FJÖLLEIKUR

HEIMKOMAN

HÖFUNDUR OG LEIKARI

HÖFUNDUR, LEIKARI OG LEIKSTJÓRI

BRÚÐUHEIMILIÐ

ÆFINGIN SKAPAR MEISTARANN

GÆRDAGURINN LIFIR GÓÐU LÍFI

SÖGUR UM DÝR

ÚR SEGULBANDASAFNINU

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Þríleikur fyrir höfund, leikara og leikstjóra

Sviðið er fangaklefi, stóll borð og rúm. LEIKARINN liggur í rúminu og starir upp í loftið.
LEIKSTJÓRINN og HÖFUNDURINN eru í salnum, en sitja ekki saman.
Fanginn liggur í rúminu og starir út í loftið. Hann stendur upp, gengur fram og til baka, stutt, í þröngum klefanum. Sest við borðið og horfir döprum augum fram í salinn. Stynur.
Stendur upp. Stynur.
Gengur um gólf. Leggst aftur í rúmið. Stynur.
Byltir sér um stund. Sest fram á rúmstokkinn og setur olnbogana á hnén. Stynur.
Hylur andlitið með höndunum. Axlirnar hristast í gráti.
Harkar af sér og stendur upp.


LEIKARI
Ég skal ekki láta bugast.

Gengur um gólf. Sest við borðið. Stynur.

LEIKARI
Fimmtán löng ár. Fimmtán löng ár. Fimmtán löng ár.

Grætur með ekkasogum.

LEIKARI
Fimmtán löng ár.

Stendur upp og gengur um gólf. Ætlar að setjast á rúmið en hættir við það en sest þess í stað á borðið. Stynur.
Stendur upp og gengur um gólf. Leggst síðan á gólfið og reynir að sofa. Byltir sér og getur ekki sofnað. Hann sest upp og stynur.
Hann stendur upp, sest við borðið og leggur olnbogana á það. Hylur andlitið í höndum sér. Grætur hljóðlega.
Sofnar grátandi fram á borðið. Hrýtur.
ÁHORFENDUR klappa. LEIKARINN hneigir sig.
LEIKSTJÓRINN kemur upp á sviðið og hneigir sig líka. Þeir/þær/þau kyssast og óska hvort öðru til hamingju. Finnst eitthvað vanta á sviðið og uppgötva að það er HÖFUNDURINN.
Benda HÖFUNDINUM að koma til sín og hvetja ÁHORFENDUR til að klappa áfram.
HÖFUNDUR hreyfir sig ekki en situr þvermóðskufullur í sæti sínu.
LEIKSTJÓRINN fer niður af sviðinu til HÖFUNDARINS.


LEIKSTJÓRI
Þetta var stórkostlegt! Stórkostlegt!
Lægra
Ætlarðu að láta bíða eftir þér í allt kvöld. Komdu upp á svið.

HÖFUNDUR
Ég kem ekki neitt.

LEIKSTJÓRI
Láttu ekki svona maður. Komdu nú.

HÖFUNDUR
Þetta er ekki lengur mitt verk.

LEIKSTJÓRI
Auðvitað er þetta þitt verk. Þú skrifaðir það.

HÖFUNDUR
Þú ættir að kalla þetta leikgerð. Það er ekkert eftir af minni hugsun í þessu.

LEIKSTJÓRI
Þú mátt alltaf búast við að ýmislegt breytist í æfingaferlinu.

HÖFUNDUR
Hvar eru ferðatöskurnar?

LEIKSTJÓRI
Ferðatöskurnar?

HÖFUNDUR
Já ferðatöskurnar sem voru í handritinu. Hvar eru þær?

LEIKSTJÓRI
Mér fannst þær óþarfar; þær bættu engu við verkið. Veistu það, að stundum fannst mér eins og þær væru úr öðru leikriti.

HÖFUNDUR
Ég vil fá töskurnar mínar aftur.

LEIKARI og LEIKSTJÓRI sækja töskurnar og færa HÖFUNDI.

LEIKARI
Sýningin kemst af án þín. Og til hamingju!

LEIKSTJÓRI
Taktu nú þínar töskur. Hver veit nema þú getir komið þeim fyrir annarsstaðar.

HÖFUNDURINN gengur í átt til frelsisins með sínar hafurtöskur. LEIKARI og LEIKSTJÓRI veifa honum af sviðinu.

TJALDIÐ

 

© Benóný Ægisson - Verkið má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar


Efst á síðu