FJÖLLEIKUR

HEIMKOMAN

HÖFUNDUR OG LEIKARI

HÖFUNDUR, LEIKARI OG LEIKSTJÓRI

BRÚÐUHEIMILIÐ

ÆFINGIN SKAPAR MEISTARANN

GÆRDAGURINN LIFIR GÓÐU LÍFI

SÖGUR UM DÝR

ÚR SEGULBANDASAFNINU

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Tvíleikur fyrir höfund og leikara

Sviðið er fangaklefi: stóll, borð og rúm. Tvær ferðatöskur standa fremst á sviðinu. LEIKARINN liggur í rúminu og starir upp í loftið. HÖFUNDURINN situr á háum kolli og heldur á handriti. LEIKARINN gerir það sem fyrir hann er lagt í handriti og HÖFUNDUR les fyrir.

HÖFUNDUR
Sviðið er fangaklefi, fátæklega búinn. Einu húsgögnin eru stóll, borð og rúm. Fanginn liggur í rúminu og starir upp í loftið. Langvarandi skortur og ófrelsi hefur sett mark sitt á hann. Þjáningin lýsir út úr hverjum drætti. Fanginn stendur upp, gengur fram og tilbaka en ekki of langt því klefinn er lítill og setur hreyfingarfrelsi hans þröngar skorður. Hann sest við borðið og horfir döprum augum fram í salinn. Stynur. Stendur upp. Stynur. Gengur um gólf. Leggst aftur í rúmið. Stynur, byltir sér um stund. Sest framá rúmstokkinn og setur olnbogana á hnén. Stynur. Hylur andlitið með höndunum. Axlirnar hristast í hljóðum gráti. Hann harkar af sér og stendur upp.

LEIKARI
Ég skal ekki láta bugast.

HÖFUNDUR
Hann gengur um gólf. Sest við borðið. Stynur.

LEIKARI
Fimmtán löng ár. Fimmtán löng ár. Fimmtán löng ár.

HÖFUNDUR
Hann grætur með ekkasogum.

LEIKARI
Fimmtán löng ár.

HÖFUNDUR
Hann stendur upp og gengur um gólf. Ætlar að setjast á rúmið en hættir við það og sest þess í stað á borðið. Stynur. Stendur upp og gengur um gólf. Leggst síðan á gólfið.

LEIKARI
Á gólfið?

HÖFUNDUR
Já. Á gólfið.

LEIKARI
Og hvað svo?

HÖFUNDUR
Hvað meinarðu, hvað svo?

LEIKARI
Ef ég leggst á gólfið er ég búinn að leggjast allsstaðar þar sem hægt er að leggjast. Ef þú lætur mig setjast á gólfið er ég líka búinn að setjast allsstaðar þar sem hægt er að setjast. Hvað gerist svo?

HÖFUNDUR
Það kemur í ljós.

LEIKARI
Ókei. Ég leggst þá á gólfið.

HÖFUNDUR
Fínt. Það er einmitt það sem þú átt að gera samkvæmt handritinu. Hann leggst á gólfið og reynir að sofna. Byltir sér.

LEIKARI
Afhverju leggst ég ekki í rúmið ef ég ætla að fara að sofa?

HÖFUNDUR
Kannski ertu orðinn leiður á því. Þegar öllu er á botninn hvolft ertu búinn að liggja í því í fimmtán ár.

LEIKARI
Fimmtán ár. Er það lélegur endingartími á rúmi? Myndi ég skipta oftar út rúmum ef ég væri frjáls maður?

HÖFUNDUR
Þetta er svona í handritinu.

LEIKARI
Ókei ókei. Ég spurði bara.

HÖFUNDUR
Þú þykist auðvitað geta skrifað betra leikrit.

LEIKARI
Ekki vera sár. Sumt gengur bara ekki upp þegar út á gólfið er komið.

HÖFUNDUR
Ætli ég kannist ekki við það. Stundum kannast maður ekki við sín eigin verk þegar þau eru komin á svið. Það vita allir betur en höfundurinn. Ljósamaðurinn, hvíslarinn, skúringakonan..

LEIKARI
Eigum við ekki að reyna að þrælast í gegnum þetta?

HÖFUNDUR
Þá höldum við okkur við handritið.

LEIKARI
Við höldum okkur við handritið.

HÖFUNDUR
Þú verður að leggjast aftur. Hann byltir sér og getur ekki sofnað. Hann sest upp og stynur.

LEIKARI
Gerist ekkert í þessu andskotans leikriti?

HÖFUNDUR
Gerist? Hvað meinarðu?

LEIKARI
Ég veit það ekki. Kemur enginn annar?

HÖFUNDUR flettir í handriti
Nei. Þetta er einleikur.

LEIKARI
Svoleiðis. Jæja haltu áfram.

HÖFUNDUR
Hann sest við borðið og leggur olnbogana á það. Hylur andlitið í höndum sér. Grætur hljóðlega.

LEIKARI
Segðu mér eitt. Hvað ertu að reyna að segja með þessu leikriti?

HÖFUNDUR
Segja?

LEIKARI
Já. Segja.

HÖFUNDUR
Nú, ég er að reyna að túlka einsemdina. Ófrelsið. Skírskota til einangrunar mannsins í víðara samhengi.

LEIKARI
Til hvers?

HÖFUNDUR
Jú þetta er auðvitað hræðilegt - þetta með einsemdina, ófrelsið og einangrunina.

LEIKARI
Ég meina: Hver er þessi maður? Hversvegna er hann þarna? Hversvegna kemur enginn og færir honum mat?

HÖFUNDUR flettir
Það stendur ekkert um það í handritinu.

LEIKARI
Af hverju ekki?

HÖFUNDUR
Sko: Ef ég hefði ætlað mér að segja hver hann væri, hversvegna hann er þarna og útlista mataræði hans þá hefði ég sett það í handritið.

LEIKARI
Það gerist semsé ekki neitt.

HÖFUNDUR
Ekki samkvæmt þínum skilningi að mér skilst.

LEIKARI
Ég sit hér og stend og styn og græt allt leikritið.

HÖFUNDUR
Í grófum dráttum: já. Auðvitað stendur verkið og fellur með túlkun þinni á innri þjáningum fangans, þú veist, ófrelsið.

LEIKARI
Ég er semsé ekkert á förum?

HÖFUNDUR
Á förum? Hvert þá?

LEIKARI
Að brjótast út eða eitthvað svoleiðis.

HÖFUNDUR
Nei.

LEIKARI
Til hvers eru þá þessar ferðatöskur?

HÖFUNDUR
Ferðatöskur?

LEIKARI
Já, ferðatöskur. Eru þær ekki í handritinu?

HÖFUNDUR flettir
Nei. Engar ferðatöskur. Þær hljóta að vera úr einhverju öðru verki.

LEIKARI
Hvernig ætlarðu að láta þessi ósköp enda?

HÖFUNDUR
Ég var að hugsa um að láta þig gráta þig í svefn.

LEIKARI
Gráta mig í svefn?

HÖFUNDUR
Já.

LEIKARI
Það virkar ekki.

HÖFUNDUR
Af hverju ætti það ekki að virka?

LEIKARI
Það bara virkar ekki.

HÖFUNDUR
Ókei. Þú sem allt þykist vita. Hvernig myndir þú láta verkið enda?

LEIKARI
Tja. Við gætum til dæmis tekið sitthvora töskuna og farið.

HÖFUNDUR
Tekið ferðatöskur sem eru ekki einusinni í handritinu og bara farið. Það er ekki hægt.

LEIKARI
Þetta er bara tillaga. Auðvitað ræður þú þessu. Þú ert höfundurinn.

HÖFUNDUR
Af öllu því bulli sem veltur upp úr þér þá var þetta það heimskulegasta. Taka sitthvora ferðatöskuna..
Þagnar
Þeir taka sitthvora ferðatöskuna og ganga í átt til frelsisins.

LEIKARI
Ha?

HÖFUNDUR
Við förum.

LEIKARI
En hvað með handritið?

HÖFUNDUR
Við göngum handritslausir í átt til frelsisins.

LEIKARI
Stynur

Þeir taka sitthvora ferðatöskuna og ganga handritslausir í átt til frelsisins.

TJALDIÐ

 

© Benóný Ægisson - Verkið má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar


Efst á síðu