FJÖLLEIKUR

HEIMKOMAN

HÖFUNDUR OG LEIKARI

HÖFUNDUR, LEIKARI OG LEIKSTJÓRI

BRÚÐUHEIMILIÐ

ÆFINGIN SKAPAR MEISTARANN

GÆRDAGURINN LIFIR GÓÐU LÍFI

SÖGUR UM DÝR

ÚR SEGULBANDASAFNINU

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Heimkoman

MÓÐIR
Tuttugu ár! Tuttugu löng ár!

FAÐIR
Tuttugu löng ár og loksins kemur hann heim um jólin. Já, í ár verða gleðileg jól.

MÓÐIR
Í tuttugu ár hefur sonur okkar elskulegur verið út í hinum stóra heimi að læra að vera mikill maður.

FAÐIR
Og nú kemur hann heim og allt okkar basl og fátækt er fyrir bí. Við þurfum ekki lengur að afneita okkur um allt til að geta kostað hann til náms. Nei, nú getum við unað okkur alla okkar ævidaga í horninu hjá honum syni okkar.

MÓÐIR
Ég er svo spennt! Ég er svo spennt!

FAÐIR
Og ég líka. Hvað skyldi hann hafa verið að læra?

SONUR kemur inn
Faðir minn! Móðir mín!

MÓÐIR
Ó elsku sonur minn! Velkominn heim!

FAÐIR
Sestu hérna hjá okkur og segðu okkur hvað á daga þína hefur drifið.

SONUR
Ég hef farið víða og margt lært..

FAÐIR
En peningarnir? Hvað hefurðu uppúr þér?

SONUR
Ég hef lagt stund á atferlisfræði.

BÆÐI
Atferlisfræði?

SONUR
Já. Ég hef stúderað atferli mannsins. Af öllu hans háttalagi má ráða hvernig honum líður, hver er stétt hans og staða, efnahagur og heilsufar. Það er til dæmis mjög lýsandi hvernig menn skella hurð. Það er til dæmis þegar menn skella hurð í reiði, þegar þeir skella hurð til að undirstrika skoðun sína, það er hinn hrokafulli hurðaskellur, það er til, þó ótrúlegt virðist, auðmjúkur hurðaskellur, það er gleðiskellurinn, ergelsisskellurinn og svona mætti lengi telja. En, ekki dugir að tefja hérna lengur, ég þarf að fara aftur, læra meira. Þið haldið áfram að senda peninga. (Hann fer út og skellir á eftir sér hurðinni)

Þögn

MÓÐIR
Hvaða skellur var þetta?

FAÐIR
Þetta var sá hrokafulli!

MÓÐIR
Nei. Sá auðmjúki.

Þau þrátta áfram um hvaða skellur þetta var.

TJALDIÐ

 

© Benóný Ægisson - Verkið má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar


Efst á síðu