Æfingin skapar meistarann
MAÐUR
Kom inn!
(Dyr opnast)
Nú ert það þú.
PILTUR
Já. Ég fékk póstinn frá þér.
MAÐUR
Komdu inn fyrir.
PILTUR
Þakka þér fyrir.
MAÐUR
Ekkert að þakka.
PILTUR
Ég kem þá innfyrir.
MAÐUR
Já, gjörðu svo vel.
PILTUR kemur inn og lokar dyrunum.
MAÐUR
Þú ert þá kominn inn.
PILTUR
Já.
MAÐUR
Þú ættir að venja þig á stundvísi. Hvað ungur nemur gamall temur.
PILTUR
Þakka þér fyrir. Þetta er gott ráð. Viltu að ég borgi þér fyrir það?
MAÐUR
Það er óþarfi. Við sem erum eldri og reyndari verðum að styðja við bakið á yngri kynslóðinni. Þegar ég var ungur tók ég alltaf ráðum þeirra eldri. Þessvegna er ég það í dag sem ég er í dag.
PILTUR
Ég skil.
MAÐUR
Þú minnir mig um margt á sjálfan mig þegar ég var ungur. En segðu mér eitt. Hvað geturðu?
PILTUR
Ég get talað dálítið. Og étið. Ef þú hendir spítu get ég sótt hana.
MAÐUR
Harla gott. En geturðu gengið?
PILTUR
Ég gæti reynt.
MAÐUR
Þetta líkar mér. Baráttugleðin númer eitt tvö og þrjú. Þá byrjum við. Einn tveir. Einn tveir. Einn tveir. Einn tveir. Einn þrír. Einn fimm.
PILTUR
En ég er ekki kominn svona langt.
MAÐUR
Ég var bara að prófa þig. Þetta var gildra og þú féllst í hana. Það er vegna reynsluleysis þíns. Þú verður að vara þig.
PILTUR
Ég skal gera það næst.
MAÐUR
Gott. En við verðum að mæla skreflengdina. Annars er ekkert að marka prófið. Nei. Ekki nota þinn tommustokk. Notaðu minn. Við verðum að hafa þetta alveg nákvæmt. Hvað er þetta langt?
PILTUR mælir
Tæpur hálfur
MAÐUR
Það er ekki nóg. Við verðum að bæta úr því. Með ströngum æfingum ætti það að vera hægt. Við byrjum. Einn tveir. Einn tveir. Einn tveir. Einn tveir.
MAÐUR OG PILTUR
Einn tveir. Einn tveir. Einn tveir. Einn tveir.
TJALDIÐ
© Benóný Ægisson - Verkið má ekki afrita eða flytja opinberlega án leyfis höfundar
|