anne, Samuel Phelps sápukaupmaður frá London og James Savignac verslunarþjónn hans sem reyndar var af frönskum ættum en sá fjórði var danskur sjóliðsforingi, Jörgen Jörgensen betur þekktur hér á landi sem Jörundur hundadagakonungur. ![]() Lækjartorg 1820. Myndina málaði Aage Nielsen-Edwin eftir mynd eftir Moltke greifa en Moltke varð stiftamtmaður á Íslandi 1819 en árið eftir flutti hann í Tukthúsið sem er hvíta byggingin á myndinni. Fyrir framan húsið eru matjurtagarðar og brú yfir Lækinn sem rann úr tjörninni. Vinstra megin sést skúta á legunni og virki Jörundar, Batteríið var á öðrum hólnum sem gengur í sjó fram. Efst fyrir miðju er Arnarhólsbærinn og hægra megin við hann eru traðirnar sem voru þjóðleiðin inn í bæinn og enn sést móta fyrir. Á Lækjartorgi er maður að tala við höfðingja á hestbaki en fyrir aftan hann er kona í skautbúningi. Takið eftir konunum fyrir ofan þau, þær bera eitthvað á milli sín á handbörum því hjólið var lítið sem ekkert notað á Íslandi á þessum tíma. Konur unnu mörg erfiðsverk í bænum td við fiskvinnslu og uppskipunJörundur var á Íslandi í annað sinn sumarið 1809 en hann hafði komið áður í janúar sama ár á skipinu Clarence til að kaupa tólg og lýsi til sápugerðar fyrir kaupmanninn Samuel Phelps og til að selja Íslendingum ýmsar nauðsynjavörur sem þá bráðvantaði því skipaferðir til Íslands lágu nánast niðri vegna Napóleonsstyrjaldanna. Danir voru bandamenn Frakka í þessum styrjöldum en Englendingar réðu lögum og lofum á höfunum og höfðu meira að segja hirt danska flotann eins og hann lagði sig eftir að hafa bombarderað Kaupmannahöfn árið 1807. Það var því lítið um siglingar til útskerja eins og Íslands og skortur á ýmsum nauðsynjum. En hin danska verslunarstétt í Reykjavík og íslensk yfirvöld voru ekki hrifin af þessu framtaki Englendinganna, drógu lappirnar og þvældust fyrir þeim eins og þeir gátu. Þar fyrir utan fór mestur kaupskapur í bæjum landsins fram á sumrin en ekki um miðjan vetur. Það teygðist því á dvöl Jörundar á Íslandi og fengu hann og Savignac sem var með honum í för inni í Brúnsbæ hjá Peter Malmqvist beyki og konu hans. Peter Malmquist var fæddur í Svíþjóð 1757 en flutti til Íslands árið 1799 ásamt eiginkonu sinni sem hét Martha Maria Lykke Malmquist (1762-1817) en ekki er vitað með vissu um þjóðerni hennar en líklegast er að hún hafi verið frá Noregi. Þau komu frá bænum Friedrichshald sem er á landamærum Noregs og Svíþjóðar og heitir nú Halden ásamt fjórum börnum sínum og settust fyrst að í Seyðisfjarðarkaupstað og Peter hóf störf sín á Íslandi sem beykir. Hversvegna þau fluttu til Íslands er ekki vitað en líklega voru þau í leit að betra lífi eins og innflytjendur allra tíma. Þeim virðist hafa verið full alvara með að setjast að á Íslandi því þau flytja hingað með fjögur mjög ung börn, Boel (Boul, Bodil?) Maríu (fædd 1790), Jóhann (1792), Anne Lykke (1795) og Jóhönnu (1797) sem eru í manntali frá 1816 sögð fædd í Frederichshald og þau eignast tvær dætur á Íslandi árið 1800 þær Kristínu og Pálínu. Samkvæmt manntali 1799 og 1801 búa þau Peter og Martha Maria í Dvergasteinssókn í Múlasýslu og í manntalinu 1801 eru þau skráð í Seydisfjords Handelssted ásamt fimm börnum sínum, Kristínar er þar ekki getið og hefur hún líklega látist ung. ![]() Úr Dvergasteini í Seyðisfirði þar sem afkomendur Peters og Mörtu Maríu Malmquist bjuggu lengi, útvarpstæki keypt hjá Viðtækjaverslun Ríkisins 1950 og kommóða smíðuð í Halden í Noregi 1790 sem Peter og Marta María höfðu með sér til landsins. Mynd: Vigfús ÓlafssonÁrið 1805 virðist Peter taka sig upp og flytja til Reykjavíkur og fær borgarabréf ári síðar. Hann fer að vinna hjá Innréttingum Skúla fógeta og fær inni í bústað sem ætlaður var beyki Innréttinganna en Innréttingarnar voru tilraun til að iðnvæða landið og gera afar fábreytt atvinnulíf fjölbreyttara. Sá bær var yfirleitt kallaður Brúnsbær því hann var í eigu ekkju Brun fangavaktara í Múrnum sem fékk þau eftirmæli að vera bölvaður fantur og vondur við fangana. Brúnsbær var torfbær eins og flest hús í Reykjavík á þessum tíma en húsakynni hafa verið ágæt því grasafræðingurinn William Jackson Hooker sem var með Jörundi í hans annari för og bjó þá í Brúnsbæ segir að hann hafi verið sérstaklega fallegur með litrík blóm á þakinu. Brúnsbær stóð við norðvesturhorn tjarnarinnar en hún náði þá lengra í norður en hún gerir nú, sunnan við Klúbbinn sem var helsti samkomustaður Reykvíkinga á þessum tíma. Þar sem Klúbburinn stóð stendur Herkastalinn núna en í bæjarstæði Brúnsbæjar reis stórhýsi Happdrætti Háskóla Íslands við Tjarnargötu. Peter fékk borgarabréf í Reykjavík 1806 og titlaðist eftir það snedker í staðinn fyrir bødker sem hefur þótt par fínna en í borgarabréfinu fær hann leyfi til að stunda beykisvinnu og smíðar sjálfstætt í Reykjavík. Borgarabréfinu fylgdu ýmis réttindi eins og leyfi til að stunda borgaralegar atvinnugreinar eins og verslun og handiðnað, réttur til þáttöku á bæjarþingum, kjörgengi til trúnaðarstarfa og réttur til að krefjast dóms að landslögum. Skyldurnar voru aftur á móti skattskylda og þátttaka í brunavörnum, næturvörslu og vörnum ríkisins. Eiður sá sem Peter þurfti að vinna danska kónginum til að fá borgarabréf er varðveittur í Borgarskjalasafni Reykjavíkur og þennan eið hélt Peter fram að hundadögum 1809: Þar sem ég undirritaður, sem hefi tekið mér bólfestu sem beykir og snikkarameistari hér í bænum er nú tekinn í borgaratölu í kaupstaðnum Reykjavík, lofa ég hér með, sem ég þó hvort eð er var skyldugur og skuldbundinn til, að vera hans hátign konungi Danmerkur og Noregs o.fl. hollur og trúr í öllu, sem mínum rétta erfðakonungi og herra ásamt réttum eftirkomendum hans til ríkisstjórnar og skal ég vera skyldugur og skuldbundinn til þess að setja líf mitt, eignir og blóð í hættu til marks um það.
Í öllu dagfari mínu og breytni skal ég haga mér svo að vel sæmi og hæfi vönduðum manni og skuldbind mig auk þess hér með til þess að haga mér í öllu nákvæmlega eftir þeim konunglegu lögum og tilskipunum, sem þegar hafa verið náðarsamlegast gefnar út og verða það eftirleiðis og ástunda með hinni mestu kostgæfni allt sem verða má Reykjavíkurbæ til heilla og fúslega gjalda þær opinberar kvaðir, sem á mig verða lagðar honum til stuðnings. Svo sannarlega guð hjálpar mér og hans heilaga orð. Reykjavík 27. febrúar 1806 ![]() Eiður Peter Malmqvist frá 1806 sem varðveittur er í Borgarskjalasafni ReykjavíkurSvo virðist sem Peter hafi komið sér ágætlega fyrir í Reykjavík, hann stendur skil á vatnsgjöldum á árunum 1805-8, 16-32 skildinga árlega og 1808 greiðir hann einn ríkisdal fyrir umhirðu og gæslu kýr sinnar en kýr áttu bara hinir betri menn, faktorar, embættismenn og iðnaðarmenn. En eftir 1809 er snedker Peter Malmqvist hvergi getið í bókum Reykjavíkurkaupstaðar. Peter og kona hans eru gufuð upp en þau eru einu forfeður mínir sem ég veit til að hafi búið í Reykjavík fyrir aldamótin 1900. Auðvitað fyrir utan Ingólf Arnarson og Hallveigu Fróðadóttur Víkurbændur sem ég er komin af í 30. lið. Í byrjun 19. aldar voru íbúar Reykjavíkur rúmlega 300 sálir og 1806 þegar Peter fær sitt voru handhafar borgarabréfs 77, 55 útlendingar en 22 Íslendingar. Reykjavík var í raun danskur bær á þessum tíma en þar bjó einnig fólk af ýmsu öðru þjóðerni, Norðmenn þó flestir. Tvö steinhús voru í bænum, Dómkirkjan og tukthúsið austan lækjarins en bústaðir kaupmanna og embættismanna voru yfirleitt einlyft timburhús með háu risi sem stóðu í kvosinni milli tjarnar og sjávar. Allt í kringum þessa byggð sem hnipraði sig í þessari grunnu kvos stóðu svo kotbýli almúgans úr torfi og grjóti. Timburhúsin voru flest tjörguð og ekki þóttu torfbæirnir rismiklir, yfir þorpinu lá alltaf reykský því að mestu var eldað og kynnt upp með mó og erlendur ferðamaður sem leit staðinn frá hafi í fyrsta sinn þóttist aldrei hafa séð ljótara þorp. Á sumrin var mikið um vera í þessum kaupstað og verstöð en daufleg vist á veturna enda sigldu flestir dönsku kaupmennirnir heim til Danmerkur með haustskipum og ekki einu sinni Trampe greifi sem var stiftamtmaður vesturamts og þar með æðsti maður landsins, hafði hér vetursetu.
![]() Hafnarfjörður 1811. Líklega stendur eitthvað af húsunum á myndinn ennþáÍ byrjun 19. aldar var mikill ófriður í Evrópu en þá stóðu Napóleonsstyrjaldirnar yfir milli Englendinga og Frakka og Danir voru bandamenn Frakka. Bretar réðu lögum og lofum á hafinu og það kom illa niður á Íslendingum því ýmsar nauðsynjar bárust ekki frá Danmörku og Noregi og auðvitað máttu þeir ekki versla við óvininn, Englendinga. Í janúar 1809 þegar engrar skipakomu var von ber það til tíðinda að kaupskipið Clarence siglir inn á Hafnarfjörð. Það vakti nokkurn ugg því þó skipið skartaði bandarískum fána var það þungvopnað og árið áður hafði enskur víkingur, Gilpin að nafni rænt fjárhirslu landsins í húsi Trampes greifa, 37 þúsund dölum. Aðalástæðan fyrir yfirburðum Englendinga á hafinu var sú að þeir vopnuðu kaupskip sín og gáfu skipherrum leyfi til að leggja hald á óvinaskip og oft voru þessir skipherrar hreinræktaðir sjóræningjar. Skipinu Clarence var siglt til Reykjavíkur og þar var skipað upp ýmsum vörum sem skipverjar vildu selja landsmönnum en settur stiftamtmaður, Ísleifur Einarsson lagði blátt bann við allri verslun. Til að sýna yfirburði sína gripu skipverjar til þess ráðs að að taka norskt skip í Hafnarfirði og sigla því inn til Reykjavíkur undir enskum fána og þar með viðurkenna uppruna sinn og þorði þá Ísleifur ekki öðru en að gefa þeim verslunarleyfi. Clarence var gert út af sápugerðarmanninum Samuel Phelps til að kaupa tólg á Íslandi til sápugerðar en tólg hafði safnast hér upp vegna ófriðarins og var þetta ferðalag að undirlagi danska sjóliðsforingjans Jørgen Jørgensen eða Jörundar, sem er það nafn sem okkur er tamast að nota. ![]() Málverk af Jørgen Jørgensen eftir danska málarann Christoffer Wilhelm Eckersberg, líklega máluð 1808 rétt áður en Jörundur lagði af stað í herför sína á skipinu Admiral JuulJörundur var víðförlasti Dani þessa tíma, 14 ára gamall fór hann á sjóinn enda var hann óalandi í skóla og hefði líklega verið greindur ofvirkur með athyglisbrest nú á dögum. Tvítugur gekk hann í breska flotann og hafði hann þrátt fyrir ungan aldur sinn, en hann var tæplega þrítugur þegar hann kom hingað, siglt tvisvar í kringum hnöttinn, verið í könnunarleiðöngrum í Eyjaálfu, siglt til Tahiti og verið sjóræningi í Suðurameríku. Árið 1807 þegar Jörundur var í Danmörku að heimsækja fjölskyldu sína gerðu bresk herskip árás á Kaupmannahöfn og hertóku borgina eftir þriggja vikna umsátur. Sex vikum síðar héldu Bretarnir heim með megnið af skipakosti Dana og þá sögðu Danir Englendingum stríð á hendur. Allir Danir á aldrinum 18 til 50 ára voru gerðir herskyldir og þar með sat Jørgensen fastur í netinu; hann hafði engan áhuga á að fara í stríð við Englendinga sem hann dáði meira en eigin þjóð. En vegna þess að Jørgensen var reyndur sjómaður og skipstjórnandi var hann skikkaður til að gerast skipstjóri á dönsku herskipi sem hét Admiral Juul og það hefur einnig skipt máli að faðir hans sem var efnaður úrsmíðameistari átti þátt í að kosta útgerð skipsins. Jörundur tók nokkur skip herfangi en úti fyrir ströndum Englands lenti hann í snörpum bardaga við Sappho sem var mun öflugara stríðsskip og við minna skip sem hét Clio og varð að gefast upp og skip hans var hertekið. Sú saga komst á kreik að Jörundur hefði siglt skipinu í gin enska ljónsins að ásettu ráði en engar skjalfestar heimildir styðja það. En eftir þetta var hann talinn föðurlandssvikari í Danmörku og réttdræpur ef hann kæmi þangað enda sneri hann aldrei aftur til heimalandsins. Jörundur var hálfgerður stríðsfangi í London en fékk að ganga laus gegn loforði um að strjúka ekki. Hann hitti James Savignac á veitingahúsi og komst í kynni við sápugerðarmanninn Samuel Phelps í gegnum hann og taldi Phelps á að leggja í Íslandsförina því á Íslandi væri nóg af tólg og lýsi til sápugerðar og skortur á ýmsri nauðsynjavöru sem hægt væri að selja landsmönnum. ![]() Jørgen Jørgensen skipherra á Admiral Juul varð að láta í minni pokann í sjóorrustu við herskipin HMS Sappho og Clio við EnglandsströndÞeir Jörundur og Savignac sem var með honum í för bjuggu hjá Malmquist hjónunum í fyrri ferð hans til Íslands og hefur líklega farið vel á með þeim því þegar Jörundur gerir byltingu sína reynist Peter öflugur liðsmaður. Jörundur sigldi aftur til Englands í apríl á Clarence en Savignac varð eftir til að reyna að selja farminn en það gekk illa því þrátt fyrir leyfi setts stiftamtmanns og hagstætt verð á vörunni þá þorðu Íslendingar ekki að versla við Englendingana vegna andstöðu yfirvalda og dönsku kaupmannanna. Trampe greifi kom til landsins á skipi sínu Orion þann 6. júní og stuttu síðar kom enska herskipið Rover en Nott skipherrann á því átti að gæta hagsmuna Englendinga á Íslandi. Þann 16. júní undirrituðu Trampe og Nott samkomulag um að enskir menn mættu versla á Íslandi. En varla hafði Rover látið úr höfn og blekið þornað á pappírnum þegar Trampe bannaði alla verslun við Englendinga að viðlagðri dauðarefsingu. Þannig stóðu mál þegar Phelps og Jörundur koma í seinni Íslandsför sinni á skipinu Margaret & Anne 21. júní og Trampe varð ekki haggað enda átti hann sjálfur mikið af óseldri vöru sem hann hafði flutt til landsins á Orion og kærði sig því lítið um samkeppni frá Englendingum. Phelps hafði víkingaleyfi frá stjórn sinni og mátti því taka herfang og þann 26. júní þraut hann þolinmæðina og sendi Liston skipstjóra ásamt 12 vopnuðum mönnum til að handtaka Trampe greifa og fór sú handtaka fram án átaka því Trampe hafði ekkert herlið sér til stuðnings, eini liðssafnaður Dana í Reykjavík var Frydensberg bæjar- og landfógeti og tveir lögregluþjónar. Greifinn var fluttur í varðhald um borð í Margaret & Anne en Jörundur var settur til að stjórna landinu og ríkti hann til 22. ágúst eða yfir hundadagana og er þannig til kominn titill hans hundadagakóngur. En vel að merkja þá titlaði Jörundur sig aldrei konung heldur kallaði sig Lord Protector eða verndara þó smámsaman tileinkaði hann sér hið konuglega fornafn Vér í yfirlýsingum sínum sem hengdar voru upp á almannafæri en sú fyrsta hófst á orðunum: Allur danskur myndugleiki er upphafinn á Íslandi. Svo virðist sem Jörundur hafi í einlægni viljað láta gott af sér leiða á Íslandi því hann stefndi að því að Íslendingar gætu kosið yfir sig stjórn og hér yrði fulltrúalýðræði, hann hélt áfram að greiða embættismönnum laun, hækkaði laun kennara við Bessastaðaskóla og bætti viðurværi skólapilta. Hann áformaði að fá Johanne Maríu Malmqvist ljósmóður til að kenna íslenskum konum fæðingarhjálp til að minnka barnadauða og til er bréf frá Johanne til Jörundar en meira um það síðar. Hann stofnaði lítið herlið sem hafði bækistöð í fangelsinu við Arnarhól sem nú er stjórnarráð en sleppti föngunum. Hann bætti varnir landsins með því að láta reisa virki í Arnarhólnum sem kallað var Fort Phelps en fékk fljótlega nafnið Batteríið. Hann lét sækja sex fallbyssur til Bessastaða og koma fyrir í virkinu en þær höfðu legið þar í sandi í 150 ár ónotaðar enda höfðu Danir staðið sig illa við að verja landið fyrir víkingum, sjóræningjum og öðrum óþjóðalýð. Peter Malmqvist beykir hefur líklega stjórnað virkisgerðinni því hann var að verki loknu ráðinn virkisstjóri í Batteríinu og til er skipunarbréf Peters sem er á þessa leið: Vér Jörgen Jörgensen Að vér höfum tilnefnt og skipað, eins og vér hérmeð tilnefndum og skipum hr. Peter Malmqvist til þess að vera æðstbjóðandi í víginu við Reykjavíkurbæ, næst oss sjálfum. Í þessu embætti ber honum að starfa dyggilega og með fullum trúnaði og þangað til vér ákveðum nánara um það, alltaf vera reiðubúinn til aðgerða þegar nauðsyn ber til, til þess að starfa að því að verja landið með þeim varnarbúnaði sem vér höfum þegar útvegað eða kynnum að útvega hér eftir og viljum vér bæta því ákvæði við að það fólk sem vinnur á víginu skal hlýða honum í öllu tilliti svo sem Sjálfum oss. - Munum vér gjalda velnefndum hr. Malmqvist laun er nema 300 dölum á ári meðan hann rækir þetta embætti svo vér séum ánægðir. Stjórnarskrifstofan á Íslandi 2. ágúst 1809 Undir vorri hendi og innsigli ![]() Leifarnar af Batteríinu, virki Jörundar hundadagakonungs við Arnarhól eins og virkið leit út um aldamótin 1900Allt bendir til að Jörundur hafi verið ágætur stjórnandi og haft lag á að fá fólk með sér og er byltingu hans best lýst í Skýslu um íslensku byltinguna 1809 eftir náttúrufræðinginn William Jackson Hooker en þar segir: Byltingin var frábrugðin öllum öðrum byltingum á okkar tímum. Aðeins var beitt tólf mönnum til að hrinda henni í framkvæmd, engu mannslífi var fórnað, ekki dropa af blóði úthellt og aldrei var hleypt af skoti né sverð dregið úr slíðrum. Endalok yfirráða Jörundar á Íslandi urðu þau að enska herskipið Talbot kom til Reykjavíkur og Trampe tókst að ná eyrum skipherrans Alexanders Jones og bera upp klögumál sín. Jones var sjálfur af aðalsættum og hefur því líklega haft meiri samúð með dönskum greifa en dönskum úrsmiðssyni því hann skipaði svo fyrir að völdin skyldu afhent fyrri yfirvöldum eða mektarmanni úr hópi innfæddra, hinn íslenski fáni Jörundar, blár með þremum flöttum þorskum skyldi tekinn niður, virkið eyðilagt og Jörundur og Trampe fluttir til Englands til að standa fyrir máli sínu. Lagt var af stað á tveimur skipum, Margaret & Anne og skipi Trampes, Orion sem Jörundur stjórnaði. Danskir fangar á Margaret & Anne kveiktu í skipinu undan Reykjanesi og Jörundur vann frækilegt björgunarafrek þegar hann bjargaði allri áhöfninni en skipið sökk og allur farmurinn glataðist. Eftir að til Englands kom var Jörundur hnepptur í varðhald í ár sem hann notaði til ritstarfa. Eftir að hann losnaði gekk hann ekki lengi laus því hann var forfallinn fjárhættuspilari og endaði í skuldafangelsi. Síðan gerðist hann njósnari Breta í Evrópu í nokkur ár en þegar hann sneri aftur til London lenti hann enn í skuldafangelsi og á endanum var hann sendur í fanganýlendu í Eyjaálfu þar sem hann gerðist harðsnúinnn lögreglustjóri í Hobart í Tasmaníu. Jörgen Jörgensen lést 1841 og er grafinn í Hobart en þann bæ hafði hann átt þátt í að stofna í ferðum sínum um Eyjaálfu sem ungur maður. Ekki er gott að segja hvaða áhrif bylting Jörundar hafði en ef til vill var hún til marks um það sem koma skyldi. Á svipuðum tíma eru þeir menn að fæðast sem voru í forustu í frelsisbaráttu Íslendinga, þeir Jónas frændi minn Hallgrímsson og Jón Sigurðsson sem er skelfilega lítið skyldur mér en það hefur þó orðið hlutskipti mitt hin síðari ár að stjórna afmælisveislu hans á Austurvelli. Margir hafa hent gaman að stjórnartíð Jörundar og gert lítið úr henni og áhrifum hennar. Sennilega kemur það mest til af því að það eru alltaf sigurvegararnir sem skrifa söguna, í þessu tilfelli Danir og íslenskir embættismenn sem mestu höfðu að tapa á sjálfstæði landsins. Helgi P Briem leiðir að því ágæt rök í bók sinni Sjálfstæði Íslands 1809 að yfir þessa stuttu hundadaga hafi Ísland verið sjálfstætt og fullvalda ríki. En hvað um það, hvort sem þetta var uppreisn, bylting eða stofnun lýðveldis þá er ég stoltur af því að mitt fólk skyldi eiga hlut að þessu máli. Meira um tengsl ættar minnar við Jörund í þættinum Hundadagadrottningin en hann fjallar um Guðrúnu Einarsdóttur Johnsen sem kom frá Dúki í Sæmundarhlíð eins og langamma mín. ![]() Málverk Jóns Helgasonar sem sýnir Reykjavík um aldamótin 1800. Örin bendir á torfbæi sem voru þar sem nú er Tjarnargata 4-6. Þarna stóðu á þessum tíma bæirnir Brúnsbær, Teitsbær auk þess stóð Zuggersbær á sömu slóðum, rétt austan við Brúnsbæ. Óljóst er hvenær fyrst var búið á þeim stað sem Brúnsbær stóð en getið er um bæinn sem hluta af Reykjavíkurbæjunum 1759, en bærinn var rifinn 1834. Í Brúnsbæ bjuggu Malmqvisthjónin og þar gistu þeir Jörundur og Savignac í fyrri Íslandsferð sinniEn hvað varð um þau Peter Malmqvist og konu hans? Þau virðast hafa flutt aftur austur á land enda hefur þeim sem studdu Jörund varla verið vært í hinni hálfdönsku Reykjavík eftir að allt hafði verið fært til fyrra horfs. Heimildir segja að Malmqvist hjónin hafi siglt með Jörundi á Oríon og hafa því snúið aftur til Reykjavíkur eftir hina frækilegu björgunaraðgerð Jörundar. Engum sögum fer að því að þau hjónin hafi siglt með Jörundi til Englands í annað sinn en í skipaskrá sést að skip í eigu Samuel Phelps siglir frá Reykjavík til Austfjarða í byrjun september og er líklegt að Malmqvist fjölskyldan hafi tekið sér far austur með því. Í manntali Suður Múlasýslu 1816 er Peter titlaður húsbóndi og beykir á Sörlastöðum í Dvergasteinssókn og þar býr hann ásamt konu sinni og þremur börnum. Elsta dóttirin Bóel María er orðin húskona hjá prestinum í Dvergasteini og býr þar ásamt Maríu Eiríksdóttur sínu óegta barni eins og segir í kirkjubókum, langalangalangaömmu minni. Athygli vekur að Eríkur Skúlason barnsfaðir Bóel Maríu sem var helmingi eldri en hún og fékk þau eftirmæli að vera lausgangari, mikill drykkjumaður og óreglumaður býr á Sörlastöðum hjá foreldrum hennar. Heimilishald þeirra Malmqvisthjóna hefur greinilega verið mjög sérstakt alla tíð. Boel María Malmqvist, formóðir mín giftist Árna Sigmundssyni og fluttist að Kollaleiru í Reyðarfirði og var sú jörð í eigu fjölskyldunnar í 120 ár. Nú er þar munkaklaustur. ![]() Kollaleira í ReyðarfirðiPeter og Martha María Malmqvist og Peter og Johanne Marie Malmqvist Johanne Marie Sch. Jörgensdatter Widtzende kom líklega til Íslands 1803 eða 1804 en hún var dönsk yfirsetukona sem lærði í Kaupmannahöfn. Hún sótti um starf ljósmóður í Reykjavík, fékk 60 ríkisdali í laun og bjó fyrst í Svenska húsinu sem nú er Austurstræti 20 en flutti síðan í Brúnsbæ. Í sálnaregistrinu frá 1809 er hún skráð eiginkona Peters Malmqvist og þar er einnig skráður sonur þeirra Isaak, vinnukonan Guðlaug og tveir leigjendur, Jörgensen og Savignac. William Jackson Hooker segir í ferðabók sinni um Ísland að Johanne hafi verið allra kvenna hressust á böllum þrátt fyrir aldurinn og alltaf verið síðust til að hætta að stíga dans. Þann 13. ágúst árið 1809 skrifaði Maddama Malmquist Jörundi hundadagakonungi bréf og kvittar með því fyrir skipun um að taka að sér kennslu ljósmæðranema en þetta var eitt af stefnumálum Jörundar, líklega að frumkvæði Johanne. Hún leggur til að stúlkur komi úr hverri sýslu og læri í Reykjavík áður en þær séu skipaðar umdæmisljósmæður. Af þessu varð ekki því Jörundur var hrakinn frá völdum rúmlega viku síðar. ![]() Hluti af bréfi maddömu Malmqvist til Jörundar hundadagakóngs sem varðveitt er í The National Archives í LondonSagt er að Peter hafi flutt frá Íslandi 1811 en það er skjalfest að Johanne fékk lausn frá ljósmóðurstörfum í september árið eftir. Hún er sögð sigla til Kaupmannahafnar með barn sitt, Ísak en hann er sagður óskilgetinn sonur beykisins sem vekur upp spurningu um hvort þau voru einhvern tíma gift eða hvort Peter hafi verið sekur um tvíkvæni sé um sama mann að ræða. En hver er skýringin á þessu misræmi? Mér finnst líklegast að hér sé um sama mann að ræða og atburðarásin hafi verið með eftirfarandi hætti: Peter er ráðinn sem beykir til Seyðisfjarðar og flytur með fjölskyldu sína þangað 1799 frá Noregi. Seyðisfjörður var ekki löggiltur verslunarstaður þá en þar var verið að koma upp útibúi frá Verslun Kyhn á Eskifirði sem var aðalverslunarstaður Mið-Austurlands á þessum tíma. Líklegt er að Peter hafi ekki fengið nóg að gera á Seyðisfirði til að geta framfleytt fjölskyldunni og því hafi hann farið til Reykjavíkur til að freista gæfunnar. Hann hefur skilið fjölskylduna eftir fyrir austan, líklega með því fororði að hann myndi senda eftir henni þegar hann væri búinn að koma undir sig fótunum. Hann fær vinnu sem beykir í Reykjavík og líklega inni í Brúnsbæ. Þar liggja leiðir hans og hinnar léttlyndu Johanne saman og hann barnar hana 1805. Eftir það hefur það hljómað betur að láta sem þau væru gift og 1809 reka þau bú í Brúnsbæ. Peter er titlaður beykir og assistent og líklega hefur hann unnið hjá Savignac sem var með verslun á Íslandi til ársins 1812. Kannski var hann sjálfur í einhverju verslunarbraski. En hvert fór hann árið 1811? Sigldi hann burt af landinu eða mundi hann allt í einu eftir því að hann átti fjölskyldu fyrir austan og fór þangað? Peter Malmqvist sem býr á Sörlastöðum 1816 virðist vera í ágætum álnum því hann átti líka jörð uppi á Héraði þar sem nú er Fellabær. Kannski var hann búinn að safna nógu fé í Reykjavík til að geta snúið aftur og séð fjölskyldu sinni fyrir austan farborða. Það var líka komið los á verslunarrekstur Englenginga í Reykjavík en undir honum átti hann allt sitt. Svo var hann kannski orðinn leiður á þessari dansóðu dönsku kerlingu og langaði heim til sín. Heimildir: |