4N       Nákvæmni - nærgætni - næmni - nánd

Öndvegissúlurnar eyðilagðar

Bólusett gegn B-lista

Klámhögg Kollu Halldórs

Nú eru þeir hræddir!

Klámvæðing auglýsingaheimsins

Einelti Antabusanna

Dagur ógnar Davíð

Loksins, loksins!


Öndvegissúlurnar eyðilagðar

Það hefur komið í ljós að anddyri það sem fjarlægt var af landnámsskálanum við Aðalstræti var alls ekki anddyri hendur öndvegissúlugeymsla Ingólfs Arnarssonar. Það var Ágúst Sveinsson gröfumaður sem fjarlægði afhýsið þegar hann var að slétta fyrir bílastæðum hótelsins sem á að rísa á bæjarstæði gamla Reykjavíkurbæjarins.

Þetta var hundgamalt drasl sagði Gústi grafa, grautfúið spýtnarusl, svo ég lét það bara gossa uppá búkolluna og lét keyra því í uppfyllingu einhversstaðar suður með sjó. Þar er það sjálfsagt enn ef einhver nennir að leita að því. Aðspurður um hvort hann hefði ekki átt að fara varlegar þar sem um fornminjar frá upphafi Íslandsbyggðar hefði verið að ræða sagði Gústi að þar sem unnið sé með stórvirkar vinnuvélar verði alltaf eitthvað undan að láta. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem ég fjarlægi fornminjar og ég skil ekki hvað fólk er að væla yfir þessu sagði Gústi grafa að lokum.

Björn Bjarnason borgarfulltrúi gerði harða hríð að borgarstjórnarmeirihlutanum út af þessu máli og sagði að þessi framkoma væri dæmigerð fyrir fjandsamlega afstöðu kommanna í R-listanum til vestrænnar menningar. Ég skil ekki þennan málflutning um fjandsamlega afstöðu meirihlutans til menningarverðmæta segir Stefán Jón Hafstein formaður menningarmálanefndar. Við höfum gefið eftir þrjú bílastæði hótelsins svo hægt væri að varðveita þessa rúst. Svo er það heldur ekki venjan hér í bæ að ræða ákvaðanir skipulags- og byggingarnefndar. 4N láta sér þetta að kenningu verða og setja heftiplástur á munninn á sér og laumast í burtu.

Nóvember 2003

Efst á síðu


Bólusett gegn B-lista

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa uppgötvað og einangrað meingen það sem gerir menn að Framsóknarmönnum. Kári klári Stefánsson segir þetta merkilegustu uppgötvun Íslenskrar erfðagreiningar til þessa og hafa menn þar á bæ hætt öllum rannsóknum á ómerkilegri sjúkdómum eins og krabbameini, alsheimer og alkóhólisma til að geta einbeitt sér að því að finna lækningu við þessu meini sem leggst í ættir og hefur leikið margar fjölskyldur grátt.

Hugsið ykkur hvílíkur sigur það væri fyrir mannsandann ef það væri bara hægt að bólusetja fólk fyrir þessu segir Kári klári. Þessi sjúkdómur myndi þá heyra sögunni til eins og holdsveikin og svartidauði. Við ætlum að leggja allt okkar í þetta því við getum ekki ímyndað okkur að við gætum þjónað mannkyninu betur.

Nóvember 2003

Efst á síðu


Klámhögg Kollu Halldórs

Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrum leikkona og nektarmódel og núverandi þingkona hefur magnað upp upp þvílíka móðursýki meðal kerlinganna í þinginu að allar líkur eru á því að það verði refsivert í framtíðinni að kaupa sér kvenmannsbelg. Þetta mun að sjálfsögðu koma verst niður á öryrkjum og öðrum þeim sem eiga undir högg að sækja í þessum efnum og mun án efa auka innflutninginn á póstkröfubrúðum og álagið á kvennaathvarfið. En það eru ekki allar konur ánægðar með þetta brölt kerlinganna í þinginu.

Þetta er alveg týpiskt fyrir þessa átókratísku laumukomma segir Gullý, starfandi stúlka í Hafnarfirðinum. Það á að drepa niður alla athafnasemi í konum og koma þeim fyrir bakvið eldhúsvaskinn. Og hvað á maður að gera? Ætlar þetta lið kannski að redda manni örorkubótum? Ég meina það, þetta er bara berufsverbot og ekkert annað ef á að fara að fæla frá manni kúnnana. Ég get svo svarið það að þetta lið verður ekki hamingjusamt fyrr en það er búið að koma Stalín aftur til valda. Og aumingja Steingrímur! Hún er búin að gera hann að femínista. Ég er viss um að Einar sterki Jónsson forfaðir hans byltir sér í gröfinni út af þessu.

Nóvember 2003

Efst á síðu


Nú eru þeir hræddir!

Það fær engum dulist, sem hefur hugrekki til að horfast í augu við það, að tilkoma vefmiðilsins 4N hefur valdið allnokkrum titringi á fjölmiðlamarkaðinum. Varla höfðum við brugðið brandi sannleikans á loft þegar sorpritið DV lyppaðist niður og lagði upp laupana með skuldahala sem var svo langur að það var eins og hann tilheyrði einhverju forsögulegu kvikindi. Nú berjast Mogginn og Fréttablaðið um hræið og keppast við að bjóða fram rassgatið á smáauglýsingamarkaðnum.

Verði þeim að því! Við munum reka flóttann frá sannleikanum og aldrei gefa þann höggstað á okkur að fara að selja auglýsingar. 4N er auglýsingalaus fjölmiðill sem lætur ekki markaðinn taka sig í rassgatið og þessvegna eru þeir skíthræddir við okkur. En bíðið þið bara!

Nóvember 2003

Efst á síðu


Klámvæðing auglýsingaheimsins

Að undanförnu hafa myndir af þjóðfrægu fólki með troðinn gúlinn af einhverju jukki vakið athygli enda ekki þverfótað fyrir þeim í fjölmiðlum og á almannafæri. Út úr fólkinu lekur torkennilegur hvítur vökvi og hefur hann komið sumu fólki afar pornógrafískt fyrir sjónir og er ekki gott að segja hvort ályktunin er rökræn eða ræðst af subbulegu innræti viðkomandi. En Ingiríður Ósk Ólafsdóttir lektor í kvennafræðum við Háskólann í Reykjavík er ekki í nokkrum vafa:

Þetta eru eins og japanskar bukkake-klámmyndir þetta helvíti, segir hún. Það er reyndar löngu vitað að auglýsingaiðnaðurinn er í eðli sínu vændisþjónusta en hinsvegar má velta fyrir sér stöðu þjóðkirkjunnar þegar einn af lykilmönnum hennar tekur þátt í slíku athæfi. Það þarf að leggjast í víðtækar rannsóknir á þessu fyrirbæri segir Ingiríður Ósk í Háskólanum í Reykjavík af þunga.

Október 2003

Efst á síðu


Einelti Antabusanna

Nú er sannleikurinn kominn fram í Þjófleikhúsmálinu. Árni Johnssen segir frá því í Fréttablaðinu að þó hann hafi aldrei drukkið vín þá sé hann fæddur fullur. Þessi opinberun gerir margt skiljanlegra en það var áður. Eins og allir vita þá er það lífsmynstur drykkjumanna að gera skandala, drepast, rísa upp þunnir og fá móral. Því er iðrunarleysi Árna ekki siðblinda eins og margir hafa talið heldur fötlun því Árni rís aldrei upp þunnur því hans meðfædda fyllerí tekur engan enda og gefur því ekki slík grið.

Jail House Rock
Aumingja Árni að skríða uppúr holu

Það má einnig segja að meðfætt ölæði hans sé hluti af skýringunni fyrir sjálfum glæpnum því allir vita að fylleríi fylgir mikið bruðl á peningum og menn eiga það til að grípa með sér ýmislegt lauslegt sem þeir hafa ekki hugmynd um hvaðan kom daginn eftir og geta því ekki skilað því. Með sama rétti má einnig halda því fram að vegna síns sjúkdóms sé Árni ekki ábyrgur gerða sinna og hefði því fremur átt að gista sjúkrahús en fangelsi. En slíkt réttlæti finnst ekki í landi sem er svo vínmenningarsnautt að brjálaðir bindindispostular hafa komið slíku óorði á brennivínið að bestu drykkjumenn liggja undir ámæli fyrir hluti sem þeir ráða ekki við, jafnt þeir meðvituðu sem þeir ómeðvituðu.

Október 2003

Efst á síðu


Dagur ógnar Davíð

Þegar valið um fyrstu Mannvitsbrekku vikunnar stóð yfir veitti Dagur B. Ekkertsson Davíð Oddssyni verðuga samkeppni vegna ummæla sinna um skipulagsmál í miðborg Reykjavíkur. Dagur B (besti?) hrífst mjög af hugmynd um gerð göngugötu og byggingu háhýsis á reitnum milli Lækjargötu og Pósthússtrætis. Eins og aðrir sem véla með skipulagsmál í Reykjavík vill hann ólmur byggja fyrir sólina og opna leið fyrir norðangarrann inn í miðborgina enda er búið að rækta upp allt of mikið skjól á undanförnum áratugum og meðal annars hefur hinn frægi og þjóðlegi vindstrengur á Lækjartorgi nánast horfið.

Dagur B (bólfimi?) segir að svo hægt sé að gera þetta nýja skuggasund þurfi að lyfta Hressingaskálanum og snúa honum um níutíu gráður og flytja Landfógetagarðinn. Við á vefritinu 4N náðum ekki alveg uppí það hvernig hægt væri að flytja þennan elsta skrúðgarð borgarinnar en komum ekki að tómum kofanum hjá Degi B (bráðgreinda?)

Jú, sjáiði til sagði Dagur B (bráðmyndarlegi?) í einkaviðtali við 4N. Við látum smíða stunguskóflu og látum bjóða smíðina út á evrópska efnahagssvæðinu svo að hún verði nógu stór. Svo fáum við einhvern sem er mjög stór í borginni til að stinga garðinn upp í einum hnaus og færa hann til.

Okkur lék forvitni á að vita hver væri svo stór í borginni.

Jú, sjáiði til sagði Dagur B (borgarfulltrúi?) í einkaviðtali við 4N. Ingibjörg Sólrún er mjög stór í borginni og ég get ekki betur séð en að Þórólfur sé að verða það líka. Þau gætu þetta bæði

Þú ert bestur Dagur B!

Október 2003

Efst á síðu


Loksins, loksins!

Loksins loksins loksins! Loksins vefmiðill sem pakkar sannleikanum inn í réttar umbúðir. Loksins vefmiðill sem fjallar á óvæginn hátt um ýmsar meinsemdir í þjóðfélaginu, stingur á kýlum og kreistir þau þangað til eiturgrænn viðbjóðurinn spýtist út úr graftarkaunum þjóðarlíkamans. Loksins vefmiðill sem fjallar um málin á nærgætinn hátt, æsingalaust og án upphrópana og gleymir ekki að geta þess sem vel er gert. Loksins vefmiðill sem flytur fréttir sem eru sannleikanum samkvæmar, ef ekki eins og þær eru þá eins og þær ættu að vera.

Íslenska þjóð! Til hamingju með 4N!

Október 2003

Efst á síðu



Mannvitsbrekka vikunnar

Hagfræðingurinn

Jónína Bjartmarz
alþingismaður

Titilinn Mannvitsbrekka vikunnar hlýtur Jónína Bjartmarz alþingismaður og formaður heilbrigðis- og trygginganefndar fyrir nýja hagfræðikenningu sína sem gengur út á það að hægt sé að fækka starfsmönnum Landspítala Háskólasjúkrahúss um 170 án þess að skerða þjónustu. Við þurfum á svona kraftaverkafólki að halda.

Titilinn Mannvitsbrekka vikunnar verður hjá þingmanninum þar til einhverjum tekst að toppa hana í mannviti

20. janúar 2004

Fjármálamaðurinn

Sigurður Einarsson
stjórnarformaður

Titilinn Mannvitsbrekka vikunnar hlaut Sigurður Einarsson fyrir réttláta reiði sína við Davíð Oddsson og fleiri stjórnmálamenn sem notfærðu sér aðstöðu sína til að grafa undan virðingu og trúverðugleika Kaupþings Búnaðarbanka. Hvað er athugavert við að menn sem eru duglegir að græða græði ennþá meira?

Sigurður Einarsson var Mannvitsbrekka vikunnar frá 23. nóvember 2003 til 20. janúar 2004

Leiðtoginn

Davíð Oddson
forsætisráðherra

Titilinn Mannvitsbrekka vikunnar hlaut Davíð Oddson fyrir að túlka öryrkjadóm Hæstaréttar sem sigur fyrir ríkisstjórnina. Ríkið þarf að greiða milljarð til öryrkja og Davíð veit sem er að þar er það fé vel komið. Við megum prísa okkur sæl fyrir að hafa forsætisráðherra sem aldrei bíður ósigur. Ef sigrarnir kosta milljarð, hvað myndu ósigrarnir þá kosta?

Davíð Oddsson var Mannvitsbrekka vikunnar frá 21. október til 23. nóvember 2003

4N       Niðurrif - neikvæðni - nöldur - níð